03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

79. mál, mæðuveikin

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Hv. frsm. landbn. réðst í það í gær hér á fundi í hv. d. að mótmæla því, sem ég hafði gefið skýrslu um. (BÁ: Nei, ekki skýrslunni). Að vísu skal ég láta það óátalið, að svo miklu leyti, sem hann viðurkenndi, að skýrslan væri ekki aðeins réttilega fram borin, heldur og líka að öðru leyti rétt. Og með því að ég gæti ímyndað mér, að fleiri en þessi hv. þm. hefðu fyrirvara um, að þessi skýrsla væri rétt, sem hv. þm. tók sig nú á með, en ég hefi ekki sérstaka ástæðu til að ætla annað um, þá er því að svara, að skýrslan er fengin frá fjmrn., og ég geri fastlega ráð fyrir, að það gefi rétta skýrslu. Og eins og skýrslan greinir, er ástandið hið hörmulegasta.

Það má nú segja, að þeim hv. þm. sé það nokkur vorkunn, sem mest hafa fengizt við þessi mál, þótt þeir í ýtrustu lög reyni að halda í því horfi, sem l. hafa ætlazt til. En þeir játa, og það er rétt, að margt hefir farið öðruvísi í höfuðatriðum — meiri höfuðatriðum en þessu — en l. virðast ætlast til og heldur en nokkur þm. gat ímyndað sér. Og ég býst við, þegar þetta mál verður rannsakað, ef ekki á að halda þeirri ógegnd við lýði, þá muni koma í ljós, að til þessara framkvæmda hefir verið stofnað með gáleysi og framkvæmdin frámunaleg.

Hv. þm. Mýr. gat þess, að þetta 10 aura gjald á kind hefði verið sett að yfirlögðu ráði og ekki sætt neinum mótmælum. Frá upphafi mótmælti ég þessu og fleiri hv. þm., og við komum fram með brtt., sem miðuðu að því, að ekki væri hægt að innheimta með slíku ranglæti gjald til þessara hluta. N. tók ekki þessi mótmæli til greina og lítilsvirti þau, en tókst að klína á héruðin alveg að ófyrirsynju og saklaus þessu gjaldi, er ekkert höfðu til saka unnið annað en kannske það, að mæðiveikin hefir ekki borizt þangað.

Nú er það svo, að þótt mæðiveikin hafi ekki komizt þangað, er þar önnur veiki í sauðfé og sýki, en hefir ekki fengið ríkisstimpil á sig, sem allt verður að lúta. Nú er þangað komin garnaormaveikin, og þetta hefir sama upphaf allt saman og á síðan eftir að verða dæmt á líkan veg, hvernig sem hinar mismunandi pestir eru tilkomnar og afleiðingar þeirra.

En þetta gjald er svo ranglátt sem verða má, vegna þess að sum héruð, sem ekki hafa fengið þessar sérstöku pestir, ef þær eru þá nokkuð sérstakar, hafa fengið aðrar líkar að því leyti, að þær leggja féð að velli. Þeir fá engar bætur fyrir féð, sem missa það úr annari pest.

Þetta gjald skiptir þús. kr. á hvert hérað landsins. En þegar hv. frsm. slær því föstu, að hér sé ekki um neitt að sakast af hálfu þeirra héraða, sem heilbrigð hafa verið — þau hefðu þó ekki þessa veiki — „því að fénu hefði verið varið“, sagði frsm. „til þess að verja þessi héruð fyrir útbreiðslu mæðiveikinnar“. En það var búið að skýra frá því, að þetta fé er ekki komið ennþá inn. Hvernig getur svo frsm. slegið föstu, að því fé hafi verið varið til þessara hluta, sem ekki hefir innheimzt? Því að það er svo langt frá því, að það hafi innheimzt í sumum heilbrigðum héruðum. Sum hafa ekki litið við því að greiða gjaldið, sum greitt nokkurn hluta af því, en sum héruð, þar á meðal Vestur-Skaftafellssýsla, hafa greitt það allan tímann alveg upp í topp. Ef þessi heilbrigðu héruð hefðu greitt eins og V.-Skaftafellssýsla og nokkur önnur héruð, hefði mátt orða það svo, að þessu gjaldi hefði verið varið til þessa. En það er nokkuð hart að krefjast þessa gjalds í því yfirskini, að það ætti að nota til þess að verja þessi héruð fyrir veikinni.

Það er ekki hægt að framkvæma neinar verulegar varnir fyrir það fé, sem komið er inn frá þessum héruðum, því að það eru ekki nema örfá þús. kr. Það hefir verið látið viðgangast, að héruðin greiddu ekki þetta fé. Þau héruð, sem eru sýkt, og í öðru lagi héruð, þar sem einn eða tveir bæir eru sýktir, hafa skotið sér undan því að greiða þetta gjald með þeim forsendum, að sýkin væri í því héraði. Og eins og ég tók fram, eru nokkur heilbrigð héruð, sem ekkert gjald hafa greitt. Það er þess vegna villandi að segja það, að þessu fé hafi verið varið til þess að koma í veg fyrir, að veikin kæmi í hin ósýktu héruð. Og þar að auki hefir miklu fé verið varið til annara hluta en til þess að verja héruðin, sem ósýkt eru, því að aðalvarnarstöðvarnar eru aðeins tvær, við Héraðsvötn og Þjórsá. Hitt eru aukavarnir milli einstakra hluta í héruðum, og snertir það þá ekki beint það atriði, sem hér um ræðir. Annars virtist hv. frsm. að lokum viðurkenna, að það væri eðlilegt, að ég og aðrir hv. þm. bærum fram slíkar till. sem þessar. Annars var hann búinn að slá því föstu, að það væri nærri því skortur á þegnskap manna, en hv. þm. er nú búinn að taka það aftur með síðari yfirlýsingu sinni. Því að ég álít ekki hægt að væna þessi héruð um vöntun á þegnskap, og álít, að til sanns vegar megi færa, að Vestur-Skaftafellssýsla hafi sýnt „loyalitet“ gagnvart því opinbera.

Ég held, að landbn. hefði ekki komið fram með þessar brtt., ef hún hefði kynnt sér þau gögn, sem varða þetta mál, og hún myndi hafa sannfærzt um það, að rétt hefði það ekki verið að hafa þetta gjald áfram í l., því að það verður ekki kleift að innheimta það hjá héruðunum, og ætti hv. frsm. að hafa gagn af að trúa sinni heilbrigðu skynsemi og umsögn minni og annara, sem þekkja þetta miklu betur en hv. þm. Ef landbn. tekur ekki þá stefnu að sinna þessu, þá heldur ranglætið áfram. En það var alltaf varasamt að fara inn á þessa braut, og það hefir líka sýnt sig, að það er ranglátt, hvernig innheimta þessara gjalda hefir verið framkvæmd.

Hv. þm. Mýr. taldi, að það væri sízt ástæða til að tala um þetta nú, einmitt þegar féð eða afurðir þess hefðu hækkað svo mjög í verði. Í raun og veru er þetta gjald, 10 aurar á hverja kind, ekki svo fjarska mikið, þó að það verði talsvert, þegar það kemur saman. Og þetta verður að vera að forminu til þannig í héruðunum, að sýslusjóðirnir greiða þetta fyrst, og hreppssjóðir greiða síðan sýslusjóði. Nú getur hreppsn. haft tvennskonar hátt um þetta gjald, og byrja þannig erfiðleikarnir. Hreppsnefnd getur jafnað þessu gjaldi niður með útsvörum, en þó er það hæpið, því að þetta er, ef ekki nefskattur, þá er það bundið við ákveðnar eignir. (BÁ: Það er höfðatölureglan). En reynslan sýnir, að það er ókleift að innheimta þetta gjald, því að löggjafarnir hafa ekki séð fyrir því, að þessum gjöldum fylgdi lögtaksréttur því að það er ekki hægt að koma þeim undir lögtaksrétt nema með útsvörum.

Ég vil vænta þess, að hv. þm. sjái, að hér er mál á ferðinni, sem þarfnast leiðréttingar, vægast talað, sem verður ekki gert á annan hátt en þann, að færa þetta í annað horf með því að samþ. brtt. á þskj. 201, sem fer fram á, að fellt verði niður þetta héraðagjald.