08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

9. mál, brúasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Nefndin hefir athugað þetta frv., og er álit hennar á þskj. 72, ásamt áliti vegamálastjóra, sem n. hafði á fundum sínum og ræddi málið við. Ég þarf ekki að benda á þá nauðsyn, sem brýrnar eru samgöngum okkar. Hún er öllum kunnug, og þeim mest, sem þurfa á hverju ári að ríða óbrúaðar stórár, og er ekki lengra síðan en frá síðasta sumri, að ég reið eina slíka, þar sem er Jökulsá í Lóni.

Enn er mikið eftir óbrúað af stórvötnum hjá okkur, og ef við athugum, hvernig hagað hefir verið framkvæmd á brúabyggingum hjá okkur, sjáum við, að Alþingi hefir ekki treyst sér, síðan Hvítá í Borgarfirði var brúuð, að taka á fjárlög slíkar framkvæmdir. Allar þær ár, sem hafa verið brúaðar síðan, eru brúaðar fyrir lánsfé, og hefir verið horfið að því að dreifa kostnaðinum á þennan hátt á framtíðina. Nú eru skiptar skoðanir um, hve heppilegt þetta er, og hefir verið horfið frá því, en síðan hafa brúabyggingar alveg strandað. Þess vegna er þetta frv. komið fram, og n. er á einu máli um það, að nú þurfi að fást fé á annan hátt en þann, að fá samþykkt um það á hinum einstöku þingum.

Nú er eftir að byggja 20–30 stórbrýr, sem kosta samtals um 2 millj. kr., og ennfremur 35 smærri brýr, sem hver kostar yfir 30 þús. og samtals tæpa elna millj. kr. Samkv. till. vegamálastjóra skal veita fé úr sjóðnum til smíðar brúa, er kosta 20 þús. kr. eða meira. Þetta tókum við ekki upp, vegna þess að þörfin á því að brúa stórár, sem óbrúaðar eru, er svo mikil, að Alþingi má ekki draga úr því með því að færa þetta takmark niður. — Ég sé, að það er komin fram brtt. frá hv. 5. landsk. um, að þetta mark verði fært niður eins og vegamálastjóri lagði til. Það er ekkert aðalatriði fyrir mér, en þegar við í n. tókum upp 30 þús. kr. í stað 20 þús. kr., var það vegna þess, að við lítum svo á, að þó á ári hverju kæmu inn í sjóðinn 50–70 þús. kr., þá veitti ekki af því til þess að brúa stærstu vatnsföllin, en bara 7 af þessum stærstu brúm kosta 11/2 millj. króna. Þess vegna vildum við ekki, að fé úr sjóðnum væri varið til þess að brúa smáár, sem ætti að vera hægt að brúa fyrir árlegar fjárveitingar.

Við höfum lagt til, að fyrsta brúin yrði byggð á Jökulsá á Fjöllum. Um nokkur ár hefir verið talað um brú undan Grímsstöðum á Fjöllum. Þessi á er farartálmi milli Norður- og Austurlands. Hún lengir leiðina um liðlega 80 km., eða að leiðin, sem nú er farin, er um 82 km. lengri heldur en ef farið er um Mývatnssveit. Á síðasta ári, áður en verðhækkunin varð, var gerð nákvæm rannsókn á því, hvað leiga þyrfti að vera fyrir bíl á km. fyrir gúmsliti og benzíneyðslu, og varð niðurstaðan, að leigan þyrfti að vera 25 aurar pr. hlaupandi km. fyrir á manna bíl. Nú hefir þetta verið reiknað út að nýju, eftir verðhækkunina, og hefir niðurstaðan orðið, að kostnaður sé 33 aurar fyrir 5 manna bíl á hlaupandi km. Þessi vegur mun á síðastl. ári hafa verið farinn af um 500 bílum, eftir talningu, sem vegamálastjóri lét framkvæma, og vegalengdin er 82 km, eins og áður er sagt. Ef gert er ráð fyrir 23 aurum á km., er það yfir 10 þús. kr., en ef gert er ráð fyrir 33 aurum, eru það 13500 kr., og mundi það sparast á ári í erlendum gjaldeyri. Það er þess vegna vafasamur sparnaður að byggja þá brú ekki sem fyrst, og það því fremur, sem nú liggja öll rök að því, að byggja brúna ekki undan Grímsstöðum, þar sem talað var um brú, sem mundi kosta mikið, eða um 1/4 millj., heldur hjá Lambhöfða, þar sem áin rennur í þrennu lagi í leysingum, og þar sem höfuðbrúin mundi ekki kosta nema 50 þús. kr., og er það hugmynd vegamálastjóra að brúa fyrst aðalána með 50 þús. kr. brú og síðan smáálana eftir því sem fé er fyrir hendi.

Ef þetta frv. verður að lögum, vildi ég vona, að fjvn. sæi sér fært að taka þessa brú inn á fjárl. 1941; yrði þá komið það mikið fé í sjóðinn, sem nægja myndi til þess að brúa aðalána, en yfir álana er oft fært. Ég vil kasta því fram, að ef þetta frv. verður að lögum, hvort ekki sé rétt að taka þessa brú upp í fjárlög. Hún sparar það mikið í gjaldeyri, að efnið í hana — 14 tonn af járni — myndi koma í hendi tiltölulega fljótt í sparnaði á benzíni og gúmmí, sem sparast við það að leggja niður lengri leiðina.

Ég vil mæla með því, að brtt. n. verði samþ. og að frv. í heild verði samþ. og fái að ganga sem greiðast gegnum þingið, svo að möguleikar séu fyrir því að byrja á þessari brú helzt á næsta ári.