23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2282)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Forseti (EÁrna):

Eins og hv. dm. er kunnugt, hefir Nd. lokið störfum, en við það hefir skapazt sérstakt viðhorf, og í rauninni óeðlilegt ástand um afgreiðslu mála hér í d. Það er ekki lengur hægt að senda Nd. mál, sem afgr. kynnu að verða í þessari d. Þetta viðhorf hefir óeðlileg áhrif á brtt., sem þm. kynnu að bera fram, m. ö. o., að samþ. brtt. er sama og að fella frv. Þó að frv. hefði svo stóra galla, að það þyrfti að laga þá, er það ekki hægt, því að með því að laga gallana er frv. fellt. Ég vil benda hv. dm. á, að svona er ástandið nú hér í d. Ég vil ekki grípa fram fyrir hendur hv. dm., en aðeins segja þeim frá því, að svona er ástandið nú. Það er undir þm. komið, hvort þeir nú, þegar ég set næsta fund, vilja halda áfram að vinna að þessu máli; það verður lagt undir atkv. þm., hvort þeir vilja leyfa, að málið sé tekið fyrir.

Ég hefi ekki fleira um þetta að segja, en vildi aðeins benda hv. d. á þetta. Ég vil mælast til þess, ef d. leyfir, að málið sé tekið fyrir, að þá yrðu um það stuttar umr., svo að hægt yrði að ljúka störfum d. eftir tiltölulega stutta stund. Ég tel ekki fært að halda þessari d. starfandi í alla nótt, þegar annars er öllum störfum lokið og ekki hægt að senda mál til Nd., og tæplega til Sþ. Ég segi svo þessum fundi slitið.