18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

41. mál, íþróttasjóður

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Svokölluð íþróttalög, sem voru afgr. á síðasta þingi, gerðu ráð fyrir, að til væri íþróttasjóður, og sögðu fyrir um, hvernig honum skyldi ráðstafað. Nú er þar talað um, að sjá þurfi honum fyrir tekjum, og get ég ekki neitað því, að mér þótti dálítið spennandi að bíða þess, hvernig till. kæmu fram um tekjuöflun til þessa sjóðs. Ég get ekki heldur neitað því, að þegar þessar till. komu fram, sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi, varð ég nokkuð undrandi.

Það eru þrír tekjustofnar, sem sjóðnum er ætlað að hafa, brennivín, tóbak og veðmálastarfsemi, m. ö. o., það eru þær þrjár tegundir viðskipta í þjóðfélaginu, sem talið er, að séu til mestrar bölvunar í hverju þjóðfélagi sem er. Strax var þetta nokkuð undrunarefni, en að vísu skal ég játa, að áður var komið inn á þessa braut hér á Alþingi Íslendinga, en það var gert, þegar ákveðið var að stofna af samskonar blóðpeningum svokallaðan menningarsjóð, sem átti að styðjast við ómenningu landsmanna. Menn geta haft ýmsar skoðanir um, hvort þetta sé fagurt eða ófagurt eða hvort það sé til gagns og gæfu eða ekki. Mér þykir það ákaflega ógöfugt, en um það má auðvitað deila óendanlega. Það kom þá líka í ljós, að ekki er hugkvæmnin mikil, þegar afla þarf tekna til nýrrar starfsemi og lagt er til að gera það á þennan hátt. Mér virðist það gefa manni bendingu um, að nú sé svo komið, að ekki sé til sá tekjustofn, sem ekki sé þegar þrautpíndur. Þeir, sem hafa átt að sjá þessu nýmæli fyrir tekjum, hafa sjálfsagt leitað í margar áttir og hafa sjálfsagt hugsað sig um vel og lengi, hvar ætti að bera niður, og niðurstaðan varð þá svona féleg, m. ö. o. tekjustofn, sem ekki getur gefið af sér tekjur nema í hlutfalli við ómenningu og ósiðsemi landsmanna.

Ég er viss um, að það eru mörg mál, sem þessir menn hafa áhuga fyrir og þykir vænt um, og ég er sannfærður um, að þeir eiga einhver áhugamál, sem þeir vildu ekki fá tekjur til með þessu móti. Nú er það líka svo, að talað er um, að hér sé um aðalmenningarstarfsemi þjóðarinnar að ræða, íþróttamálin. Þetta er náttúrlega tímanna tákn. Þetta breytist ýmislega upp og niður, hvað talið er þjóðinni til menningar. Einu sinni átti kristni og kirkja að skapa menningu hjá þjóðinni, og það þótti vel ráðið, að sú stofnun hefði yfirhöndina í mörgum málum, og það hefir yfirleitt farið prýðilega. Nú tók ég eftir, að hæstv. forsrh. sagði, að nú væri íþróttastarfsemin í landinu það, sem hann hefði mesta trú á, að yrði landsmönnum að siðferðislegu gagni. Ég skal ekki draga úr því, að íþróttirnar geti verið gagnlegar. En mér þykir alveg úr hófi keyra, þegar því er haldið fram, að nú sé íþróttastarfsemin aðalmenningarstarfsemin í landinu. Þá er komið úr lagi og úr jafnvægi mat manna á þessum hlutum, og árangurinn mun vafalaust fara eftir því.

Þegar talað er um, að íþróttir séu öðru fremur líklegar til að stuðla að því, að menn verði bindindismenn á vín og tóbak, þá er það líka nýtt, en ég held, að það sé ekki nein speki í því fólgin, þó að hitt sé rétt, að margir íþróttamenn séu bindindismenn á vín og jafnvel tóbak. Ég minni á aðra starfsemi í landinu, sem sérstaklega hefir snúið sér að því að vinna á móti áfengisnotkun, og það er sú starfsemi, sem kallar sig beinlínis bindindisstarfsemi. Ég er sannfærður um, að sú starfsemi er miklu líklegri til þess með stuðningi þess opinbera að draga úr áfengisneyzlunni í landinu heldur en íþróttastarfsemin. En hvernig hefir verið búið að þessari starfsemi af hálfu Alþ.? Misjafnlega, en yfirleitt hafa framlög til hennar ákaflega mikið verið skorin við neglur sér, og það svo, að félagsskapur sá, sem að þeirri starfsemi stendur, hefir árum saman átt við mjög mikla fjárhagsörðugleika að stríða, og þó er þar um að ræða fólk, sem leggur miklu meira á sig en íþróttamenn hafa nokkurn tíma gert. Þess vegna er það gripið úr lausu lofti, þegar menn standa hér upp og segja, að nú fyrst sé von um, að vinna megi að bindindi og siðlæti með íþróttum, en gleyma allri þeirri starfsemi, sem háð hefir verið af templurum, láta eins og hún sé ekki til, heldur þurfi nú að fá annað í staðinn. M. ö. o., hér er merkileg nýjung á ferðinni, svo merkileg, að það þykir mega afhenda henni verulegan hluta af tekjustofnum ríkissjóðs, afhenda hann þannig, að hún verði þátttakandi í tekjum ríkissjóðs. Ég held, að þetta sé rangt. Ég held, að ekki eigi að fara þessa leið. Ég held, að margt, sem hér hefir verið sagt gegn þessari fjáröflunarleið, sé rétt. Ég held, að sú tilhneiging, sem hér ríkir hjá mörgum hv. þm., sem kalla andstöðu gegn þessu allskonar illum nöfnum, sé mjög vafasöm og komi ekki af áhuga fyrir málefninu sjálfu.

Ég skal ekki fara langt út í umr. um íþróttastarfsemina sjálfa eins og hún hefir verið hingað til. En ég get ekki neitað mér um að benda á, að einn hv. þm., 2. þm. Árn., gerði, svo sem réttlátt er, mikið úr því, að nokkrir menn hefðu lagt á sig erfiði fyrir íþróttastarfsemina. Það er rétt og gott. Hann kvartaði yfir, að þessum mönnum hefði ekki verið nægilegur sómi sýndur fjárhagslega af Alþ., og tók þar sérstaklega fram nöfn tveggja manna, Jóns Þorsteinssonar og Sigurðar Greipssonar, og spyr, hvað þessir menn hafi fengið úr ríkissjóði fyrir starfsemi sína. Fyrst og fremst má lengi um það tala, hvort menn, sem taka upp slíka starfsemi sem venjuleg viðskiptafyrirtæki, eigi að fá opinberan styrk til þess. Mér þótti einkennilegt, að hann gleymdi einu nafni, sem er eftirtektarverðast af þeim öllum saman, en það er Sigurjón Pétursson, sem áratugum saman hefir unnið af áhuga að íþróttum án fjárframlaga frá því opinbera. Ég man ekki til, að hann hafi nokkurn tíma fengið áheyrn hjá Alþingi um sínar óskir. (SK: Hann er ekki af réttum pólitískum lit. — BjB: Hann mátti koma með í ræðu minni. — BÁ: Hann hefir fengið styrk hjá Alþingi). Hann kom fyrstur með íþróttastarfsemi sína, og hann hefir sýnt, að það er hægt að halda slíkri starfsemi uppi án styrks, og hann átti litlum vinsældum að fagna, þegar hann sótti um styrk til þess opinbera vegna fjárhagsörðugleika. Þetta hefir blessazt hjá honum án opinberra afskipta. En nú, þegar aðrir fara í spor hans og gera eitthvað svipað, þá fara þeir að kvarta og kveina um, að ríkið hlaupi til og ausi út fé til þeirra umfram það, sem nauðsyn krefur.

Ég tók eftir, að hæstv. dómsmrh. sagði, að hann hefði ekki viljað láta bera þetta frv. fram fyrir sig, þar sem það hefði ekki verið lagt fram fyrir stj. Ég verð að segja, að mér finnst einkennilegt, að svona merkilegt prinsipmál eins og hér um ræðir skuli ekki hafa verið lagt fyrir stj., því að ég verð að álíta, að ef íþróttirnar í landinu eiga að fá svona tekjustofn, þá séu mörg önnur verkefni í landinu, sem ættu að njóta svipaðra kjara, og mér finnst ekki rétt að fara að veita íþróttunum þessa sérstöðu. Mér finnst þetta ískyggilegt, þegar verið er að tala um, að svo kunni að fara, að Alþ. seinna meir mundi ef til vill ekki treysta sér til að veita nægilegt fé úr ríkissjóði til íþróttamála, og því sé betra að sjá íþróttasjóði fyrir sérstökum tekjustofni. Við vitum, að til eru mörg mál, sem ekki þykir fært að framkvæma vegna erfiðrar afkomu ríkissjóðs. Íþróttirnar eru þar engin undantekning. Ég hefði miklu heldur viljað veita fé til að brúa Jökulsá, sem till. var borin fram um nú við fjárl. og féll með jöfnum atkv., eins og menn muna, heldur en að veita 100 þús. kr. til íþrótta. Það er réttara mál og skyldara fyrir Alþ. og eftir eðli sínu miklu nauðsynlegra en að veita fé til íþróttastarfsemi. Hv. þm. mega ekki líta á pólitíska þýðingu þessara tveggja mála. Það er auðvitað ekki hægt að fá pólitískt fylgi vegna brúar á Jökulsá nema í einu eða tveimur kjördæmum, en það má afla sér pólitísks fylgis um allt land með því að bera fram frv. um fjárframlög til íþróttamála, — en þetta má ekki vera sjónarmiðið. Hér er verið að verja fé til styrktar íþróttamálum til viðbótar þeim framlögum, sem íþróttamenn sjálfir hafa lagt fram, sem eru alveg skammarlega lítil. Það er atriði, sem mér finnst rétt að athuga. Hvað leggja íþróttamena sjálfir fram? Ég hygg, að það sé svo lítið, að ekki sé við unandi, að ríkissjóður bæti þar við 100 þús. kr. á ári. Það verður að gera þá kröfu, að íþróttamenn leggi á sig fjárhagslegar byrðar eitthvað sambærilegt við það, sem meðlimir annara félaga gera til sinnar starfsemi, t. d. góðtemplarareglan. Þetta framlag kemur til viðbótar þeirra eigin framlagi og að einhverju leyti í staðinn fyrir það, því að mér þykir líklegt, að það fé, sem lagt hefir verið fram til íþrótta annarstaðar frá, verði nú ekki lengur lagt fram, ef svona ríflegt framlag verður nú veitt úr ríkissjóði. Að vísu er það svo, að það á að dreifa fé úr ríkissjóði á undarlegasta hátt milli skóla, félaga og einstakra manna. Það mætti t. d. byggja fyrir fé úr þessum sjóði leikfimishús við menntaskólann í Reykjavík. Þar er og hefir verið lengi slæmt leikfimishús, en það opinbera hefir ekki treyst sér til að leggja fram fé til að byggja annað nýtt. En er það nokkur aðferð, að leggja á þennan hátt hluta af tekjum ríkissjóðs í sérstakan sjóð og láta svo 3 manna n. verja því fé til framkvæmda, sem Alþ. hefir ekki treyst sér til að veita fé til? Það er athugandi í þessu sambandi, hvað íþróttastarfsemi í skólum er ákaflega vafasamt mál, ef á allt er litið. Það má iðka íþróttir til mikils gagns, en líka til tjóns, eins og sorgleg dæmi sýna, og í skólunum eru þær a. m. k. ýmsum einstaklingum til ógagns. Ef þar þarf mikilla breytinga við til að afstýra því, að tjón og gagn éti upp hvort annað, er það eitt, sem mælir gegn svo lítt hugsaðri fjáröflun, sem hér er krafizt, til þeirrar starfsemi eins og hún er, eða t. d. til húsbygginga til íþrótta skólaungdómsins.

Þegar málið er rætt á sama grundvelli og hv. frsm. meiri hl. gerði, get ég ekki annað en hrist höfuðið, þegar hann t. d. sagði, að það væri eftirtektarvert, hve lítið brot af tekjum ríkisins gengi til þess að beina tómstundanotkun æskulýðsins á réttari brautir. Skelfing held ég það sé vafasamt, hvað upp úr slíkum afskiptum hefðist. Hér hefir lengi verið skólaskylda, sem nær frá 7 eða 8 ára aldri til fermingar, og margir í skólum fram undir tvítugt. Þannig átti að fullkomna þjóðina í öllum fræðum og listum. Og hver er árangurinn? Minni en til stóð. Í þeim efnum held ég við séum komnir í hinn mesta vanda og ættum ekki að hleypa okkur í annan meiri með því að takast á hendur ábyrgð á því líka, hvernig ungdómurinn ver tómstundum sínum.

Hv. þm. Snæf. talaði um, að vel ætti við að verja einhverjum hluta af því, sem greitt er fyrir nautnameðul, til þess að efla heilbrigði og hreysti landsmanna með íþróttum. Mér þætti satt að segja önnur notkun þessara blóðpeninga liggja nær og þá notast betur að þeim. Með þeim þyrfti að lækna einhver þeirra sára, sem nautnirnar hafa veitt, bæta t. d. úr þeirri eymd, sem m. a. áfengið hefir átt laundrjúgan þátt í að skapa sumstaðar við sjóinn hér á landi. Það hefir oft verið farið fram á það, að nokkur hluti af ríkistekjum af áfengissölu rynni til bæjarþarfa á stöðum, sem hið opinbera hefir neytt áfengisverzluninni upp á. En það hefir ekki fengizt nokkur áheyrn, þó að viðurkennt sé, hvað leiðir af áfengisflóðinu fyrir þessa staði, þessu flóði, sem verður því meira sem afkoma manna er skaplegri og skárri. En af svo lítilli alvöru taka menn á þessum málum, að nú vilja menn heldur verja áfengistekjunum til þessarar skemmtistarfsemi.

Um þetta mál geta verið skiptar skoðanir, en mín er nú þessi, að óþarflega mikið sé í íþróttastarfsemina borið með frv., eins og það er, og í öðru lagi, að fyrir heilbrigða íþróttamenning væru þessir tekjustofnar ákaflega óviðkunnanlegir og leiðinlegir, þó að íþróttanefndinni gætu ekki hugkvæmzt neinir betri eða neinir aðrir en þessir þrír; brennivín, tóbak og spilafíkn, — til þess að skapa heilbrigða sál í hraustum líkama.