27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

98. mál, verkamannabústaðir

*Héðinn Valdimarsson; Hv. þm., sem síðast talaði, virtist ekki kunnugur þessu máli og ruglaði öllu saman, byggingarsjóði og byggingarfélagi. — Þá kem ég að þungamiðjunni í ræðu hæstv. félmrh. Hann vildi enn halda því fram, að byggingarfélögin hefðu ekki uppfyllt þau skilyrði, sem þeim hefðu verið sett. Ég hefi áður skýrt frá því, við 1. umr. þessa máls, hvað reynslan hefir sýnt um þetta atriði, og hvað sem annars má segja um hv. þm., þá eru þeir það sæmilega greindir, að þeir ættu að geta séð slíkt.

Breyt. á 4. gr. þessara laga var gerð á fundi hjá Byggingarfélagi alþýðu, þess efnis, að sett bráðabirgðaákvæði skuli falla úr gildi undir 3 tilfellum. Í fyrsta lagi, ef lögin ná samþykki, en fá ekki staðfestingu stjórnarinnar, byggingarsjóðs og ráðuneytisins. Í öðru lagi, ef byggingarfélögin fá ekki lán til að byggja. Og í þriðja lagi, ef bráðabirgðaákvæði verða felld á þinginu. Það er svo barnalegt að halda því fram, að hér sé um að ræða skilyrði, sem sett hefðu verið í l.

Það er augljóst og það vita allir Reykvíkingar, að þegar talað var um þessi mál, sögðu hans nánustu fylgismenn innan byggingarfélagsins, að það skyldi aldrei koma fyrir að byggingarfélagið fengi lán úr byggingarsjóði Reykjavíkur. Afleiðingin af þessu varð fyrst og fremst sú, að byggingarnar hafa dregizt og orðið allmiklu dýrari. Maður má búast við, að ef launakjörin verða eins og þau hafa verið undanfarið, þá sé það rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það gætu ekki allir verkamenn búið í þeim.

Svo var það viðvíkjandi valinu á þeim mönnum, sem fá íbúðirnar. Því er komið á þann grundvöll í Byggingarfélagi alþýðu, að menn fá þær eftir þeirri röð, sem þeir hafa látið skrifa sig inn. Félmrh. vildi halda því fram, að í þessu nýja félagi hefði verið dregið um mennina. Félag þetta var stofnað með nokkuð undarlegum hætti, samkv. bráðabirgðalögum. Það var gengið á eftir mönnum með grasið í skónum að taka þátt í stofnun félagsins, og tókst að stefna saman fundi. Er skiljanlegt, að þeir, sem mest voru innundir hjá hæstv. félmrh., hafi tínzt með.

Eftir því, sem skýrt var frá í Alþbl., var dregið um milli 70 manna, hverjir fengju fyrstu íbúðir verkamannabústaðanna. Það hafa verið sendar um það fyrirspurnir til lögmanns, hvort þetta hafi átt sér stað. Er ekki bókað neitt um það hjá fulltrúunum, eftir því sem ég bezt veit, og ekki hægt að fá skriflega vissu um þetta.