29.02.1940
Neðri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

22. mál, skógrækt

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Mál þetta er, eins og grg. ber með sér, flutt að tilhlutan landbrh. Frv. er samið af skógræktarstjóra, eins og líka er tekið fram í grg., og síðan yfirfarið af nokkrum lögfræðingum, sem athugað hafa hina lögfræðilegu hlið málsins.

Þetta frv. lá fyrir landbn. á síðara hluta seinasta þings og fékk þá nokkra athugun. N. taldi þá ekki tök á að koma málinu gegnum þingið, enda hélt n. þá, að þingið yrði styttra en raun varð á. Á milli þinga hefir svo farið fram nokkur athugun á frv. milli mín og skógræktarstjóra, og hafa verið gerðar nokkrar breyt. á því í samræmi við þær skoðanir, sem komu fram hjá landbn. við athugun hennar á frv.

Annars þarf ekki að halda langa ræðu um þetta mál. Það fylgir því ýtarleg grg., þar sem að nokkru leyti er skýrt frá sögu þessara mála í nágrannalöndunum og allýtarlega sagt frá sögu skóga og skógræktarmála hér á landi. Ég vil ráða hv. þdm., sem nokkurn áhuga hafa fyrir þessu máli, að kynna sér þessa grg., enda vænti ég þess, að þeir séu fáir, sem ekki hafi áhuga fyrir þessu máli.

Hér er um merkilegt mál að ræða og miklu merkilegra heldur en mönnum virðist vera ljóst án þess að hugsa ýtarlega út í það. Þær sögur fara af landinu, þegar það var numið, að þá hafi það verið skógi klætt milli fjalls og fjöru. Það hefir aðallega verið björk, og hún lágvaxin, en skógarnir munu hafa verið fyrirferðarmiklir. Til þess benda fornar sagnir og sögur og ýms örnefni, sem ennþá þekkjast. Þau benda til þess, að skógar hafi verið þar, sem þeir nú eru algerlega horfnir. Á þeim öldum, sem liðið hafa frá byggingu landsins, hafa svo skógarnir eyðzt að miklu eða mestu leyti. Það er nú nokkurt vokunnarmál, þó að svo færi; og þó að við álösum forfeðrum okkar fyrir meðferð á okkur skógum, þá hafa þeir margt sér til afsökunar, efnisleysi og margt annað, sem skógarnir bættu úr og neyddi þá til að ganga á þá, svo að fullkomin auðn hefir orðið eftir í mörgum héruðum landsins. Skógana varð að nota til húsagerðar, eldsneytis, kolagerðar, auk þess sem víða var siður að beita þá til þess að halda lífi í búfénaði, einkum sauðum. Þetta er allt vel skiljanlegt frá þeirra tíma sjónarmiði. En það er ekki nein afsökun fyrir okkur eða þær kynslóðir, sem eftir okkur koma, að hafa ekki hér alveg snúið við blaðinu. Nú höfum við fengið reynslu og þekkingu, sem forfeður okkar áður skorti, að þessi illa meðferð skóganna hefir í för með sér stórkostlegan uppblástur og eyðileggingu á landinu, sem mjög erfitt yrði að bæta. Sömuleiðis höfum við fengið meiri þekkingu á meðferð skóganna og ræktun þeirra. Og okkur mætti vera ljósara en þeim, hvaða nytjajurtir og skógartegundir það eru, sem aðrar þjóðir kunna að hagnýta sér. Það virðist fyllilega vera kominn tími til fyrir okkur að fara nú að bæta fyrir þessi brot horfinna kynslóða. Og reynslan, sem við höfum fengið síðan farið var að gefa þessum málum gaum, sannar töluvert mikið, að með friðun og lítilsháttar hirðingu er hægt að koma hér upp mjög miklum og arðvænlegum skógum á tiltölulega stuttum tíma. Reynslan hefir ennfremur sýnt, að hér er hægt að koma upp nýjum skógum, ef valdar eru til þess þær erlendu tegundir, sem sérstaklega má telja hæfar til að vaxa á okkar landi. Og það er sannfæring þeirra manna, sem mest og bezt hafa kynnt sér þessi mál, að hér sé unnt með tíð og tíma að koma upp miklum skógum, sem gætu komið að mjög miklu gagni.

Enn má getu þess, að þekking á notkun skógar frá því sem áður gerðist, sem var aðallega til húsagerðar, hefir mjög orðið víðtækari, þar sem reysla við ýmsar iðngreinar hefir sýnt, að mikil og margvísleg not er hægt að hafa af hinum ýmsu trjátegundum, t. d. til pappírsgerðar og til þess að gera úr þeim þilborð, þannig að nota má smágróður trjánna til þess og einnig til þess að leysa hann upp í cellulose. Okkar smái trjágróður getur því nú komið að góðum notum, þar sem stóru trén ein náðu áður að verða að gagni.

Þetta og ýmislegt fleira bendir til þess, að hér sé um mjög þýðingarmikið mál að ræða. Má að vísu segja, að öðruvísi horfi við um þessi mál en önnur framkvæmdamál; arðurinn kemur ekki eins fljótt og sumir ætla. Yfirleitt hafa framkvæmdir hjá okkur nú á síðari árum til að nota auðlindir landsins snúizt mest um það, að koma í verk því, sem bar nógu skjótan árangur, en það verður ekki sagt um skógræktina, því að það tekur langan tíma að rækta hér skóg að verulegum notum. En til þeirra framkvæmda, sem við höfum lagt út í á síðari árum, höfum við þurft að taka stór lán, sem við verðum að leggja á herðar næstu kynslóð, og þá ættum við að reyna að bæta fyrir það með því að stofna til framkvæmda, sem gæti orðið mjög mikill tekjuliður fyrir komandi kynslóðir, þó að við nytum ekki þeirra ávaxta nema að litlu leyti. Þetta er án efa stórkostlegt fjárhagsatriði fyrir komandi kynslóðir og auk þess mikið menningarmál. Það hefir mikið og merkilegt uppeldislegt gildi fyrir hverja þjóð að leggja í framkvæmdir, sem „reiknaðar eru ekki í árum en í öldum og alheimta ei daglaun að kvöldum“.

Ég skal svo að lokum víkja aðeins að einstökum atriðum frv.

Frv. er að mestu samið í samræmi við gildandi lagaákvæði um þessi mál. Þó hafa hér nokkrar breytingar verið gerðar og nýmæli, sem nauðsynlegt þótti að taka upp að fenginni reynslu þeirri, sem fengizt hefir í þessum málum.

Í fyrsta kafla frv., 1.–5. gr., sem er að mestu eins og samþ. var 1907, eru þó gerðar þær breytingar, að ákveða, að skógarverðir skuli aldrei vera færri en fjórir, eða einn í hverjum landsfjórðungi. En nú vantar alveg skógarvörð fyrir Vesturlandið, en í Borgarfjarðar-, Mýra- og Barðastrandarsýslu eru nokkuð mikil skógarlönd, sem þarf að friða, ef þau eiga ekki að ganga til þurrðar.

Um 2. kafla er það einnig að segja, að þar er lítið breytt frá l. 1907 og 1928. Þó er þar nýtt ákvæði í 9. gr.: „Í skógum og kjarri, sem er sameign fleiri manna eða jarða á óskiptu landi, mega einstaklingar ekki höggva án vitundar skógarvarðar eða eftirlitsmanns, sem segir fyrir um, hvar og hvernig grisja skuli.“

Reynslan hefir sýnt, að þar, sem er sameign manna um skóga, er meðferð þeirra miklu verri heldur en þar, sem eigandinn er einn; þess vegna þykir nauðsynlegt, að það sé á valdi skógræktarstjóra, hvernig skuli fara með þessi mál. Þá þótti nauðsynlegt að setja ákvæði um það að banna öllum þeim, sem eiga skóg eða hafa umráðarétt yfir honum, að selja eða gefa óupphöggvinn við án þess að hafa fengið leyfi skógarvarðar til þess. Sama gildir og um kjarr. Það þykir rétt, að skógareigendur sjálfir hafi þar rétt innan þess ramma, sem l. ákveða, en hitt þykir ekki hafa gefizt vel, þegar eigendur hafa leyft Pétri og Páli að ganga í skógana; þá hefir umgengnin verið miklu lakari en ella. Þess vegna þykir nauðsynlegt að fá þetta ákvæði inn í lögin.

Þá er 11. gr. um að veita heimild til að taka skóglendi eignarnámi, þar sem er yfirvofandi hætta sakir rányrkju eða annars þess, sem kann að valda skemmdum á skógi eða landi, eða ef kjarrlendi fær ekki að vaxa og verða að skógi, ef eigendur treysta sér ekki sjálfir til að sjá um friðun hans. Þetta er nýtt ákvæði þessara l., þó að hliðstætt ákvæði hafi verið í gildandi l. um þetta.

Þá er hér 3. kafli. Í honum er, í 17. gr., nýtt ákvæði um, að fjallskil og smölun innan skógagirðinga skuli framkvæmd af þeim, sem féð eiga, sömuleiðis að dýraleit og grenjaleit innan skógagirðinganna skuli framkvæmd á kostnað viðkomandi hrepps. Það segir sig sjálft, að grenjavinnsla á að vera skógræktinni alveg óviðkomandi, og það er þeirra, sem sauðfjárræktina stunda, að vinna grenin, því að það er hagsmunaatriði fyrir þá, en ekki skógræktina. Það nær því ekki nokkurri átt að leggja þá kvöð á skógrækt ríkisins. Sömuleiðis virðist það liggja í hlutarins eðli, að þá sé það gert á kostnað þeirra manna, sem fénu eiga að smala. Maður gæti hugsað sér, að einstakir menn hefðu tilhneigingu til þess að lofa fénu inn í skógargirðingarnar, og þá sjá allir, hversu mikil fjarstæða það væri að leggja þær kvaðir á skógræktina sjálfa að annast þar smölun og dýraleit.

Þá er í 18. gr. nýtt ákvæði, þar sem segir: „Skylt er ábúendum jarða þeirra, sem eru eign ríkisins, að hlífa svo skógi eða kjarri á jörðum þessum, að hvorugt rýrni eða eyðist af völdum þeirra, meðan ábúð helzt. Heimilt er ráðh. að taka til friðunar einstök skóg- eða kjarrlendi á jörðum ríkisins, meðan ábúð stendur, en lækka skal afgjald jarðanna vegna afnotamissis ábúenda af hinu friðaða landi eftir mati dómkvaddra manna. Ákvæði gr. þessarar er skylt að taka fram í byggingarbréfi.“

Það er ekki nema eðlilegt, ef hafizt verður handa um friðun og ræktun skóga, að byrjað verði á þeim jörðum, sem ríkið á, því að slík starfsemi hlýtur að hafa í för með sér allmikinn kostnað. Slíkir erfiðleikar myndu ofvaxnir mörgum einstaklingi.

19. gr. er svo að segja óbreytt frá því, sem áður var, að öðru leyti en því, að þegar einstakir menn fá styrk til að koma upp girðingum kringum skóg eða skóglaust land, þar sem rækta á skóg, þá er hann lækkaður úr ½ kostnaði niður í ? kostnaðar girðingarinnar. Og viðhaldsskylda á þessum girðingum, sem hvíldi á ríkinu áður, er nú lækkuð samkv. þessu frv. þannig, að hún hvílir ekki á ríkissjóði nema 15 ár, en eftir þann tíma á ábúandi að taka við skóglendinu, enda verður þessi nýi skógur hans eign.

Þá er í 4. kafla ákvæði um skógarítök og hvernig þeim skuli af létt. Eins og mönnum er kunnugt, þá eiga menn skógarítök víða um landið, þannig að einn maður á ítökin í skóginum, en annar maður á landið undir skóginum. Nú þykir ætíð hafa farið illa á því, að tveir menn séu um slíkar eignir sem þessar. Þeim, sem á skóginn, er vitanlega ekki eins sýnt um að girða hann og rækta, þar sem hann á ekki landið. Og hliðstætt mætti segja um þann, sem á landið. Samkv. fenginni reynslu í Noregi er nauðsynlegt að koma þessari eign á eina hönd.

Þá er hér ákvæði um að heimila landeiganda að kaupa skóg á sínu landi eftir mati á þann hátt, að sameina landið og ítakið. En geri hann það ekki, getur sá, sem ítakið á, átt kost á að kaupa landið eftir mati eða samkomulagi og sameinað eignarréttinn yfir landinu og skóginum á þennan hátt.

Það virðist vera mjög nauðsynlegt að sameina slíkar eignir sem þessar, til þess að hægt verði að bjarga frá eyðileggingu verðmætum, sem landið okkar á þarna.