26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (1441)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil beina því til hv. menntmn., af því að þetta frv. er komið frá henni nú, hvort hún vilji ekki við 2. umr. draga úr þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir, að hvert heimili greiði samkv. frv.

Þegar gildandi l. voru sett, var gert ráð fyrir, að 8 kr. yrðu greiddar af hverju heimili fyrstu 2 árin, en að úr því yrði komizt af með 5 kr. Jafnan hefir þetta gjald verið greitt með mjög hangandi hendi, enda þótt mönnum hafi verið gefnar nokkrar vonir um það, að þetta gjald mundi fara lækkandi.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál, en vil aðeins beina þessu til n., hvort hún telji, að þetta gjald þurfi að vera svona hátt eins og frv. gerir ráð fyrir; ég fyrir mitt leyti mun leggja á móti því.