11.04.1940
Efri deild: 32. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

87. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

*Erlendur Þorsteinsson:

Ég hefi orðið samferða meðnm. mínum um það, að bera fram þá brtt., sem hér ræðir um. Ég tel alveg sjálfsagða gætni í þeirri brtt. fólgna, og vænti þess, að báðar d. Alþ. geti fallizt á að samþ. hana. Eins og hv. frsm. tók fram, hefir gætt nokkurs óróa hjá aðstandendum Eimskipafélags Íslands vegna þeirrar breyt., sem gerð var á frv. í Nd., og sem mun vera óvenjuleg. Hitt hygg ég þó, að rétt muni vera, að þessi órói, sem stafar af því að frv. var breytt, muni brátt úr sögunni, því að það mun aðeins vera vegna misskilnings Nd., að þessu frv. var breytt þannig. Vitanlega er alveg sjálfsagt að leiðrétta þetta, því að öllum þm. hlýtur að vera ljóst, hve mikil nauðsyn það er fyrir hagsmuni þjóðarinnar, að slíkt félag sem Eimskipafélag Íslands er sé starfandi á þessum óvissu hættutímum. Ég get vel tekið undir það með hv. frsm., að full ástæða sé til þess að gera þessi l. ótímabundin, því að engin ástæða er til að óttast, að sá hagnaður, sem kynni að verða af starfsemi félagsins, yrði látinn renna til annars en að bæta við skipastól félagsins, og ég hygg, að allir geti orðið sammála um, að slíkt sé mjög áríðandi fyrir okkur Íslendinga.