28.03.1940
Efri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

77. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Þorsteinn Þorsteinsson:

við 1. umr. minntist ég á, að mér þætti frv. þetta fara fram á of frekar kröfur um hækkun á námsbókagjaldi og að ekki væri staðið við þau loforð, sem gefin voru við umr., þegar lög um námsbækur voru á döfinni, að gjaldið yrði lækkað í 5 kr., þegar þessi hámarkstími væri liðinn, sem voru 2 ár. Nú er með frv. þessu farið fram á, að gjaldið verði aftur hækkað. Ég veit, að það er venja, að ef einu sinni hefir verið ákveðið eitthvert hámark, er því fylgt sí og æ og erfitt að fá slíku breytt.

Ég gat þess, að við innheimtu þessa gjalds væri erfitt að fá menn til þess að greiða það af fúsum vilja. Bókunum er neytt upp á menn, þær eru um of fáar lærdómsgreinar, svo að menn verða að kaupa bækur að auki. Þar við bætist, að börnin eru ekki eigendur bókanna. og er þannig ekki nema nokkur hluti þeirra, sem fær bækurnar nýjar, en hin verða að láta sér nægja að fá bækurnar oft rifnar og óhreinar.

En svo er annað. Er nauðsynlegt að hækka námsbókagjaldið? Það er vitað, að prentun og pappír hefir hækkað, en það liggja engin gögn fyrir um það, hvernig þetta fyrirtæki ber sig. Ég er því alveg mótfallinn því, að gjaldið sé hækkað svo sem frv. fer fram á, og vil leyfa mér að bera fram skriflega brtt., svo hljóðandi: „Við 1. gr. frv.: Í stað „5–8 kr.“ komi: 5–6 kr. — Tel ég, að sú hækkun verði að nægja, a. m. k. þar til gerð hefir verið grein fyrir, að nauðsynlegt sé að hafa námsbókagjaldið hærra.