27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

81. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Sigurðar Kristjánsson:

Ég vil aðeins taka það fram, að mér finnst með öllu ótímabært að fara að koma með þetta frv. nú. Það var ekki fyrr en í ótíma, að hlaupið var (á þann hátt, sem lög nr. 49 frá síðasta þingi mæla fyrir) undir bagga með þeim stoðum, sem standa undir aðalatvinnulífi landsmanna.

Fyrirtæki þau, sem hér ræðir um, eru ennþá alveg félaus, þrátt fyrir sæmilega afkomu síðustu mánuðina, en eins og kunnugt er, var það tilgangurinn með skattaundanþágunni, sem veitt var á síðasta þingi til handa hinum þrautpíndu útgerðarfyrirtækjum, að gefa þeim tíma til þess að rétta við úr því vandræðaástandi, sem mörg þeirra voru komin i. Þegar þessi fyrirtæki geta með sæmilegu móti staðið undir gjöldum til hins opinbera, er frv. sem þetta tímabært, en fyrr ekki. Þetta vil ég láta koma skýrt fram nú þegar, svo að það verði staðfest, að skoðanir hafi a. m. k. verið skiptar um frv. þetta frá öndverðu.