23.04.1940
Efri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2287)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Ég vil aðeins út af orðum hv. þm. S.-Þ. taka það fram, að það er ekki rétt hjá honum, að þetta mál hafi á nokkurn hátt verið drifið áfram með offorsi, eins og hann komst að orði. Þetta frv. kom fram í byrjun þessa mánaðar og fór í gegnum Nd. á mjög rúmum tíma. Að vísu hefir málið siglt nokkuð hratt gegnum þessa hv. d., enda var komið undir þinglausnir, þegar hún fékk það til meðferðar. Þetta mál eða meðferð þess á því ekkert skylt við offors. Ég vil aðeins, út af þeim vingjarnlegu ummælum hv. 2. þm. N.-M., er hann mæltist til þess, að við sæktum málið ekki fast, segja það, að það er ekki nema eðlilegur þingmannsréttur, að við höldum nokkuð fast fram því máli, er við viljum koma fram, án þess að fara að beita bolmagni frekar en þingræðisleg fyrirmæli heimila í beitingu síns máls. Það var þess vegna, að ég óskaði eftir, að þetta mál kæmi til atkv.

Út af því, sem ég sagði áðan, en var afflutt fyrir mér á þann hátt, að ég hefði sagt, að það lægju fyrir sönnur á því, að meiri hl. væri fyrir í málinu í d., vil ég segja það, að það er ekki rétt. Ég sagði aðeins, að d. hefði enn haldið málinu í því horfi, að hún væri einhlít um afgr. þess. Eins og hæstv. forseti hefir réttilega tekið fram, þá eru það ekki venjulegar ástæður, þegar ekki er hægt að koma fram brtt. Hv. d. hefir þó haldið frv. enn þannig eins og hún væri einhlít um afgreiðslu þess, og það gæti litið út sem vitnisburður d. um það, að hún vildi afgreiða málið. Þess vegna vildi ég, að þetta kæmi fram, áður en menn greiða atkv. um afbrigði.

Ég veit, að minni hl. getur hindrað, að málið gangi fram, með því að neita um afbrigði, og verð ég þá að kalla, að ofurkappi sé beitt. Það er auðvitað fullur réttur þm. að gera það, en þá virðist vera beitt nokkuð miklu kappi í því að hindra framgang málsins. Það hefir við atkvgr. sýnt sig, að það eru af 4 flokkum hér 3, sem virðast vera með málinu, en einn á móti. Ég verð að kalla, að kappi sé beitt, ef þessi eini flokkur ætlar eftir boði hv. þm. S. Þ. að stöðva málið með því að neita um afbrigði.