08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

9. mál, brúasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég þarf litlu að svara hv. 2. landsk. Hann sagðist freysta Alþ. til þess á hvrjum tíma að sjá þörf brúagerðanna og veita fé til þeirra. Hvernig stendur þá á því, að brýrnar á Skjálfandafljót, Þverá og Markarfljót, Klifanda og aðrar ár í Skaftafellssýslu hafa verið byggðar fyrir lánsfé, en ekki veitt fé til þeirra? (SÁÓ: Alþ. heimilaði lántöku til brúargerðanna). Já, það var tekið lán, vegna þess að ríkið treystist ekki að leggja fram svo mikið fé í einu, sem þurfti til þessarn mannvirkja. við höfum því ekki nema um tvær leiðir að velja; önnur er sú, að aura saman á mörgum árum fé til þessara framkvæmda, en hin er sú, að taka lán. við fáum ekki í einu hundruð þúsunda veitt í fjárl. til brúargerða. (MJ: Það fáum við heldur ekki á einu ári með þessu móti). Til þess þyrfti að spara mjög á öðrum liðum. — en hvað vill hv. 1. þm. Reykv. spara? Ekki vill hann láta afgr. fjárl. með tekjuhalla fremur en ég, og ekki má hann heyra nefnda aukna tolla né skatta. Hvaðan vill hann þá láta féð koma? Nú er það svo, að flestir eru mótfallnir frekari lántökum; þá er þessi eina leið eftir, sem frv. felur í sér.

Hv. 1. þm. Reykv. gerir mikið úr því, að hér sé verið að leggja á ákveðinn skatt í ákveðnu augnamiði. Jafnframt játaði hann, að þetta hefði verið gert áður með benzínskattinum, en það taldi hann þó skipta öðru máli, vegna þess að sérstakt samband væri þar á milli skattsins og þeirra framkvæmda, er fyrir hann ætti að vinna. En mér er spurn, — fara bílarnir ekki yfir brýrnar og koma þær ekki að jafngóðum notum og vegirnir? Kemur það ekki bílunum að gagni, að vegurinn milli Austurlandsins og Norðurlandsins styttist um 32 km., eða um heila dagleið, svo að ég taki aðeins dæmið um brúna á Jökulsá á Fjöllum?

Hv. þm. blöskrar að hækka benzínskattinn um þennan eina eyri, en ég vil í því sambandi leyfa mér að benda á, að benzínskatturinn er lægri hér en annarstaðar, en vegirnir eru stórum verri. því er benzínskatturinn einn af þeim skattstofnum, sem óhætt er að hækka, og þörfin fyrir að bæta samgöngurnar innanlands er brýn.

Eins og ég sagði áðan, held ég ekki fast á því, hvort miðað er við 20 þús. kr. eða 30 þús. kr. brúagerðarkostnað við framlag úr brúasjóði. En þegar þess er gætt, að eftir er að brúa margar stórár, sem ætlað er að kosti yfir 30 þús. kr., og að kostnaður samtals muni nema yfir 2 millj. króna, en hátt á annað hundrað brýr eru óbyggðar yfir smærri ár, álít ég, að framlögum úr brúasjóði beri að verja til byggingar hinna stærri brúa, en að með venjulegri fjárveitingu í fjárl. megi þoka áfram byggingu hinna smærri,

— Ég myndi álíta heppilegra að miða framlag við 30 þús. kr. kostnað, en er ekki fast í hendi, þótt farið verði niður í 20 þús. kr., þegar veita á framlag úr sjóðnum.