12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

104. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Sigurður Kristjánsson:

Sjútvn. þessarar d. hefir flutt þetta frv. eftir tilmælum hæstv. atvmrh. og haft málið til athugunar, en hafði ekki tækifæri til þess að skýra frá áliti sínu við 1. og 2. umræðu. Ég vil þess vegna leyfa mér að skýra frá, að n. var á einu máli um að mæla með því, að frv. yrði að l. Eins og hv. dm. sjá, þá felur frv. fyrst og fremst í sér þá breyt. á gildandi l. um hafnargerð á Raufarhöfn, að hækkað er framlag ríkissjóðs til hafnargerðarinnar. Upphæðin var í fyrstu miðuð við 180 þús. kr., en þar sem sýnt þykir, að hafnargerðarkostnaðurinn muni ekki verða undir 230 þús. kr., er lagt til, að framlag ríkissjóð, hækki um ? hluta kostnaðaraukans og verði 92 þús. kr.

Þá er ennfremur lagt til að gera þá breyt. á 1., að ríkissjóður ábyrgist alla lánsfjárhæðina, en ekki aðeins nokkurn hluta hennar, eins og nú er í l. Þetta er að vísu dálítið athugavert ákvæði, ef á þetta yrði litið sem almennt fordæmi. En þess er að gæta, að höfnin er í raun og veru byggð að miklu leyti í þágu ríkisins, þar sem hún er að langmestu leyti notuð í ríkisins þarfir, og ber því ekki á þetta að líta sem almennt fordæmi. — Ég vil svo að síðustu endurtaka það, að sjútvn. leggur til, að frv. nái fram að ganga.