20.03.1939
Neðri deild: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

18. mál, prentsmiðjur

*Frsm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Þessu máli fylgir ekki mikil framsaga. Menntmn. hefir orðið ásátt um að mæla með frv., en það hljóðar um, að l. frá 1928, sem eru breyting á eldri l., frá 1909, sem aftur eru breyting á enn eldri f., skuli hljóta þá viðbót, að sent skuli eintak af öllu, sem prentað er hér á landi, til háskólabókasafnsins í Winnipeg. Þessi löggjöf segir, að prentsmiðjum sé skylt að láta af hendi við söfn hér á landi allt, sem prentað er. 1928 var því bætt við, að þetta skyldi einnig gilda um amtsbókasafnið í Færeyjum, því að rétt þótti að verða við óskum Færeyinga um þetta. En við eigum þó enn skyldari frændur vestan hafs, og þeir hafa til þessa orðið að kaupa sínar bækur héðan. Mælir allt með því, að háskólabókasafninu í Winnipeg séu veitt þessi hlunnindi. Eiga þá prentsmiðjurnar að afgreiða allt, sem þær prenta, þangað. Þó þurfa þær ekki öðru til að kosta en að koma því í árslok til hlutaðeigandi lögreglustjóra, sem kemur því svo áleiðis.