26.03.1940
Efri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

31. mál, tollskrá o. fl.

*Magnús Gíslason:

Ég mundi telja æskilegt, ef hæstv. forseti sæi sér fært að verða við því, sem form. fjhn. mæltist til, að tekin væri aftur til 3. umr. brtt. á þskj. 185, vegna þess að ég tel, að málið þurfi betri athugunar við. Þannig stendur á, að þetta mál er til athugunar í fjármálaráðuneytinu. Verzlun hér í bænum hafði fengið sendingu af flugeldum, og eitt af skipum Eimskipafélagsins vantaði flugelda, en þegar til kom, var tollurinn svo hár, að hlutaðeigandi verzlun taldi sér ekki fært að flytja þetta inn og taldi það sama og innflutningsbann. Nú væri hugsanlegt að koma flugeldum, að því leyti sem þeir eru notaðir sem öryggisútbúnaður skipa, undir annað ákvæði, en hvorki ráðuneytið né skrifstofa tollstjóra treystist til þess, því það er ekki hægt að gera greinarmun á því, hvort nota skal flugeldana til skrauts og skemmtunar eða öryggisráðstafana. Þess vegna lít ég svo á, að þótt þessi brtt. væri samþ., gæti það orðið gagnslaust. Það þyrfti þá frekar að setja ákvæði um það, að þeir, sem flytja inn flugelda, sem eingöngu eru fyrir skip, gæfu einhverja yfirlýsingu um, að þessir flugeldar væru ekki notaðir annað en sem ljós eða leiðarmerki. Það er ekkert vit í því að þurfa að tolla slík tæki, sem notuð eru sem öryggisútbúnaður skipa, með svo geipilegum tollum.