18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

41. mál, íþróttasjóður

Bjarni Bjarnason:

Ég vil víkja nokkuð að því, sem fram hefir komið hér í umr., að fjvn. hefir tekið upp allverulega fjárhæð umfram það, sem á fjárlagafrv. var. Vildi ég svara því aðeins, að þetta er ekki rétt, því að það munar 2–3 þús. kr. hvað fjvn. hefir hærri till. heldur en er í fjárlagafrv. En þessar 30 þús. kr., sem fjvn. hefir lagt til, að teknar verði upp til íþróttasjóðs, er 14–15 þús. kr. lægri upphæð heldur en í núgildandi fjárl. til íþróttamála. Svo að þessi herferð á hendur þeim mönnum, sem vilja leggja eitthvað fé af mörkum til íþróttamála, er nú bæði röng og þau orð, sem fallið hafa í garð fjvn. í þessu sambandi, á allan hátt ómakleg. Það hefði frekar verið ástæða til að ámæla bæði hæstv. fjmrh. og fjvn. fyrir það, að taka ekki upp a. m. k. sömu upphæð til íþróttamála á fjárl. fyrir árið 1941 eins og er á fjárl. yfirstandandi árs. Þetta vildi ég láta koma fram, svo að ekki væri hægt lengur að halda því fram, að fjvn. hefði verið sérstaklega örlát í þessu skyni, þó að ég teldi hinsvegar, að það hefði orðið henni til sæmdar, að hún hefði verið sem allra örlátust við íþróttamálin.

Hv. þm. A.-Húnv. hefir nú haldið hér tvær langar ræður um þetta mál. Eitt meginatriði í hans ræðum um þetta er það, að Alþ. eigi á hverjum tíma að ákveða, hve miklu fé skuli vera varið til íþróttamála. Fyrir þá menn, sem njóta eiga styrks úr ríkissjóði eða annarstaðar að með aðstoð Alþ., er það miklu meira virði að fá tekjustofna, sem eru ákveðnir, heldur en að eiga það á hverju ári undir Alþ., þó að það geti að vísu verið gott, ef ekki er um annað að ræða. En hitt er betra.

Að það sé óráð og óvitlegt að skapa einstökum félögum eða stofnunum svona tekjustofna eins og hér er gert ráð fyrir, er að mínu viti rangur hugsunarháttur. Skal ég koma seinna að því í sambandi við það, sem fram hefir komið í sambandi við bindindi og íþróttastarf.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þó að það væri álitlegt og gott að fá svona tekjustofn fyrir þessa starfsemi, þá mætti líka segja, að svo væri það líka fyrir byggingar í sveitum. En ef tekjustofninn er góður og álitlegur, þá er hann það engu síður fyrir aðra starfsemi en byggingar í sveitum. Hv. þm. A.-Húnv. viðurkenndi þannig, að tekjustofninn væri góður. En um það má auðvitað deila, hvernig eigi að nota tekjustofna.

Ef við athugum, hverjir standa að íþróttahreyfingunni og íþróttastarfseminni, þá er það bæði hið opinbera, sem sé skólarnir, og einstakir menn. Þannig hafa ýmsir skólar fengið aðstöðu til þess að iðka íþróttir rækilega. Ég veit ekki til, að ágreiningur sé um það, að nemendum sé það hollt frá ýmsu sjónarmiði að stunda íþróttir, og skal ég ekki rekja öll þau atriði, sem þar koma til greina sem verulega gagnleg. En að skólunum undanskildum má heita, að íþróttastarfsemin sé eingöngu borin uppi af áhugamönnum sem sjálfboðaliðum. Þrátt fyrir það, þó að nokkuð hafi verið gert fyrir íþróttastarfsemina á undanförnum árum af Alþ., verður samt að viðurkenna, að þessir sjálfboðaliðar meðal áhugamanna í íþróttum hafa á engan hátt fengið þann hljómgrunn hjá Alþ., sem þeir hafa verðskuldað. Einstakir menn hafa gert alveg stórkostleg átök fyrir íþróttamálin í landinu. Skal ég í því sambandi nefna menn eins og Jón Þorsteinsson, sem hefir ráðizt í að reisa íþróttahús hér í Reykjavík, sem er í raun og veru það eina hús hér, sem samtíðinni er samboðið, annað en sundhöllin. Þetta hefir Reykjavíkurbær ekki treyst sér til að framkvæma. Annan mann vil ég nefna, Sigurð Greipsson í Haukadal í Biskupstungum. Hann reisti íþróttaskóla til þess að ala upp íþróttamenn, sem gætu svo m. a. leiðbeint öðrum. Það eru einkum sveitamenn, sem þar hafa verið við nám, og hefir áhrifa þaðan gætt út um allt land. Jón Þorsteinsson hefir fengið smáupphæð tvisvar á fjárl., og Sigurður Greipsson hefir fengið þrjú síðustu árin, ef ég man rétt, 1 þús. kr. í rekstrarstyrk. Þetta er allt og sumt. Vera má, að Reykjavíkurbær hafi verið Jóni Þorsteinssyni innan handar um lóð með góðum kjörum, þó ég viti það ekki; en ég tel víst, að bærinn hafi verið svo sanngjarn og víðsýnn.

Viðvíkjandi þeirri skoðun, að það sé óviðeigandi að fara að styðja starfsemi eins og íþróttastarfsemi og íþróttalíf í landinu yfirleitt með svona „ógöfugum“ tekjustofnum, þar sem um er að ræða aukið verð á áfengi og tóbaki — rödd hefir komið fram um það, þó ekki hér í hv. þd. svo að ég viti, að bindindismenn meðal íþróttamanna ættu að vera á móti því að fara þá leið til tekjuöflunar til íþróttamála sem hér er leitað eftir —, vil ég segja, að ég tel slíkt algerlega ranga skoðun. Bindindismenn eiga að styðja að því m. a., að áfengi og tóbak sé svo dýrt, að mönnum verði beinlínis erfitt um að kaupa það af þeim ástæðum. Í öðru lagi hefir enginn treyst sér til að mótmæla þeirri röksemd, að yfirleitt séu íþróttirnar sú tegund uppeldismeðala, sem mest gagn geri til þess að vinna á móti nautn áfengis og tóbaks. Þar af leiðandi væri rökrétt, að bindindismenn segðu sem svo: Eftir því sem vel uppaldir, sannir íþróttamenn verða fleiri, fækkar þeim mönnum, sem neyta víns og tóbaks. Þetta er líka mín sannfæring. Að vísu lækka tekjurnar, sem við fáum í ríkissjóð og íþróttasjóð, eftir því sem minna selst, en við viljum sannarlega fórna slíkum tekjustofni fyrir okkar unga fólk, því að fyrst og fremst fáum við góða íþróttamenn, samhliða bindindisstarfseminni, ekki aðeins á vín, heldur líka á tóbak, og auk þess betri borgara; en reglusamir borgarar er sú trausta undirstaða, sem gefur sterkan æskulýð. Ég geri ráð fyrir, að allir sannir áhugamenn um íþróttamál mundu vilja viðurkenna þetta sjónarmið og mundu vilja vinna á sérhvern hátt á móti nautn áfengis og tóbaks, einnig þó að það gengi út yfir tekjur þeirra af sölu þessara vara.

Hv. þm. A.-Húnv. kom fram með kenningu í sambandi við flutninga fólks úr sveitum til bæja, sem mér þótti nokkuð einkennileg. Hann talaði um skemmtanaauglýsingar, og þar með auglýsingar um íþróttir og íþróttamót og þess háttar hér í Reykjavík. Það skildist mér eiga að vera ein ástæðan til þess, að hann áliti það vera varhugavert að gera mikið auglýsingaveður út af íþróttastarfseminni í þéttbýlinu, — það gæti dregið hugi unga fólksins um of að skemmtanalífi bæjanna. En í íþróttal. er beinlínis tekið fram, að íþróttasjóði skuli varið til byggingar á sundlaugum, íþróttahúsum, íþróttavöllum o. þ. h. Vitanlega mundi engum detta í hug annað en að þetta verði unnið jöfnum höndum út um dreifbýlið og í þéttbýlinu. Ég held, að þetta sé þá till. í þá átt að fá upp stöðvar til þess að hæna fólkið að, einmitt líka úti um sveitirnar. Það, sem ég hygg, að okkur vanti einna tilfinnanlegast úti um sveitir landsins, eru vandaðar sundlaugar, skóla- og fundahús. Þær framkvæmdir mundu áreiðanlega auka fjölbreytni í lífi sveitanna. Íþróttastarfsemin gæti því orðið höfuðmótvægi á móti þeim óróleika, sem fólkið er margt haldið af í sveitinni, sem stafar einmitt af því, hvað lífið þar er tilbreytingarlaust. Og þar, sem íþróttahús eru til í sveitum nú, eru þau notuð sem samkomustaðir, og þar, sem þau eru, hafa þau bætt aðstöðu manna til þess að hafa margskonar fundahöld. Skólarnir eru reknir í sambandi við þessi hús og íþróttastarfið.

Það er mesti misskilningur, ef einhver kynni að halda það, að það sé ekki hægt að halda uppi íþróttastarfsemi úti um sveitir, ef til þess eru skilyrði hvað hús og útbúnað snertir. Og íþróttasjóði er ætlað að bæta úr því lélega ástandi, sem nú á sér stað um þessa hluti.

Það er alleinkennilegt að sjá hér við meðferð þessa máls blandað saman svo óskyldum efnum sem íþróttum annarsvegar og áburðarkaupum og jarðrækt hinsvegar. Þó að á engan hátt sé gerandi lítið úr þörfinni fyrir fjármuni til þess að geta keypt útlendan áburð og að geta ræktað landið, þá vil ég samt benda mönnum á, að einmitt þetta frv., ef það verður samþ. og þar með er séð fyrir verulegum tekjum til íþróttamálanna, ætti ekki að spilla neitt fyrir því í sjálfu sér, að möguleiki væri til þess, að fjvn. gæti gert eitthvað fyrir áburðareinkasöluna. Augljóst er, að ef þessi tekjustofn er heimilaður fyrir íþróttasjóð, þá mundu þó frekar vera möguleikar á því að taka af þessari 30 þús. kr. fjárveitingu, sem fjvn. leggur til, að tekin verði upp til íþróttasjóðs, og athuga, hvað gera skyldi við þá upphæð, ef ekki væri talið nauðsynlegt að lækka fjárl. um þá upphæð. Svo að ég held, að það séu einmitt meðmæli með frv., beinlínis með tilliti til áburðarsölunnar og fleiri góðra mála, að fara þessa tekjuöflunarleið, sem hér er gert ráð fyrir, og geta rýmkað á fjárl. um þessa upphæð. En ég hefi litla trú á því, að málið verði afgr. á þeim grundvelli, sem hv. 3. landsk. leggur til.

Mér þótti einkennilegt, þegar hv. 2. þm. Skagf. hefir þau orð, að þessar tekjur, sem gert er ráð fyrir í frv., yrðu notaðar eins og hann vill vera láta. Hann segir, að hér sé verið að afla tekna, sem verði vasapeningar fyrir tildursfélög, eins og hann orðaði það. Mér þykir einkennilegt, að hann skuli viðhafa þessi orð, þar sem hann skrifaði undir nál. ásamt 2 öðrum nm. fyrirvaralaust að öðru leyti en því, að þeir áskilja sér rétt til brtt. Sá fyrirvari getur því ekki verið um það, að fella niður þennan tekjustofn, af því að féð yrði notað sem vasapeningar fyrir tildursfélög. Þau orð fela í sér beina óvild gegn málinu sjálfu.

Ef hv. þm. vill athuga þetta frv. og íþróttalögin og kynna sér, til hvers skuli verja fé íþróttasjóðs, þá sér hann, að félögunum er ekki afhent þetta fé, heldur er gert ráð fyrir, að skipaður sé íþróttafulltrúi og íþróttanefnd. Íþróttafulltrúi á að kynna sér ástandið í íþróttamálum hvarvetna um land, gera till. þar að lútandi og leggja þær síðan fyrir íþróttanefnd, sem svo ræður því, hvernig fénu er varið. Ég geri ráð fyrir, að þessi n. verði þannig skipuð, að hún hugsi sér að gera annað við þessa peninga en að veita þá sem vasapeninga fyrir tildursfélög. Ég skil ekki, að svona óvild gegn málinu skuli koma frá manni, sem hefir lagt til, að það yrði samþ.

Ég fer alls ekki að eyða tíma þingsins í að tala um gildi íþróttanna. Sumir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa farið um þær mörgum fögrum orðum, um leið og þeir kippa að sér hendinni um stuðning við þetta mál, sem á að vera lyftistöng fyrir íþróttirnar í landinu. Ég met þeirra orð því ekki mikils. Þau eru sannkallaður fagurgali. Það eru ekki fögur orð, sem við fyrst og fremst þurfum með, heldur einbeittur vilji og lifandi áhugi fyrir þessu mikla menningarmáli. En ég sé ekki, að þessu góða máli verði betur borgið með því að láta fjvn. eða Alþ. ákveða fjárveitinguna í hvert skipti, eins og þessir hv. þm. vilja vera láta.

Það getur vel verið, að það væri gott fyrir málið, sem hv. þm. Snæf. stakk upp á, að það væri athugað í flokkunum, áður en það verður afgr., því að vitanlega er þetta mál eitt af þeim, sem verður að afgr. með samkomulagi allra flokka eða sem allra flestra einstaklinga. Þannig var það með íþróttalögin sjálf. Þegar þau voru til umr., voru mjög skiptar skoðanir um þau, en samt lauk málinu svo, að það var afgr. með samþykki langflestra hv. þm. Tel ég, að það hafi verið mjög vel farið, og eins þarf að verða með þetta mál, sem snertir svo mjög íþróttalögin, að reyna að leysa það með samkomulagi sem allra flestra, en það tel ég ekki hægt, ef á að fara að halda fast fram þeim skoðunum, að draga skuli mjög úr framlagi til íþróttasjóðs. Einnig vil ég algerlega mótmæla því, að verið sé að blanda inn í þetta algerlega óskyldum málum, eins og hér hefir verið gert. Það er þá miklu hreinlegra fyrir þá hv. þm., sem það gera, að vera á móti málinu. Ég held líka, að framleiðslustarfsemin í landinu sé þess eðlis, að réttara sé að styðja hana með öðru en tekjum af stimpilmerkjum eða álíka tekjustofnum.