18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

41. mál, íþróttasjóður

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég harma það, hve fáir hv. dm. eru hér komnir, því að ég hefði viljað ræða nokkuð við ýmsa, sem talað hafa hér í þessu máli. En engu að síður virðist mér ég verða að fara nokkrum orðum um ræður ýmissa hv. þm., sem í þessu máli hafa talað. Yfirleitt virðist mér vera einn og samur bragurinn á afstöðu andmælenda frv., að ganga ekki beint framan að ákvæðum þess, heldur í krókum og vega þannig að því. Hafa þeir komið þannig fram í þessu krókahlaupi sínu sem skera ætti úr um það, hver snjallastur væri í þessari svigkeppni, en ekki ætla ég mér að dæma um það.

Hv. samþm. minn, 2. þm. Skagf., virðist hafa átt í nokkru stríði holdsins og andans, þar sem hann hefir þó skrifað undir nál. meiri hl. fjhn. ásamt nokkrum öðrum hv. þm. Hann gerði þá játningu, að íþróttirnar væru í sjálfum sér góðar, en taldi það óhóflega mikið að verja til þeirra 100 þús. kr. á ári. Virtist svo sem hann væri að velta því fyrir sér, að í rauninni væru íþróttirnar nú ekki eins mikils virði og hann hafði þó játað, og taldi, að ef farið yrði að leggja mikið fé til þessarar starfsemi, myndi niðurstaðan verða sú, að fjárframlögum yrði hrúgað til nokkurra áhugamanna. Ég harma það, að í afstöðu hv. þm. skyldi koma fram svona megn vanþekking á þessum málum. Ég harma það að sjá hann skipa ekki glæsilegri sveit en þeirra manna, sem gerzt hafa til þess að vega að þessu frv. Hv. þm. taldi, að ef lagt yrði til íþróttamálanna það, sem hér er farið fram á, þá myndi þessi starfsemi hljóta því nær eins mikið fé og Búnaðarfélag Íslands. Langt er nú frá, og munar nærri helmingi eftir þeirri áætlun um tekjur til íþróttasjóðs, sem sjá má í grg. frv. Að þessu athuguðu virðist hv. þm. ekki hafa getað annað en gleypt agn það, er hv. 3. landsk. rétti að honum, það er að láta standa ákvæðið um að leggja stimpilgjald á áfengi og tóbak, en verja því ekki til íþrótta, heldur áburðarkaupa. Er hér ólíku saman að jafna, og verður hugkvæmni þessara manna að teljast furðulítil, er þeir sjá ekki önnur ráð til að koma fram hugðarmálum sínum um áburðinn. Það má líka finna ýmsa agnúa á því að taka fé á þennan hátt til þess að styrkja menn til áburðarkaupa. Hv. þm. játaði, að hvergi væri meiri þörf útlends áburðar en í sjávarplássunum, og er það eflaust rétt, því að hann er þessum málum mjög kunnugur. En ég vil benda á það, að á þessu stöðum fer mikið áburðarmagn til einskis. Áburði þeim, sem til fellur í verstöðvum og sláturhúsum, er yfirleitt ekki haldið til haga. Ég bendi honum og sammálsmönnum hans á það, að ég myndi fús til að fella niður þær 30 þús. kr., sem á fjárlfrv. eru ætlaðar til íþróttasjóðs, og verja þeim til verðlauna þeim mönnum, sem bezt ganga fram í því að nytja áburð þann, er til fellur í landinu. Ég gæti líka verið með því að verja þessu fé til að koma upp þróm og slíku til hagnýtingar þessum áburði. Við í rannsóknarn. gerðum í haust athuganir á því, hve mikill þessi áburður myndi vera, og komumst að þeirri niðurstöðu, að hann myndi nægja fyrir öll sjávarplássin og upplönd þeirra. — Ég vænti þess, að hv. samþm. minn taki þessar aths. til greina. Ég vænti þess, að góð öfl megi ráða afstöðu hans, er til atkvgr. kemur, þótt hans hafi verið hart freistað, svo að hann fái staðizt og skipi sér meðal þeirra, sem undirritað hafa nál. meiri hl. ásamt honum.

Hv. þm. A.-Húnv. brá ekki venju, að koma fram í svigkeppni þeirri, er hér er háð. Hann byrjaði á því að ræða um nauðsyn íþrótta, en þau orð tel ég ekki annað en játningu varanna, sem enginn skilningur standi að baki. Hann kom með mótbáru, sem átti víst að vega mikið, sem sé þá, að íslenzk glíma væri útdauð. Hv. þm. gæti spurt íþróttamenn vora um þetta og fengið sannanir fyrir því, að svo væri ekki. En þeir myndu líka geta sagt honum, að miklir erfiðleikar og jafnvel nokkur hætta væri því samfara að stunda hana, eins og nú er ástatt. Hv. þm. taldi hættu á því, að frv. verkaði öfugt við tilgang sinn, með því að íþróttamenn færu að „agitera“, eins og hann komst að orði, fyrir auknum drykkjuskap og tóbaksneyzlu í stað þess að vinna á móti þessu. Myndu þeir vilja styrkja íþróttasjóð með því að beita sér fyrir þessum nautnum og taka þær upp sjálfir. Gróflega væri þetta nú léleg hagfræði og mikið á sig lagt að fara að kaupa þessar vörur til þess að fá að borga 1½% verðviðbót íþróttasjóðnum til styrktar. Ég tel ekkert vafamál, að íþróttamenn myndu hafa aðra aðferð. Þeir myndu leggja fram starf og svo fé, þeir sem það geta, til að styrkja sjóðinn. Hv. þm. gat þess réttilega, að frjáls íþróttastarfsemi hefði til þessa hvílt að miklu leyti á fórnfýsi einstakra íþróttamanna. En hjá honum kom í þessu sambandi fram sjónarmið, sem ég vildi kalla útigangspólitíkina. Af því að þessir menn hafa lagt fram starf, á ekki að styrkja þá eða meta það við þá, heldur láta þá vera á gaddinum sem áður. Það er eins og víða í kjördæmum okkar, að mönnum þykir vænt um hryssurnar sínar, þegar þær berja gaddinn, en vilja ekki slá í þær nema moðinu. Þessi afstaða hefnir sín, en er auk þess beinlínis óheiðarleg, að vilja ekki meta slíkan áhuga og fórnfýsi. Á það er bent í grg. frv., að eins og nú er, verði áhugamenn um íþróttir að verja miklum tíma og starfskröftum til að afla fjár til íþróttastarfseminnar. Er á það bent, að með því að hjálpa þeim fjárhagslega mætti hagnýta áhuga þeirra betur til eflingar íþróttunum.

Þá veik hv. þm. að mér sérstaklega og hélt því fram, að ég hefði sagt, að ríkið hefði ekki tekjur af áfengi og tóbaki. Út af þessu spann hann þann lopa, að hann efaðist um, að nokkur maður hefði skilið mig, og ef til vill hefði ég ekki skilið mig sjálfur. Eitt er víst, að hann hefir ekki skilið mig eða ekki viljað það. Ég sagði, að verð á áfengi og tóbaki væri ekki fyrst og fremst miðað við það, að ríkið hefði gróða af sölunni, heldur væri það sett til þess að koma í veg fyrir, að menn neyttu þess í óhófi. Ég styð þetta við fjölmörg ummæli, sem fram hafa komið í blöðum, á fundum og hér á Alþingi. Vera má, að hv. þm. hafi verið annars sinnis eða hafi aldrei skilið, um hvað var að ræða. Ég benti á það, að nú mætti gera ráð fyrir, að útsöluverð á áfengi og tóbaki hækkaði nokkuð, því að annars mætti búast við því, að er aðrar vörur hækka í verði, yrði meira keypt af áfengi og tóbaki en áður. Það virðist rökrétt að hækka nú þessar vörur eins og aðrar, til þess að halda neyzlunni í skefjum. Þar sem ríkisvaldið hefir haft þann skilning, að ekki beri að nota þessa hluti sem tekjustofna, virðist eðlilegt, að nokkuð af verðbreytingum þeim, sem orðið hafa vegna gengisfallsins og almennrar verðhækkunar, eða þessar verðbreytingar allar, komi einnig fram á áfengi og tóbaki, til þess að vinna á móti nautnum þessara hluta. Þessu hefi ég haldið fram, en ekki því, sem hv. þm. telur mig hafa sagt. Annars kvað hann það hreinustu goðgá að ætla að leggja slíkt gjald sem það, er um ræðir í frv., á þá tekjustofna ríkisins, sem hann telur áfengið og tóbakið vera. Mér liggur við að halda, að hann hafi þessa afstöðu vegna þess, að í vetur, þegar íþróttal. voru hér til umr., spáði hann því, að eftir samþykkt þess frv. myndu fara mikil fjárútlát úr ríkissjóði. Þykir mér sennilegast, að hann vilji nú ekki una því, að þessi starfsemi fái fé annarstaðar að en beint úr ríkissjóði, svo að þessi spádómur megi rætast.

En í frv. eru tvær höfuðgr.: Sú fyrri um það, að íþróttasjóður fái tekjur af stimpilgjaldi tóbaks og áfengis, og sú síðari um tekjuöflun til handa sjóðnum af veðmálastarfsemi. Ef ríkissjóður á að búa einn að öllum tekjum af slíkum hlutum, hví er þá ekkert haft á móti því, að íþróttasjóður fái tekjur af þessari veðmálastarfsemi, en hinu andmælt, að hann njóti tekna af áfenginu og tóbakinu? Rökréttast væri þá að taka hvorttveggja undir ríkið. En ég bjóst við, að hv. þm. telji, að 2. gr. feli í sér svo smávægilegan tekjustofn, að ekkert geri til um hann, það muni ríkissjóð engu. Hv. þm. mun eflaust svara því til, að íþróttamenn muni vinna meira fyrir veðmálastarfsemi þessa, ef þeir eiga að fá tekjurnar af henni. En ég lít svo á, að ef í þessari gr. um veðmálastarfsemina hefði falizt 100–200 þús. kr. tekjumöguleiki, en aðeins 10–20 þús. kr. í hinni, þá hefði hv. þm. snúið sér á hinn veginn og lofað lægri upphæðinni að fljóta í þennan farveg, en ekki hinni. En ef samræmi á að vera í þessu, verður hvorttveggja að fylgjast að, því að hvorttveggja getur verið tekjustofn fyrir ríkissjóð.

Mér þykir það miður, að hv. 4. þm. Reykv. er ekki viðstaddur, því að ég hefi ýmislegt við hann að ræða, en verð nú að láta það falla niður. Mér virtist öll hans afstaða til málsins vera afstaða hins þreytta manns, sem hefir hneigð til að reka meinhorn í hvert nýmæli. Hann vílaði ekki fyrir sér að halda því fram, að frv. þetta væri fram borið af pólitískum ástæðum. Ég vil í því tilefni benda hv. þm. á, að n. sú, er undirbjó frv., var skipuð mönnum úr öllum flokkum, en það er flutt af mönnum úr Framsfl. og Sjálfstfl. Ég get fullvissað hv. d. um það, að fyrir okkur, sem frv. flytjum, vakti ekki neitt sjónarmið skylt pólitík, sem hv. 4. þm. Reykv. virðist setja í samband við tilraunir til að draga til sín atkv., enda getur hann víst verið áhyggjulaus um sitt pólitíska fylgi í Reykjavík þrátt fyrir þetta frv. Ég verð þó að segja hv. 4. þm. Reykv. það til hróss, að hann gekk manna beinast framan að málinu. Hann lét þau orð falla, að íþróttirnar væru skemmtistarfsemi. Það er reyndar ekki von, að menn, sem hafa þann skilning á íþróttamálum, gangi fram fyrir skjöldu um fjárveitingar til þeirra. — Mun ég svo láta þetta nægja að því er snertir hv. 4. þm. Reykv., þótt ég hefði margt viljað við hann ræða.

Ég kem svo síðast að hv. þm. Snæf. (TT). Hann hefir alveg sérstöðu meðal þeirra, sem eru móti málinu. Hann hefir fullan skilning á gildi íþróttanna og nauðsyn. Hans afstaða er aðeins af prinsip-ástæðum, en ekki af andstöðu gegn málinu sjálfu. Við slíka menn er alltaf gott að eiga orðastað. Hann leggur til, að horfið verði af þeirri leið, sem valin er í 1. gr. frv., en tekin aftur upp fjárhæð beint úr ríkissjóði til íþróttasjóðs. Ég tel það að ýmsu leyti lakari leið, því að ég óttast, að fyrr eða síðar verði reynt að draga úr þeim fjárútlátum og tapast muni tekjumöguleikar, sem frv. vill nota. Það teldi ég illt. Við þá rannsókn, sem n. gerði á tekjuþörfum íþróttasjóðs, komst ég að raun um, að það er þörf á miklu fé til að koma fótum undir íþróttastarfsemina í landinu. En ég skildi hv. þm. Snæf. svo, að hann vildi tryggja íþróttasjóði þær tekjur, sem honum eru nauðsynlegar.

Ég vildi, að hv. þm. A.-Húnv. og hv. 3. landsk. gætu fallizt á að taka brtt. sína aftur til 3. umr. væri ég fús til að eiga viðræður við þá um þessi mál og endanlegt form frv. — Ég skal svo ekki þreyta hv. þm. né hina tómu stóla með lengri ræðu, heldur beina því til manna, að þeir athugi málið og ráði því til hlunns á þann hátt, sem þeim virðist líklegastur til gagns.