22.02.1939
Sameinað þing: 3. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

1. mál, fjárlög 1940

*Forseti (HG):

Þá hefir hv. 3. þm. Reykv. lokið máli sínu, en áður en ég veiti þeim næsta orðið vil ég taka þetta fram:

Við síðustu kosningar til Alþingis hafa þessir þingmenn: hv. 5. þm. Reykv. (EOl), hv. 1. landsk. (BrB), og hv. 4. landsk. (ÍslH) verið kosnir til Alþingis sem þingmenn Kommúnistaflokksins og hv. 3. þm. Reykv. (HV) sem þingmaður Alþýðuflokksins, og var fullnæging framboðsskilyrða 27. og 28. gr. kosningalaganna bundin við þessa flokka. Á síðasta þingi varð sú breyting á, að einn þessara þingmanna, hv. 3. þm. Reykv. (HV), hvarf úr þingflokki Alþýðuflokksins og hefir síðan verið utan þingflokka.

Samkv. bréfi því, er ég las upp áðan, hefir Kommúnistaflokkurinn hætt að starfa sem sérstakur stjórnmálaflokkur og gengið til nýrrar flokksmyndunar með hv. 3. þm. Reykv. og fleirum. Jafnframt óska þeir þm., sem bréfið hafa undirritað, að flokkur sá, sem þeir telja sig hafa myndað, Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn, verði viðurkenndur sem þingflokkur og þeim ákveðinn ræðutími við útvarpsumræður samkv. því.

Þingflokkur samkvæmt þingsköpum og kosningalögum telst sá stjórnmálaflokkur, sem haft hefir mann eða menn í kjöri við síðustu kosningar, að fullnægðum skilyrðum 27. og 28. gr. kosningalaganna, og fengið kosinn fulltrúa á Alþingi. Þar sem Sameiningarflokkur alþýðu –Sósíalistaflokkurinn, sem hv. 3. þm. Reykv. (HV), hv. 5. þm. Reykv. (EOl), hv. 1. landsk. þm. (BrB) og hv. 4. landsk. þm. (ÍslH) telja sig fulltrúa fyrir, fullnægir ekki þeim skilyrðum. er til þess þarf að teljast þingflokkur, verða allir þessir hv. þm. að teljast utan þingflokka og fá ræðutíma við útvarpsumræður samkv. 52. gr. þingskapanna, þ. e. allir samtals jafnan tíma og hver þingflokkanna.

Þá er þessum þingskapaumræðum lokið, og næstur tekur til máls hv. 5. þm. Reykv. og talar utan flokka.