12.04.1940
Efri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

79. mál, mæðuveikin

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég tók vel í það í gær, að nefndin skyldi athuga málið, og það hefir hún gert, en ekki fundið ástæðu til að breyta frv. Olli það miklu um, að í hv. Nd. varð þetta hitamál, og þótti okkur talsvert í húfi, er áliðið er þings, að senda frv. þangað að nýju og fá það svo kannske miklu verra þaðan aftur. Í öðru lagi varð það sameiginlegt álit nm., að væri vikið af þeim grundvelli laganna að takmarka styrki og undanþágu frá 10 aura skattinum við mæðiveiki og garnaveiki, yrðu lögin svo torveld í framkvæmd, að ekki væri unandi við. Það mætti telja upp fjárpestir nærri því endalaust, bráðafár, lungnabólgu, ormaveiki, skitupest, lambadauða ýmislegan o. s. frv., og mér er sem ég sjái glundroðann, þegar farið yrði að safna skýrslum um þetta í þeim tilgangi að komast undir undanþáguna, sem hv. 1. þm. Eyf. vill veita. Auðvitað verður ekki fyrir slíkt girt með l. eins og þau eru nú. Á hættusvæðum fjárpestanna vita menn varla lengur til þess, að kind fari ofan í; öll vanhöld eru talin til mæðiveiki, ef kostur er. Þeir, sem frekastir eru, komast lengst í því að fá uppbætur frá hinu opinbera. Ég held það sé ekki rétt að opna allar slíkar krókaleiðir upp á gátt. Mér þætti mjög æskilegt, ef hv. þm. gæti fallizt á, að brtt. hans færi ekki lengra en hún er komin.