01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

79. mál, mæðuveikin

Skúli Guðmundsson:

Ég á brtt. við þetta frv. á þskj. 206.

Með breyt. á þessum l., sem gerðar voru á fyrri hluta þingsins 1939, var ákveðið, að heimilt skyldi að verja fé til að styðja bændur á mæðiveikisvæðinu til þess að koma upp bústofni aftur, eftir ákveðnum fyrirmælum, sem um það voru sett, þ. e. a. s. ef veikin hefði verið svo lengi í fé þeirra, að líkur þættu benda til, að hún væri í rénun. Framkvæmdan mæðiveikivarnanna veitti nokkurn styrk til lambauppeldis á síðasta hausti samkv. þessu lagaákvæði. En í l. vantar ákvæði um það, að heimilt sé að veita öðrum fjáreigendum en bændum slíkan styrk til þess að koma upp fjárstofni aftur. En ég álít réttmætt, að búlausir menn í sveitum og kauptúnum, sem hafa átt sauðfé og hafa orðið fyrir tjóni af völdum veikinnar, geti einnig orðið aðnjótandi þessara hlunninda. Það má benda á, að búlausir menn hafa ekki fengið neinn annan styrk eftir þessum l., hvorki til greiðslu á vöxtum af skuldum, vegafé né aukinn jarðræktarstyrk, sem bændum hefir verið veittur. Sýnist því öll sanngirni mæla með því, að þessir búlausu fjáreigendur njóti þessa uppeldisstyrks á sama hátt og bændur, og að þessu stefnir brtt. mín.

Mér skilst á hv. landbn., að hún fallist á þetta með mér, því að hún hefir borið fram smábrtt. við mína brtt., á þskj. 288, sem er raunar aðeins leiðrétting. Tel ég það með því viðurkennt af þeirri hv. n., að þetta sé rétt stefna, sem kemur fram í minni brtt., og vænti ég þess því, að hún verði samþ.