19.04.1940
Neðri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2319)

118. mál, skattgreiðslur útgerðarfyrirtækja

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Það gelur gengið alveg fram af manni að heyra annað eins tal eins og framsóknarmannanna hér. Þeir láta eins og gengisfallið hafi verið gert vegna útgerðarinnar, sérstaklega stórútgerðarinnar. Þessir menn, sem með sínum ráðstöfunum voru búnir að eyðileggja svo hag þjóðfélagsins, að öll gengisskráning var orðin hreinasta vitleysa. Jafnvel þeir, sem þá sátu við völd, vissu, að gengisskráningin eins og hún var til þess tíma, var ekki hagstæð fyrir þá framleiðendur í landinu, sem framsóknarmenn hafa látizt tala fyrir. Þess vegna er það rangt að tala um, að gengisfallið í fyrra hafi verið gert fyrir stórútgerðina. Það var gert vegna stjórnarfars framsóknarmanna og sósíalista á undanförnum árum og vegna framleiðendanna. Svo má deila um það óendanlega, hvar hagnaðurinn af gengisfallinu hefir komið niður og hver hann hafi verið. Ég tel það líka fjarstæðu, þegar látið er svo sem það sé rangt hjá hv. 6. þm. Reykv., að gengisfallið hafi ekki orðið til þess gagns, sem til var ætlazt, ekki sízt eftir að gengi íslenzku krónunnar var miðað við gullgildi dollars, en ekki sterlingspundið, en áður var það miðað við pundið. Það má ekki gleymast í þessu sambandi.

Ég ætla svo að bæta því við, að mig undrar, þegar einhverjir af framsóknarmönnunum hafa kjark til þess að segja, að útgerðarmenn muni ekki vilja þiggja skatffrelsi, og þetta leyfa fulltrúar sér að segja, sem eru umboðsmenn fyrir samvinnufélögin í landinu, sem hafa það óþurfilegasta skattfrelsi, sem nokkurstaðar þekkist í veröldinni, og þau hafa ekki notið þess aðeins síðan í fyrra, heldur um tugi ára, þjóðfélaginu til niðurdreps, og ef þetta verður ekki lagfært nú á næstunni, eru ófyrirsjáanlegar þær afleiðingar, sem af því verða. Þessir menn vilja víst ekki skattfrelsi heldur nú en undanfarið. en hugarfarið er þannig, að þeir búast við, að útgerðarmennirnir muni ekki vilja þiggja skattfrelsi. Hvílíkar framfarir verða í öllum samvinnufélagsskap hér á landi, sem nú eru bæði verzlunarfélög, iðnaðarfélög og útgerðarfélög og eru að verða stærstu fyrirtækin, þegar þessi félög fara að hugsa sig um, hvort þau vilji þetta skattfrelsi lengur! Ég vona það, að þessi hugsunarháttur um að vilja ekki skattfrelsi komi fram í Framsfl. og að flokkurinn neiti skattfrelsi samvinnufélaganna í landinu.