13.03.1940
Efri deild: 16. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

20. mál, atvinna við siglingar

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Út af þeirri staðhæfingu hv. samnm. míns, að til séu nú nægir vélstjórar á hin svokölluðu stærri skip, vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hans, hvort það sé ekki á hans vitund, eins og stundum eru dæmi til, að á þessum skipum séu nú starfandi í nokkrum tilfellum vélstjórar með nafninu „2. vélstjóri“, sem hafa ekki réttindi til þess að lögum. Ef þessari spurningu verður ekki svarað neitandi, sem ég hygg, að hv. þm. treysti sér ekki til, þá vil ég ennfremur mega spyrja hann að því, hvort hann sé þeirrar skoðunar, að lögskráningarstjóri muni að óreyndu skrá þá menn sem vélstjóra á þessi skip, er hafa ekki til þess lagalegan rétt, ef kostur er að fá aðra, sem hafa þessi réttindi.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en ég geri ráð fyrir, að þau svör, sem fram koma, hljóti að leiða í ljós, að þau orð, sem ég hefi haft hér, muni alls ekki vera á misskilningi byggð.