20.03.1939
Efri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (3606)

32. mál, samgöngur við Austfirði

*Flm. (Magnús Gíslason):

Á Austfjörðum hefir um langt skeið verið mikil og megn óánægja yfir þeim samgöngum, sem þessi landshluti hefir átt við að búa, og fyrir því höfum við hv. 9. landsk. leyft okkur að koma fram með þáltill. á þskj. 47, til þess að reyna að fá bót á þessu ástandi. Við förum fyrst og fremst fram á það, að strandferðunum verði framvegis hagað þannig, að ferðir verði jafnan hálfsmánaðarlega á milli Austfjarða og Reykjavíkur árið um kring, og í öðru lagi förum við fram á það, að hið nýja strandferðaskip verði notað til milliferða á sumrum, komi við á helztu höfnum Austfjarða, bæði á leið til lands og frá landi. Eins og kunnugt er, þá er vart um aðra samgönguleið að ræða frá þessum landsfjórðungi en sjóleiðina. Það er að vísu bílfært til Reykjavíkur, en sú samgöngubót hefir mesta þýðingu fyrir samgöngurnar á milli Norðurlandsins og Austfjarða, en minni þýðingu fyrir samgöngurnar við Reykjavík, því eins og kunnugt er, þá er þessi leið ekki fær sökum snjóa, nema 2–3 mán. ársins.

Um ferðir frá Austurlandi til Reykjavíkur, sem telja má, að almennt séu farnar, er ekki aðrar að ræða en sjóleiðina sunnanlands. Það má segja, að menn geti farið með strandferðaskipunum norður um, en það ferðalag tekur eina 10 daga og er mjög kostnaðarsamt, og er því sú leið alls ekki farin. Í till. er lagt til, að nokkuð verði bætt úr þessu. Sem stendur er aðeins einu strandferðaskipi ætlað að halda uppi þessum ferðum, sem sé Súðinni. Að vísu skilja menn þetta svo, að það sé bráðabirgðaástand, þar sem skipaútgerð ríkisins hefir nú annað skip í smíðum. Ef bæta á samgöngur milli Austurlands og Suðurlands, verður að hafa í huga, hvernig þeim var háttað meðan bæði Esja og Súðin voru þar í förum, en samkv. áætlun þeirra fyrir árið 1938 fóru skipin 10 hringferðir vestur um land og 11 hringferðir austur um land. Auk þess 4 ferðir austur um til Siglufjarðar, þar sem snúið var við sömu leið til baka, og þar að auki eina ferð til Austfjarða eingöngu. Þannig voru farnar alls 15 ferðir frá Reykjavík sunnanlands til Austfjarða, og 16 ferðir frá Austfjörðum sunnanlands til Reykjavíkur. Á þessu ári hafa skip Eimskipafélagsins siglt til Norður- og Vesturlands og komið á allar helztu hafnir þar.

Til þess að gera sér grein fyrir því, hve nauðsynlegt er að bæta úr samgöngunum, verður að athuga þær á árinu 1938. Eins og kunnugt er, eru það aðallega fólksflutningar, vöruflutningar og póstflutningar, sem strandferðaskipunum er ætlað að annast. Áður voru póstflutningarnir þannig, að landpóstur kom einu sinni í mánuði til Austurlands, en fyrir nokkru var þessu breytt svo, að þær ferðir voru lagðar niður og strandferðaskipunum falið að annast þær. Þetta hefir, hvað Austurland snertir, orðið til mikils óhagræðis vegna þess, að nú liður lengra á milli þess, sem menn geta fengið póst frá Reykjavík og komið pósti þangað heldur en áður var. Þannig var þessu svo varið síðastl. vetur, að samkv. áætlun átti Súðin að koma frá Reykjavík 13. desember, og var það síðasta ferðin á því ári. Samkv. áætlun þessa árs var ekki hægt að fá póst aftur frá Reykjavík fyrr en með ferð, er féll þann 24. janúar, eða sjö vikum síðar.

Hvað snertir fólksflutninga, þá eru þeir alltaf að aukast frá Austfjörðum til Reykjavíkur. Til þess liggja margar ástæður, en fyrst og fremst það hörmungarástand, sem hefir ríkt — og ríkir enn — í atvinnulífi á Austfjörðum undanfarin ár. Fjöldi fólks hefir orðið að leita sér atvinnu í Vestmannaeyjum og verstöðvunum hér sunnanlands. Er það þýðingarmikið fyrir þetta fólk að komast suður á hæfilegum tíma og heim aftur þegar vertíð er lokið. Sama gegnir um skólafólk, sem mjög margt sækir skóla hingað suður. Því er mikið hagsmunamál að komast heim þegar skólum lýkur, svo það þurfi ekki að kosta sig hér meðan það bíður ferðar, e. t. v. í hálfan mánuð til 3 vikur.

Einnig hefir öll verzlun færzt meira og minna til Reykjavíkur, í stað þess að áður fyrr fengu Austfirðingar vörur sínar beint frá útlöndum, og hefir því þörf fyrir þessar samgöngur einnig aukizt mjög hjá kaupsýslumönnum, sem nú verða að fara árlega hingað til að kaupa nauðsynjavörur, og eftir að verzlunarhömlurnar komu á, að tala við innflutnings- og gjaldeyrisnefndina til að fá þar innflutningsleyfi, því oft hefir ekki reynzt nóg að skrifa henni.

Loks eru svo Austfirðir verr settir en aðrir landshlutar vegna þess, að þar er ekkert fullkomið sjúkrahús. Því er fjöldi fólks, sem ekki getur fengið þar lækningu, einkum þegar um skurðlækningar er að ræða, og verða því að fara hingað. Á Austurlandi eru heldur engin röntgentæki, svo að þeir, sem e. t. v. ekki þurfa beinnar læknishjálpar, verða samt að fara hingað til að vita, hvað að þeim gengur.

Hvað vöruflutningana snertir, flyzt minna og minna af vörum beint til Austurlandsins síðan verzlunarhömlurnar voru settar á, og ýmsar vörur, svo sem vefnaðarvörur, járnvörur og isenkram, eru alls ekki fluttar til Austurlands, heldur beint til Reykjavíkur. Sama er að segja um allar einkasöluvörurnar. Við þetta bætist, að ekkert af skipum Eimskipafélagsins, sem til Austurlands kemur, siglir beint til Hamborgar. svo að allar vörur, sem koma frá meginlandi Evrópu, verða að fara hingað fyrst. Úr þessu verður margskonar óhagræði fyrir þá, sem vörurnar eiga, og kostnaðarauki. Skipin koma e. t. v. erlendis frá daginn eftir að Esja eða Súðin hafa farið austur, og þá hafa vörurnar orðið að liggja hér til næstu ferðar.

Ég hygg, að hv. þm. sé ljóst, að úr þessari samgönguþörf verði ekki bætt með 15–16 ferðum á ári. Er það því engin fjarstæða, sem við förum fram á með þáltill., að ferðunum verði fjölgað upp í 24–26, eða svo, að ferð falli á hálfsmánaðar fresti. Hvernig ferðunum skuli að öðru leyti haga, höfum við ekki farið út í, en búumst við, að skipaútgerð ríkisins sjái fyrir því, en við álítum, að með 2 skipum, öðru hraðskreiðu, ætti að vera hægt að fullnægja samgönguþörfinni.

Hvað snertir samgöngur við útlönd, eru þær alls ófullnægjandi, eins og gefur að skilja, þar sem aðalskipið, sem þar er til vöruflutninga, er Lagarfoss, sem samkv. áætlun er gert ráð fyrir að fari 8 ferðir á ári. Í þá átt er ekki farið lengra í kröfunum en að hið nýja millilandaskip komi við á Austfjörðum á ferðum sínum til og frá landinu. Við höfum ekki séð ástæðu til að fara sérstaklega fram á, að skip Eimskipafélagsins komi við á Austfjörðum, en gerum ráð fyrir, að hæstv. Alþingi og hv. samgmn. beiti áhrifum sínum við Eimskip, svo sem bezt má verða.

Það, sem vakir fyrir okkur, er að fá strandferðaskipin til að koma það oft til Austfjarða, að góðar samgöngur fáist við Reykjavík og að hæft verði nokkuð úr samgönguþörfinni við útlönd, einkum með það fyrir augum, að hægt verði að koma ísfiski í verð á Englandsmarkaðinum, og eins og atvinnulíf Austfjarða stendur nú höllum fótum, er það stórt bjargráð, að hagkvæmar ferðir fáist til útlanda, svo mögulegt væri að selja þangað ísaðan fisk, en það er ekki hægt nú. Á Austfjörðum eru víða góð kolamið og í maí og júní má oft veiða þar stórýsu, sem nú er góður markaður fyrir. Smáútvegurinn á Austfjörðum hefir borið sig illa undanfarið, sem og víðar á landinu, en dragnótaveiðin hefir þó verið bezt. Fengist dragnótaveiðitíminn lengdur, er von um, að atvinnan og afkoman geti batnað, ef beinar ferðir fengjust með aflann til Englands.

Ég geri ráð fyrir, að einhverjar mótbárur kunni að koma fram gegn þessari till., og þá einkum í sambandi við ferðirnar til útlanda og frá, vegna þess, að menn setji fyrir sig tímatöfina, sem að því yrði, að skipin sigldu fyrst til Austfjarða. En ég sé ekki, að svo mikil ástæða sé til að óttast það. Mér segja siglingafróðir menn, að töfin fyrir skipin muni ekki verða meiri en einn sólarhringur, ef komið er við á helztu höfnum Austurlands. Þær liggja tiltölulega skammt úr siglingaleið, enda ekki um stóra töf að ræða. Hinsvegar þykist ég vita, að þeim útlendingum, sem til landsins koma, mundi síður en svo þykja neitt að því að koma sem fyrst að landi, því margir vilja vera sem allra stytzt á sjónum, og stytzta siglingaleiðin frá Englandi til Íslands er einmitt til Austfjarða. Svo er eitt atriði í sambandi við þetta, sem ég vildi vekja athygli á. Ég þykist vita, að ríkisstj. stofni til þessara ferða ríkisskipsins með það fyrir augum að auka ferðamannastraum hingað og hafa af fjárhagslegan hagnað. Mér er sagt, að þeir útlendingar, sem hingað koma, fari til Þingvalla, Gullfoss og Geysis, og fari svo úr landi eftir nokkra daga. Nú væri hægt að auka hagnaðinn af komu útlendinga til landsins með því að láta þá fara á land á Austfjörðum og fara þaðan landveg til Reykjavíkur. Til þess yrði skipaútgerð ríkisins auðvitað að hafa til taks góð farartæki og sjá fyrir sæmilegum gististöðum á leiðinni, en það ætti ekki að verða mjög erfitt.

Þá get ég og hugsað mér, að ef flugferðir innanlands komast bráðlega í sæmilegt horf, sem ég vona að verði, þá mundi margur útlendingurinn, sem kæmi til Austfjarða, vilja fara í flugvél til Reykjavíkur. Álít ég, að mörgum finnist það hagkvæmt að nota sjóferðina til landsins, en fljúga svo strax frá Austfjörðum til Reykjavíkur, eða hvert á land, sem vill.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta meira að sinni, en vænti, að hv. þm. mæti þessum tillögum okkar með velvilja og skilningi og telji fært að veita málinu þann stuðning, sem þarf til að fá þessar samgöngur bættar.