11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

87. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

*Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta mál er nú frá fornu fari kunnugt hér í þinginu. Það eru orðin allmörg ár síðan fyrst voru sett 1. um skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands. Það hefir verið venja að framlengja þessi 1. um tveggja ára bil í einu, því að eins og hv. þm. muna, eru þessi l. enn tímabundin. Þannig var þetta mál borið fram á því Alþ., sem nú situr, að l. yrðu framlengd fyrir árin 1941–42. En núgildandi 1. um þetta efni falla úr gildi um næstu áramót. Sú breyt. var svo gerð á frv. í Nd. að fella niður heimildina fyrir árið 1942 og breyta þannig út af þeirri venju, sem tíðkazt hefir, með því að framlengja l. aðeins um eitt ár. Þegar þessu frv. var vísað til fjhn. Ed., þá leit út fyrir, að Alþ. myndi verða slitið mjög bráðlega þar á eftir, og auk þess bjóst fjhn. þessarar d. við því, að Nd. myndi halda fast við sína skoðun um þetta efni, og þess vegna gæti verið nokkur áhætta út af ekki stórvægilegra atriði en þessu að fara að hrekja frv. milli deilda. Fjhn. Ed. lagði því til, eins og stendur í nál. á þskj. 374, að frv. yrði samþ. óbreytt.

En nú er bæði það, að skömmu eftir að þetta nál. var gefið út, kom það í ljós, að þinglausnir myndu ekki verða eins fljótt og fjhn. bjóst við í fyrstu, og í öðru lagi þóttist n. hafa gengið úr skugga um það, að þrátt fyrir þá breyt., sem Nd. hafði gert á þessu frv., myndi þeirri d. það ekki mjög mikið kappsmál, að frv. yrði samþ. í þeirri mynd, sem d. gekk frá því. Þess vegna er það, þrátt fyrir að fjhn. var búin að leggja til í nál. sínu, að frv. yrði samþ. óbreytt, þá ber hún nú fram brtt. við frv. á þskj. 406, um það, að færa frv. aftur í sitt upprunalega horf, þannig að framlenging þessara 1. gildi bæði fyrir árið 1941 og árið 1942. Ástæðan til þess, að n. ber þessa brtt. fram, er sú, að hún varð vör við nokkra óánægju og nokkurn ótta hjá Eimskipafélagi Íslands út af þessari breyt., sem Nd. hefir gert á frv. — Ég fyrir mitt leyti skal svo bæta því við, að ég sæi ekkert á móti því, þó að sú breyt. yrði gerð á þessum l., að þau yrðu alls ekki tímabundin, en ég hefi ekki umboð frá meðnm. mínum til að láta þá skoðun í ljós, það er aðeins mín eigin skoðun. Ég er nokkurn veginn sannfærður um það, að um fyrirtæki eins og Eimskipafélag Íslands, sem er alþjóðar fyrirtæki, eigi í raun réttri að gilda sérákvæði hvað skattgreiðslur snertir. a.m.k. tel ég óhætt að framlengja l. um skattgreiðslu þess í tvö ár eins og venjulega hefir verið gert að undanförnu.