28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2158)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Sveinbjörn Högnason:

Það hefir orðið samkomulag um að afgreiða málið á þann veg, sem hv. frsm. lýsti. Við, sem stöndum að frv. um rafveitulánasjóð, getum eftir atvikum fellt okkur við þetta, og skal ég ekki ræða það frekar. nema tilefni gefist. — Um þann ágreiningsvott, sem hv. frsm. talaði um viðvíkjandi yfirstjórn þessara mála eða orðalagi um þau efni, vil ég segja, að það er miklu eðlilegra að orða þetta beint, eins og nefndin leggur til, en að láta heita svo sem ráðherra hafi með höndum yfirstjórnina og feli bankanum framkvæmd hennar. Hollara er það líka, ef um ágreining eða mismunandi stjórnaraðferðir yrði að ræða, að fela þessa starfsemi, sem heldur áfram árum saman, fastri stofnun fremur en ráðherrum, sem koma og fara. Vænti ég þess, að hv. þdm. verði okkur, meiri hl. n., sammála um þetta atriði.