03.04.1940
Neðri deild: 29. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

79. mál, mæðuveikin

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég hefi að vísu ekkert frekar fram að færa viðvíkjandi þessu máli en ég hefi þegar gert. En það er alveg misskilningur hjá hv. form. landbn., ef hann telur að hægt sé að innheimta þetta gjald. ef gengið sé að því röggsamlega. Það eru engin ráð til gagnvart héruðunum. (BÁ: Hvaða ráð hafði hv. þm.?). Það er annað mál, en það eru samt engin ráð til þrátt fyrir það.

En ef við lifum að ári, hv. þm. Mýr. og ég, segi ég honum þá um þetta leyti, að verði ekki bót ráðin á þessu, þá muni haldast þetta ranglæti, sem nú er. Hinsvegar vil ég geta þess, að sýslusjóður er lögskyldur til þess að greiða þetta gjald og innheimta það svo hjá hreppsfélögum.

Rangáravallasýsla á að greiða eftir fjártölu 5 þús. kr. á ári, og það var greitt fyrir árið 1937. Svo gáfust þeir upp, og eru náttúrlega eins heilbrigð héruðin þar eins og í V.-Skaftafellssýslu. Svo þetta er í raun og veru eins og kom á daginn, að ekki er hægt að deila um það, að innheimta þessa fjár í héruðunum fer að verða leiðinlegt viðfangsefni og hvorki vinnandi eða verjandi að halda því við, þegar svona gengur með að innheimta það.

Eina bótin, sem hægt er að ráða á þessu, er að láta landið greiða þetta allt. Að vísu er ákveðið, að sameign allra landsmanna, bjargráðasjóður, eigi að greiða nokkuð af þessu. En það er ekki ástæða til að halda þessu gjaldi til málamynda út um héruð landsins, sem er rangsleitnin ein.