26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Ég vil þakka hv. n. fyrir athugun hennar á þessu litla frv., og skal ég, án þess að hafa um það fleiri orð, lýsa því yfir, að ég mun ekki gera ágreining út af þeirri brtt., sem hv. n. hefir komið með sem leiðréttingu eða áréttingu í sambandi við þá undanþágu, sem hér um ræðir.

Ég vil svo aðeins víkja að viðbótartill., sem ég hefi komið með. Það er eiginlega eftir áskorun Slysavarnafélags Íslands, sem ég tók hana upp. Í bréfi, dags. 19. febr. 1940, hefir Slysavarnafélagið sent forseta Sþ. beiðni um, að hlutazt væri til um, að þingið leiðrétti þann misskilning, sem virðist hafa ríkt, þegar nýja tollskráin var samþ., þar sem flugeldar til skipa eru tollaðir með 90% verðtolli og 1.20 kr. þungatolli á kíló, eins og hv. frsm. n. hefir lýst. Áður var á flugeldum til skipa 8%, verðtollur og 7 aura þungatollur á kíló. Það þarf engum getum að því að leiða, að þetta hefir slæðzt inn í tollskrána vegna þess misskilnings, að flugeldar væru eingöngu notaðir til skemmtunar.

Þetta hefir leitt til þess, að flugeldar eru ekki fáanlegir í Rvík, og vil ég biðja hv. þm. að veita því athygli, sem ég nú skýri frá, en það er, að 4 skip, sem ég get nafngreint, hafa orðið að fá undanþágu hjá skipaskoðunarstjóra frá því að hafa flugelda um borð í skipunum, og það á þessum hættulegum tímum. Þetta er vegna þess, að þeir, sem annars verzla með nauðsynjar skipa, hafa ekki séð sér fært vegna hins háa tolls að leysa þá inn.

Af þessari ástæðu hefi ég komið með brtt. við þetta frv. um það að ríkisstjórninni sé heimilt að líta á þessa nauðsyn, sem hér er fyrir hendi.

Ég þykist vita, að þegar hv. n. gefur sér tíma til að athuga þetta, þá muni henni finnast það rétt, sem hér er farið fram á, en til þess, að tefja ekki málið, þá vil ég gjarnan taka þessa brtt. aftur til 3. umr., ef það er unnt formsins vegna, svo n. geti tekið afstöðu til hennar. Annars liggur þetta svo í augum uppi, að þetta ætti að geta gengið, en ég vil í öllum hlutum fara að vilja hv. n., svo ef hæstv. forseti lítur þannig á, að hægt sé að fresta atkvgr. um brtt. mína á þskj. 185, þó gengið sé til atkv. um brtt. n. og frv., þá er ég ásáttur með að taka hana aftur til 3. umr.