26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Magnús Jónsson:

Ég vil aðeins gera grein fyrir því, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Minn fyrirvari er meðfram stílaður af því, að ég er dálítið óviss um nauðsyn málsins. Á hinn bóginn vildi ég láta fylgja frv. greinilega frá minni hendi, að ég ætlast til, að í framkvæmdinni sé farið eftir orðanna hljóðan, að þetta nái aðeins til kassaefnis, sem er unnið þannig, að það er sagað niður í hæfilegar lengdir. Þetta vildi ég láta fylgja, og hv. frsm. hefir gert það líka.

Um viðbótartill. hv. þm. Vestm., eða brtt. á þskj. 185, sem mun nú verða tekin aftur til 3. umr., vil ég segja það, að þegar mþn. ákvað þennan háa toll á þessa nauðsynjavöru, þá mun það hafa verið af því, að í framkvæmdinni er ómögulegt að greina þetta í sundur. Ég býst við, að allir hv. þdm. séu sammála um, að venjulegir flugeldar, sem sprengdir eru á gamlárskvöld, eigi að vera í hæsta tolli. Þeir eru óþarfir og þar að auki hættulegir. Ég býst við, að þegar innflutningurinn var frjáls, þá hafi langmest af flugeldainnflutningnum verið hálfgerður og algerður óþarfi.

Ég þori ekki að segja um það, hvort það er mögulegt, að svona flugeldar nemi svo verulegu í útgerðarkostnaði skips, að það geti skipt nokkru máli fyrir útgerðina. Mér finnst það ótrúlegt. Úr því að till. hefir nú verið tekin aftur, þá vil ég lofa hv. flm. því, að till. verði athuguð mjög fljótlega í n. Það eru sérstaklega þessi 2 atriði, sem þarf að afhuga, hvort hægt er að greina þetta í sundur og hvort þetta nemi í raun og veru nokkru í útgerðarkostnaði skips.

Ég vil nefna sem dæmi, að mþn. barst sægur af svona till., sem ekki var tekið tillit til. Frá ljósmyndurum barst t. d. kvörtun um það, að efni eitt hefði hækkað um 200%. Þegar farið var að athuga þetta, þá var þetta efni, sem kannske var notað fyrir 3 kr. á ári. Það var sægur af svona efnum, sem kannske voru hækkuð eða ekki hækkuð, því það skipti ekki neinu máli.