29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

41. mál, íþróttasjóður

*Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Okkur flm. frv. kom saman um það að flytja nú við 3. umr. brtt. á þskj. 233. Í fyrri brtt. er gert ráð fyrir því, að af hverskonar áfengi, sem áfengisverzlun ríkisins selur, skuli greiða 2% heildsöluverðs til íþróttasjóðs. Síðari brtt. er aðeins tölubreyting, sem leiðir af hinni. — Tvær ástæður liggja að baki því, að brtt. um þennan skatt er nú borin fram. Þegar frv. lá fyrir síðast, settu ýmsir hv. þm. það fyrir sig, að ekki mætti skattleggja tóbaksvarning á þann hátt, sem lagt var til í frv. í fyrstu, og að m. a. yrðu af því allmikil vandkvæði og innheimtukostnaður. Því er nú skatturinn ekki látinn ná til tóbaks. Í öðru lagi virðist nú orðin breyting á afstöðu manna til þess formsatriðis, sem var mörgum mestur þyrnir í augum við 2. umr., þegar sagt var, að ekki mætti skattleggja sérstaklega neitt, sem orðið gæti tekjustofn ríkisins. Breyting þessi kom fram í sambandi við tillögur og umræður um raforkuveitusjóð. Því þótti okkur rétt að bera fram þessa till. og sjá, hvern byr hún fengi. Ég hefi orðið þess var, að einn af hv. þm. hefir látið í ljós, að hann mundi verða því fylgjandi að leggja í þessu skyni ákveðið hundraðsgjald á heildsöluverð áfengisverzlunar ríkisins, en án þess að sérstök stimpilmerki væru upp tekin í því sambandi, og er sá munur ekki stórvægilegt atriði. En af sérstökum ástæðum var ekki hægt að afgreiða brtt. okkar í samráði við þennan hv. þm.

Ég gat þess við 2. umr., að mjög væri þakkarverð afstaða hv. þm. Snæf., sú er nú kemur fram í brtt. hans. Að vísu er nauðsynlegt að ganga nokkru lengra í tekjuöflun til sjóðsins en yrði samkv. þeirri brtt., og verði brtt. okkar á þskj. 233 samþ., er málinu þó betur borgið, og hagur íþróttasjóðs tryggari. Ég leyfi mér að leggja til, að hv. þdm. samþ. þá tillöguna, sem yrði íþróttamálum sýnu öflugri lyftistöng.