02.04.1940
Neðri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

79. mál, mæðuveikin

*Gísli Sveinsson:

Ég hefi ásamt tveimur öðrum hv. þm. borið fram brtt. á þskj. 201, við 2. gr. frv., sem fer fram á, að 18. gr. l. nr. 45 17. maí 1938, um varnir gegn útbreiðslu mæðiveikinnar o. s. frv., orðist eins og segir á nefndu þskj., en með því er lagt til, að niður falli gjald það, sem lagt hefir verið á héruðin, sem ekki hafa verið við veiki þessa riðin, og nú eru ekki orðin mörg. Þetta gjald hefir verið 10 aurar á kind og því orðið töluvert tilfinnanlegt fyrir þá, sem hafa innt það af hendi. Mönnum finnst ekki rétt að leggja gjald þetta á, því að það er nú svo, að enda þótt hin svonefnda mæðiveiki geisi ekki í héruðunum, þá geisa þar samt ýmsar aðrar pestir, sem valda þungum búsifjum, þó að þær séu ekki viðurkenndar á þann veg, að fyrir þær fáist einhver fríðindi, að undantekinni garnaveikinni, sem talin er hafa komið með mæðiveikinni inn í landið fyrir tilstilli þeirra ráðamanna, er þá voru hér við völd.

Þetta 10 aura gjald á kind hefir átt að greiðast af þeim héruðum, þar sem veikin hefir ekki komið. Maður skyldi nú ætla, að það hefði verið fúslega greitt, þar sem fulltrúar héraðanna hér á Alþingi hafa mælt með því. En reynslan virðist vera nokkuð á annan veg; sum héruðin hafa hreint og beint skorazt undan að greiða gjaldið. Eins og kunnugt er, þá er veiki þessi ekki talin ná norðar en að Héraðsvötnum í Skagafirði og ekki sunnar en að Þjórsá. Menn, búsettir í austur- og norðursýslunum á milli þessara fljóta, ættu því að greiða þetta gjald, — eða manni virðist, að svo hefði átt að vera, en á því hefir verið misbrestur, sérstaklega þó að því er snertir kaupstaðina. Eins og ég gat um í upphafi máls míns, er gjald þetta allþungbært; þannig hefir það skipt fleiri þúsundum fyrir sum héruðin. Það hefir orðið byrði nr. 2, komið á héruðin í staðinn fyrir berklavarnagjaldið; það er því ósanngjarnt að halda gjaldi þessu áfram. Ég skal svona til fróðleiks lofa hv. þm. að heyra, hvernig gjaldið hefir innheimzt. Reykjavíkurbær, sem telur þó nokkra fjáreigendur og talinn hefir verið ósýktur af mæðiveiki, hefir ekkert gjald greitt. Sama máli gegnir um Hafnarfjarðarkaupstað. Gullbringu- og Kjósarsýsla hefir og ekki heldur greitt neitt. Í Borgarfjarðarsýslu hefir veikin verið, enda hefir ekkert gjald þaðan verið greitt. Sama er að segja um Mýrasýslu. Þá hefir Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla heldur og ekkert greitt. Er þó meginhluti þeirrar sýslu talinn ósýktur. Dalasýslu hefir mátt telja heilbrigða til þessa; þó hefir hún ekkert gjald greitt. Þær sýslur, sem ég nú hefi talið, hafa með öllu skotið sér undan að greiða gjald þetta.

Barðastrandarsýsla greiddi eitthvað lítilsháttar 1937, en ekkert síðan. Vestur-Ísafjarðarsýsla, Ísafjarðarkaupstaður og Norður-Ísafjarðarsýsla greiddu eitthvað dálítið 1937–38, en ekkert síðan. Strandasýsla greiddi eitthvað lítið fyrir 1938, ekkert fyrir 1937 og 1939. Er þó sú sýsla talin heilbrigð að mestu, að undanskildum einum hreppi. Húnavatnssýslurnar hafa að sjálfsögðu ekkert gjald greitt, enda sýkin gert þar töluverðan usla. Skagafjarðarsýsla greiddi gjald sitt fyrir 1937, en lítið fyrir 1938 og ekkert síðan. Siglufjarðarkaupstaður greiddi eitthvað fyrir 1938, og ekkert annað. Sama er að segja um Eyjafjarðarsýslu, hún greiddi bara eitthvað fyrir 1937, annað ekki. Akureyrarbær hefir aldrei greitt neitt af gjaldi þessu. Þingeyjarsýslurnar greiddu dálítið fyrir 1937–38, en örlítið síðan. Seyðisfjörður og Norður-Múlasýsla greiddu gjaldið fyrir 1937 og 1938, en ekkert síðan. Suður-Múlasýsla og Neskaupstaður greiddu gjaldið fyrir 1937, og þó undarlegt megi virðast, þá hefir Neskaupstaður greitt eitthvað örlítið síðan. Þá hefir Rangárvallasýsla greitt gjald sitt aðeins fyrir 1937; er þó ekki talið, að mæðiveiki sé þar austan Þjórsár. Árnessýsla hefir að sjálfsögðu aldrei greitt neitt. Aftur hafa Vestmannaeyjar greitt eitthvað fyrir bæði árin 1937 og 1938, en ekkert síðan.

Það, sem ég nú hefi sagt, sýnir, að ekkeri hérað, sem ég hefi nefnt, hefir greitt gjald þetta til fulls. Skaftafellssýslurnar einar hafa greitt allt gjald sitt til fulls, og það alltaf til ríkisféhirðis fyrir hver áramót. Það er því ekkert undarlegt, þó að ég standi hér og vilji fá þessu húmbúgi létt af, sem er ekki nema einn liðurinn af mörgum samskonar liðum í þessum mæðiveikivörnum. Það, sem ég að síðustu vil svo leggja áherzlu á, er þetta:

1) Innheimta þessa 10 aura gjalds hefir verið í fyllsta ólagi.

2) Hirðuleysi héraðanna um greiðslurnar er yfirgnæfandi.

3) Ógreitt er fyrir öll árin úr fleiri sýslum. 4) Ógreitt er fyrir heil tímabil úr fleiri sýslum.

5) Hlutar úr sýslum hafa algerlega vanrækt greiðslur.

6) Fáein héruð aðeins hafa staðið að nokkru leyti í skilum.

7) Aðeins eitt hérað hefir staðið að fullu í skilum árin 1937, 1938 og 1939, — það eru Skaftafellssýslurnar.