18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

41. mál, íþróttasjóður

*Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. Skagf. bar fram fyrirspurn til fjvn. Þó hér sé að vísu ekki vettvangur til að knýja fjvn. til sagna, þá vil ég samt út af þessari fyrirspurn hv. þm. láta þess getið, að fjvn. er nú að byrja að undirbúa fjárlfrv. fyrir 3. umr. og hefir enn sem komið er ekki tekið ákvörðun, hvorki um þetta atriði, sem minnzt var á, né önnur viðvíkjandi afgreiðslu fjárl. við 3. umr. Starfi hennar að því er snertir þennan undirbúning er ekki enn lengra komið en svo.

Hv. þm. A.-Húnv. vildi draga í efa, að hv. 2. þm. Árn. hefði farið rétt með það, hvað mikið væri fellt niður af fjárlfrv. í sambandi við þann sérstaka lið, sem tekinn hefir verið upp til íþróttasjóðs. Taldi hann, að því er mér skildist, að ekki hefði verið fellt niður af fjárlfrv. nema 14 þús. kr. Þetta er rangt hjá hv. þm. Það getur vel verið, að orðalagið á 35. brtt. n. á þskj. 92 gefi honum tilefni til þessarar ályktunar. Þar stendur, að 14. gr. B. XIX,2 skuli orðast eins og þar hermir. En annaðhvort er, að þessir 2 í tölu, sem skotið er þar inn, hafa verið settir óviljandi í handritið frá n. eða þetta hefir slæðzt þar inn við prentun á till. Ég hefi fyrir mér samþykkt n. eins og hún var borin upp á þeim fundi sem þessi ályktun var gerð, en þar er svo ákveðið, að 14. gr. B. 19. liður skuli orðast eins og hermt er í brtt. Með þeirri orðun eru felldir niður 3 stafl., sem hafa það í för með sér, að felld eru niður útgjöld, sem áður voru til íþrótta, sem nema að ég ætla 12700 kr.

Fjárlfrv. eins og frá því var gengið liggur ekki fyrir úr prentuninni, svo ekki er hægt að segja, hvort þessi prentvilla er þar og hafi orðið þess valdandi, að þessir liðir standa enn í frv. Ef svo er, þá verður það vitanlega leiðrétt við 3. umr., því það stendur skýrum stöfum bókað hér, að þessir liðir eigi að falla niður. Það var því rétt, sem hv. 2. þm. Árn. sagði um þetta atriði.

Ég skal aðeins geta þess, að það, sem fellt er niður samkv. þessu til íþróttamála, eru 26700 kr. Það var einnig tekinn upp liður, sem tekinn hafði verið út af fjárl. og nemur 2200 kr. Það eru þess vegna einar 1100 kr., sem bætast við hjá n. Þetta er sannleikurinn í þessu máli.

Ég skal ennfremur benda á, að í fjárlfrv. eru veittar 18 þús. kr. til sundlaugabygginga, sem ekki eru teknar upp í till. n., en það gerði n. af ásettu ráði, þar sem í vændum var, að íþróttasjóður fengi tekjur samkv. sérstökum lögum.

Ég vil nú benda á, að ég hygg, að menn geri allt of mikið úr því, að þessar tekjur, sem gert er ráð fyrir að afla með sérstökum l., eða sú upphæð, sem þar fæst, verði að verulegum mun hærri en veitt var til íþróttamála á fjárl. á undanförnum árum. Þegar sjóðurinn verður búinn að fá þessar tekjur, þá verða felld niður úr fjárl. ýms útgjöld, sem standa þar nú. Ég vil t. d. benda á, að á undanförnum árum hefir verið veitt til skólabygginga 45–60 þús. kr., en nokkuð af því hefir farið til að byggja leikfimihús og önnur íþróttahús. Þegar íþróttasjóður verður búinn að fá tekjur með slíkum hætti, þá verður það fellt niður af fjárl., sem annars er veitt í þessu skyni, því hann á að bera það uppi. Auk þessa stendur á fjárl. liður, sem er til ungmennafélaga, til íþróttastarfsemi. Það munu vera fleiri liðir, sem hverfa af fjárl. undir eins og sjóðnum hafa verið veittar slíkar tekjur sem hér er farið fram á að gera með sérstökum l. Það er því ekki ástæða til að vera á móti þessu frv. út frá því sjónarmiði, að með þessum hætti sé stefnt til meiri fjárframlaga heldur en gert hefir verið undir ýmsu formi á fjárl. á undanförnum árum. Á þetta vil ég benda út af þeim orðum, sem fallið hafa um það, að nokkuð djarflega sé stefnt um fjárveitingar í þessu skyni.

Það er ekki ástæða fyrir mig að lengja umr. um þetta mál, enda hefir málstað þeirra, sem standa að flutningi frv., og þeirra, sem tekið hafa undir með þeim um stuðning við það, að ætla fé til íþrótta með þessum hætti, verið haldið þann veg uppi, að það er ekki ástæða til þess fyrir mig að bæta þar við. Ég vil þó út af till., sem hv. 3. landsk. flytur um að snúa þessu við, svo að í staðinn fyrir að fé því, sem þarna aflast, sé varið til íþrótta, þá sé því varið til áburðarkaupa, segja, að þessi till. er nokkuð sniðuglega gerð, en það er líka það eina, sem hægt er að segja um till. Það er undarlegt, ef hv. þm. ber svo mikla umhyggju fyrir búskaparafkomu bænda að því er snertir áburðarnotkun, að hann skuli ekki sjálfur hafa leitazt við að finna leið til að afla fjár með einhverjum hætti til slíkra nauðsynjamála, heldur en að hoppa með þessum hætti inn á þessa till., og verða þannig fyrst snortinn af þeirri hugsjón, að bæta úr fyrir bændum, þegar till. var fram komin á þessum grundvelli. Það ber því ekki að taka þessa till. öðruvísi en tilraun til þess að koma málinu fyrir kattarnef. Það er vitanlegt, að ýmsar leiðir eru farnar í slíkum tilgangi, sem ómögulegt er að segja, að sé neitt óþinglegt við, eins og t. d. að vísa málum til stj. Það er ein af slíkum leiðum, sem hér er verið að fara inn á.

Ég skal svo ekki fara frekar út í þetta mál. Það verður að skeika að sköpuðu um það, hvað ofan á verður, en ég vil segja það sem mína skoðun, að ég tel í alla staði vel forsvaranlegt að leggja inn á þessa braut, því að það er ekki verið að stofna til tiltölulega meiri útgjalda í þessum efnum heldur en gert hefir verið með ýmsum fjárveitingum á undanförnum þingum.