01.04.1940
Sameinað þing: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2441)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

Vilmundur Jónsson:

Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir til umr. og nú hefir verið mælt fyrir, hreyfir við svo þýðingarmiklu vandamáli, að hún er að mínum dómi og ýmissa annara hv. þm. of losaralega hugsuð og orðuð af of flausturslegri og fyrirhyggjulausri léttúð til þess að hæfa jafnháalvarlegu úrlausnarefni og því, hvernig vernda skuli lýðræðið í landinu og sjálfstæði ríkisins gegn aðsteðjandi hættum.

Lýðræði í ekki mjög rúmri merkingu er það, að sameiginlegum málum þjóðfélags ráði vilji meiri hl. þjóðarinnar eins og hann birtist við almennar, frjálsar kosningar, framkvæmdur af réttkjörnum fulltrúum og framkvæmdunum hagað eftir þeim reglum, sem þeir setja, en þjóðinni gefst síðan kostur á við hverjar kosningar að hafa áhrif á að breyta. Um lýðræði skilgreint á þennan hátt getur okkur, fylgjendum næsta óskyldra stjórmálaflokka, komið saman — og vonandi meira en að nafni til. Þó að ýmsum okkar kunni jafnvel til skamms tíma að hafa fundizt fátt um slíkt lýðræði — sumum fyrir það, hvers því væri vant, en öðrum þótt það um of ríflega skammtað — ætla ég, að atburðir síðustu tíma hafi mátt sannfæra okkur og margan hálfvolgan fylgjanda lýðræðisins um, hvað í húfi er, ef víkið er af grundvelli þess og horfið til mótsetningar lýðræðisins: einræðisins í einu formi eða öðru. Vissulega hafa þeir atburðir mátt gera okkur umburðarlyndari við sjálfsagða ófullkomleika og vankanta lýðræðisins, sem eru ekki vandfundnir: margvíslegar mótsagnir þess varðandi almenn réttindi, seinagangur, skriffinnska, orðaglamur, úlfúð og illdeilur, málamiðlanir, hálfverk í flestum efnum og spilling í mörgum greinum. Okkur hafa gefizt gildar ástæður til að minnast þess, að þrátt fyrir alla sína veikleika hefir lýðræðið til þessa dags reynzt hvorttveggja í senn: öflugast í vörn og þegar til lengdar lætur drýgst í sókn fyrir þeim mannréttindum, sem ein eru fær um að tryggja til nokkurrar frambúðar friðsamlegt samfélag mannanna, er skilið eigi að heita þjóðfélag — að ég tali ekki um menningarþjóðfélag. Og þegar öllu er á botninn hvolft, lofar lýðræðið enn beztu um, að þjóðfélögin nái undir merkjum þess lengst í átt þeirrar fullkomnunar, sem beztu og réttsýnustu menn fyrr og síðar hefir dreymt um. Bezt horfir þetta með þeim þjóðum, sem kalla má, að lýðræðishugsjónin sé í blóðið borin, sumpart og sennilega fyrst og fremst vegna lyndiseinkunna þeirra, þ. e. skapfestu eða hæfileika til rólegrar, skynsamlegrar yfirvegunar, en óbeitar á geðæsingum og loftköstum eftir duttlungum tilfinninganna, en einnig fyrir erfðavenjur og langa tamningu. Er hér ekki sízt að gefa Norðurlandaþjóðanna, sem við teljumst til, og má því segja, að við höfum ásamt þeim sérstakar skyldur að rækja, þar sem er varðveizla lýðræðisins og jafnframt, m. a. fyrir smæðar sakir, bezta möguleika til að gæta þess — ef við og þær fáum þá að vera í friði fyrir voldugri þjóðum, sem haldnar eru öðrum og verri anda.

Þau mannréttindi, sem lýðræðið hefir einkum talið sér til gildis að tryggja, og við, sem teljum okkur fylgja lýðræði og órar fyrir því, hvað það þýðir, teljum að í lengstu lög eigi að tryggja borgurum hvers lýðræðisþjóðfélags, eru hugsanafrelsi, skoðanafrelsi, þar með talið frelsi til að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, atvinnufrelsi og sem fullkomnast réttaröryggi. Þessi réttindi eru einkum dýrmæt pólitískum minni hl. í þjóðfélögunum, en það hafa þótt höfuðeinkenni og aðalsmerki lýðræðisskipulagsins, að það tryggði minni hlutanum slík réttindi, enda taki jafnan til hans sem fyllst tillit.

Nú bjóða nokkrir vinir lýðræðisins, og þar á meðal þeir, sem einna fjálglegast hafa barið sér á brjóst af umhyggju fyrir því, sjálfu hv. sameinuðu Alþ. upp á að samþ. að kalla má aðgæzlulaust og fyrirvaralítið, líkt og væri húrrahróp fyrir konunginum, ályktun, sem stefnir berlega að því — hvetur til þess, að þurrkuð verði út í einni stroku öll þessi réttindi lýðræðisins, er eiga að vera þraultryggð í sjálfri stjórnarskránni: hugsanafrelsi, skoðanafrelsi., atvinnufrelsi og réttaröryggi. Mætti lýðræðið gera að sínum orðum hið fornkveðna: Guð verndi mig fyrir vinum mínum. Í till. eru fingurnir ekki lagðir í milli. Ef „vitanlegt“ er, segir þar. Hverjum? Hverjum sem er: Pétri eða Páli, Jóni eða Jónasi. Ef „vitanlegt er“ — slíkt þarf ekki að viðurkennast og enn síður að sannast fyrir dómstólum — að þú eða ég hafi hættulegar skoðanir, eða jafnvel hugsanir, að þú eða ég „vilji“ illa eða sé í vafasömum félagsskap, eða einum eða öðrum of auðsveipur — eða „á annari bylgjulengd“, eins og það hefir verið kallað, er það nægilegt til að flæma þig eða míg frá atvinnu og bjargráðum og stimpla óverðugan alls „trausts og viðurkenningar“ þjóðfélagsins. Hafi annar verið viðurkenndur samvizkusamur embættismaður, skal sú viðurkenning af honum tekin. Sé hinn viðurkennt þjóðskáld, skal hann ekki vera það lengur. Hafi hann ort kvæði á borð við Hulduljóð, skal það vera eftir ókunnan höfund. Við könnumst við fyrirmyndina. Að vísu er látið í veðri vaka, að hér sé aðeins átt við kommúnista — og ef til vill nazista — sem nú er mjög mikið samkomulag um, að hafi sérstaklega hættulegar skoðanir, a. m. k. hinir fyrrnefndu — en að því ógleymdu, að jafnvel kommúnistar eru líka menn og borgarar þessa þjóðfélags, hver er öruggur um, að ekki verði þá og þegar, e. t. v. eftir viðeigandi snuður og njósnir, ef ekki ljúgvitni, „vitanlegt“ um hann, ef á liggur að ýta við honum, að hann sé kommúnisti? Ég ætla, að ekki sé lengra síðan en í vetur, að sjálfur höfundur og hv. aðalflm. þessarar till. gaf það vel í skyn, bæði í ræðu og riti, að ekki aðeins ég og hv. 9. landsk. þm. (ÁJ), bersyndugir menn, værum — ef ekki kommúnistar, þá þeim mjög nærri standandi, — heldur mjög margir aðrir hv. þm., til þess mun ólíklegri, og þeirra á meðal hv. 4. þm. Reykv., Pétur Halldórsson borgarstjóri, að ég ekki minnist á prófessor Sigurð Nordal og „skáldin sjö“. Og fyrir hvað? Fyrir það, að við dirfðumst að treysta Alþingi og þar á meðal sjálfum okkur ekki miður til að úthluta styrkjum til skálda og listamanna en sjálfum honum ! Þá mætti hv. aðalflm. vera minnugur þess, að árum ef ekki áratugum saman hefir hann sjálfur því nær daglega verið titlaður kommúnisti. Það hefir verið „vitanlegt“ um hann, eins og hann orðar það í till. Og hann er jafnvel hvergi nærri laus undan þessum grunsemdum enn. Nú er ég sannfærður um, að fyrr á árum voru þetta staðiaus brigzl. Ég er því miður ekki öldungis eins öruggur um tilhæfuleysi bandalags hans við kommúnista hin síðustu ár — honum að vísu óvitandi bandalags. Það eru fleiri en kommúnistar, sem hafa orðið varir við og fengið á að kenna hinu hálf- og alnazistiska ófrelsi, íhlutunarsemi, slettirekuskap, snuðri og jafnvel hótunum, sem virðist vera að leggjast eins og pestarfarg yfir allt andlegt líf í þessu landi. Og það fer ekki dult, hver hefir valið sig til þess að veifa þar þrælasvipunni, sem þessi tillaga er einn hnúturinn á. En þess háttar andlegur „terror“ skapar framar öllu öðru kommúnismanum tilverumöguleika, ef ekki beinlínis tilverurétt, og skiptir ekki máli, þó að hann kunni að hafa verið upphaflega vakinn af brekum kommúnista og komi þeim e. t. v. fyrst í stað einkum í koll.

Hér er ég kominn að kjarna málsins og aðalatriði. Á að flana að því að snúa allri pólitík í þessu landi upp í baráttu á milli kommúnisma annarsvegar og nazisma hinsvegar, þar til yfir lýkur í þeirri baráttu? Þetta skiptir öllu máli fyrir unnendur lýðræðisins, því að hvor sem sigrar, er því búinn fullkominn ósigur. Ég vil, að við gripum tækifærið, stöldrum við andspænis þessari till., tökum okkur umhugsunarfrest og athugum okkar gang. Ég get mér þess til, ef við svörum spurningunni játandi, að einhverjum okkar veiti ef til vill ekki af að hugsa sig stundarkorn um, í hvorn óaldarflokkinn þeir eigi þá að skipa sér.

Um mig er það að segja, að ég vil ekki gefa lýðræðið og helztu landvinninga þess að öllu óreyndu upp á bátinn, og hið sama veit ég um nokkra hv. þm. úr öllum stjórnarflokkunum. Ég hefi jafnvel ástæðu til að halda, að þeir séu ánægjulega margir. Mér er það ljóst, sjálfsagt eins ljóst og hverjum öðrum, að lýðræðið hér á landi, eins og annarstaðar, á nú í vök að verjast, og hið sama sjálfstæði ríkisins. Steðja hættur að hvorutveggja úr ýmsum áttum. Er ég þannig ekki ugglaus um„ að lýðræðinu og skipulagsháttum þess kunni að stafa nokkur hætta af sjálfu sér, eða réttara sagt: ég veit það með vissu. Væri ekki full ástæða til að athuga það atriði vandlega, ef úr kynni að mega bæta?

Þá geri ég engan veginn lítið úr þeirri hættu, sem lýðræðinu stendur af þeim, er beinlínis játast til ofbeldisflokkanna, staðráðnir í að kollvarpa lýðræðinu, og hirði ég aldrei, hve fagurt þeir mæla um að endurreisa það aftur í fullkomnari mynd. Vísa ég um það bæði til Rússlands og Þýzkalands. Í viðskiptum sínum við þessa flokka er lýðræðið vissulega statt í hættulegu öngþveiti og sjálfheldu. Annarsvegar er að rétta þeim andvaralaust upp í hendurnar öll réttindi lýðræðisins og horfa á þá nota þau til að grafa undan því, og hinsvegar er sú bráða hætta, að lýðræðið verði gripið því hysteriska fáti geðæsingamanna, að það afnemi sjálft sig til þess að andstæðingunum gefist ekki tóm til að tortíma því. En þetta er að láta sér farast eins og manni, sem bjargar sér undan brennuvargi með því að brenna sjálfur upp býli sitt. Ég er ekki við því búinn að segja til um, hvað upp skuli taka, en að óreyndu vil ég ekki trúa því, að hér megi ekki með góðri aðgæzlu finna skynsamlegan og hallkvæman meðalveg, lýðræðinu samboðinn. Loks tel ég þá hættu, sem hvorutveggja: lýðræðinu og sjálfstæði ríkisins, stendur af þeim, sem mjög mæna nú til annara landa um íhlutun mála hér. Má svo fara, að skilgreining þess, sem nefnt er landráð-, og viðurlög við þeim brotum reynist fyrr en varir algerlega úrelt, og ætla ég fulla ástæðu til að taka það til mjög rækilegrar endurskoðunar.

Í samræmi við það, sem ég hefi nú leyft mér að segja, er það, að ég vil beiðast leyfis hæstv. forseta til að bera fram skrifl. brtt. við þáltill. þá, sem fyrir liggur. Það, sem skorta kann á, að hv. þm. hafi skilið, hvað ég er að fara, vænti ég, að þeim verði ljóst, er þeir heyra brtt. Meðflm. mínir að henni eru þeir hv. 9. landsk. (ÁJ) og hv. þm. Barð. (BJ), en mér er skylt að geta þess, að á grg. minni fyrir henni bera þeir að sjálfsögðu enga ábyrgð. Fer ef til vill eins vel á því, að ég lesi brtt. sjálfur, ef hæstv. forseti vill gefa mér það til leyfis. Hún er svo hljóðandi:

„I. Tillgr. skal orða svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram athugun á því, hvernig hið íslenzka lýðræði fái bezt fest sig í sessi og varizt jafnt áróðri sem undirróðri ofbeldisflokkanna og annara andstæðinga lýðræðisskipulagsins, með sérstöku tilliti til þess, að einstökum mönnum, stofnunum, félögum eða flokkum haldist ekki uppi að nota sér réttindi lýðræðisins til að grafa undan því og síðan torfíma því, en jafnframt með sem fyllstu tilliti til þess, að lýðræðið beiti jafnan þeim aðferðum sér til varnar, er sem bezt fái samrýmzt anda þess og því, að ekki leiði til þess, að það verði sér sjálfu að falli. Athugunum þessum verði lokið fyrir næsta Alþingi og svo frá þeim gengið, að þær geti orðið undirstaða löggjafar um þessi efni, ef tiltækilegt þykir. Í sambandi við þetta láti ríkisstjórnin endurskoða ákvæði íslenzkrar löggjafar varðandi landráð og leggi niðurstöður sínar fyrir næsta Alþingi.