26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

31. mál, tollskrá o. fl.

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi eins og hv. formaður fjhn. skrifað undir nál. með fyrirvara. Hann byggist þó ekki á því, að ég sé samnm. mínum ósammála um það að bera fram brtt. á þskj. 148, því ég tel, að hún sé sanngjörn og að frv. án hennar væri mjög ósanngjarnt í garð þeirrar innlendu framleiðslu, sem í þessum efnum á sér stað. Ég get líka sagt það, að efnislega álít ég, að það sé ekkert á móti þessu frv.; þ. e. a. s. með þeirri breyt., sem n. leggur til að gerð verði á því, en eins og hv. form. n. orðaði það áðan, að hans fylgi við málið væri dálítið hæpið, þá er eins um mig, að ég tel dálítið hæpið, að það sé réttmætt vegna þessa ekki stórvægilega atriðis að fara að breyta l. um tollskrá nú, örfáum vikum eftir að l. voru sett. Þau öðluðust gildi 1. jan., en voru samþ. rétt fyrir áramótin og komu til framkvæmda 1. febr. Það eru því ekki liðnir fullir 2 mánuðir síðan l. komu til framkvæmda.

Ég verð að telja það mjög hæpið, jafnvel þó menn telji sig finna einhverja galla á l., að fara að breyta þeim svona fljótt eftir að þau voru samþ. og eftir að þau öðluðust gildi.

Það var komið í mesta öngþveiti með alla okkar tolla- og skattalöggjöf þegar lögin um tollskrá voru sett. Það voru ótal tollalög og lagabreytingar við þau, og enn lög um gengisviðauka, og mörg af þessum lögum giltu aðeins til eins árs í einu. Þess vegna var skipuð milliþn. til þess að endurskoða tollalöggjöfina. Nefndin lagði síðan fram frv. til laga um tollskrá, sem lagt var fyrir síðasta þing og bar það með sér, að mikil vinna hafði verið lögð í þetta, og á síðasta þingi hygg ég, að meiri vinna hafi verið lögð í að athuga þetta mál heldur en títt er, og get ég borið um það, að fjhn. hélt a. m. k. 30 fundi um þetta mál, og í þinghléinu tók milliþn. það aftur til athugunar og var það svo loks afgr. á þinginu í haust. Mér hefði því fundizt hyggilegt, að unað hefði verið við þessi lög a. m. k. nokkru lengur án þess að farið væri að breyta þeim. Ég skal játa það, að með þessu er ekki farið fram á breyt. á tollskránni sjálfri, heldur er aðeins um heimildarákvæði að ræða, en ég býst við, að það verði þó til þess að opna leið fyrir breytingum á tollskránni, ef farið er að breyta lögunum á annað borð. Eins og hv. form. fjhn. gat um í ræðu sinni áðan, hafa komið fram ótal till. viðvíkjandi tollum, og hefir, ef svo mætti segja, hver viljað ota sínum tota, og ef nú er farið að breyta til, verður það áreiðanlega til þess, að það drífa inn frv. á næstu þingum um að breyta tollskránni. Þess vegna, þó að ég sé efnislega ekki á móti þessu máli, eftir að till. fjhn. á þskj. 148 hefir verið samþ., er ég mjög í efa um það, hvort ég greiði atkv. með því út úr deildinni, af þeim ástæðum, sem ég hefi greint, og hefi ég talið réttast, að þetta þing, sem haldið er á sama ári og tollskráin öðlast gildi, liði án þess að lögunum yrði breytt.