01.04.1940
Sameinað þing: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (2444)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

*Einar Olgeirsson:

Till. sú, til þál., sem hér liggur fyrir, er þannig, eins og hv. þm. N.-Ísf. tók fram, að langt er fyrir neðan virðingu Alþ. að bera hana fram. Hún virðist undarlega sett saman af mótsögnum, hugsanavillum og ákvæðum, sem brjóta í bág við lög þjóðfélagsins, og þess undarlegra er, að meira að segja einn meðlimur ríkisstj. skuli hafa borið hana fram.

Eitt af því, sem hefir þótt sjálfsagður grundvöllur undir öllum l. í lýðræðislöndunum, er það, að allir væru jafnir fyrir lögunum. En hér er gengið út frá því, án þess að breyta stjórnarskránni á nokkurn hátt, að hætta þessu jafnrétti. Það hefir alltaf verið skoðað sem grundvallaratriði í allri íslenzkri löggjöf, að einn maður sé álitinn saklaus af því, sem á hann er borið, þar til tekizt hefir að sanna sekt hans. En með þessari þáltill. kemur ný stefna fram á sjónarsviðið, að einn maður sé fundinn sekur, svo framarlega sem hann „vilji“ gera eitthvað illt, og skuli sæta harðri refsingu. Hér er hvorki um að ræða orð eða athafnir, heldur er dæmt eftir hugrenningum fólksins, eða eftir því, sem búizt er við, því að enginn getur dæmt um hugsanir fólks, nema það gefi þær í skyn með einhverju móti. Þetta er hættulegt þjóðfélagi, þar sem hver einstaklingur á alla atvinnu komna undir náð valdhafanna, og alveg dæmalaust, að menn skuli kveða upp úr með þessa hugmynd innan Alþ. Það er jafnvel ætlazt til þess, að þm. fari að ræða svona nokkuð í fullri alvöru.

Hv. þm. hafa tekið eftir því, að þeir 2 hv. ræðumenn, sem mælt hafa fyrir þessari till., hafa ekki komið með eitt einasta atriði til að sanna mál sitt og að hvaða leyti nauðsynlegt sé að refsa mönnum fyrir svokallaðar „hugrenningasyndir“. Það er því underlegra og hlálegra að koma fram með slíka þáltill. og þá, sem hér liggur fyrir, þar sem vitað er, að þungar refsingar liggja við, er menn í trúnaðarstöðum reyna að koma landinu undir erlend ríki. Hvað segja íslenzku hegningarlögin við því, ef menn eru uppvísir að því að fremja landráð? Það gildir hvorki meira né minna en 16 ára fangelsi. Svo kemur fram till. á Alþ., þar sem segir, að menn, sem „vilji“ gera þetta, eigi ekki að hafa á hendi trúnaðarstörf, — og er undarlegt, að menn, sem setið hafa á Alþ. í mörg ár, skuli koma fram með slíka firru. Það er harla undarlegt, að hægt skuli vera að fá 3 flm. að þessari till., þó að reyndar aðeins 2 séu þm., og því undarlegra, að tveir af þessum hv. flm. skuli tala fyrir henni af miklum eldmóði, rétt eins og hér sé alvara á ferðinni hjá þeim. Það er í raun og veru ekki hægt að rökræða till. eins og þá, sem hér liggur fyrir, því að hún brýtur algerlega í bág við allt það, sem gengið er út frá í sambandi við réttindi þingmanna í siðuðu þjóðfélagi. Ef hv. flm. till. tekst að skapa slíkt hugarástand hjá allmörgum í þjóðfélaginu, þá er réttindum Íslendinga hætta búin úr þeirri átt. Þessum mönnum virðist ekki einu sinni vera ljóst það grundvallaratriði, sem hér er um að ræða. Þeir tala um að gerbreyta þjóðskipulaginu, en vita ekki einu sinni, hvað það þýðir. Þessum mönnum virðist það óljóst, þegar þeir eru að koma með heimspekilegar hugleiðingar um mál, sem liggja til grundvallar fyrir borgaralegum réttindum í þjóðfélaginu, hvað það er, sem þeir eru að tala um. Það er vitanlegt, að þetta þjóðskipulag, sem við búum við, svo maður fari út í heimspekilegar hugleiðingar eins og þessir hv. þm. hafa gert, er skapað með byltingu. Þau mannréttindi og það lýðræðisskipulag, sem við búum við, er skapað með byltingu eða á þann hátt, að því þjóðskipulagi, sem fyrir var, var gerbreytt með ofbeldi.

Nú segja þessir 2 hv. flm. þessarar till., að eitt sé óhugsandi og óviðunandi að öllu leyti, og það sé að búa við það, að menn hugsi til að breyta þjóðskipulaginu með ofbeldi. Hvað vilja þessir hv. þm. gera við það þjóðskipulag, sem þeir búa við? Vilja þeir fleygja því í burt, af því að það er skapað með ofbeldi? Vilja þeir eyðileggja aftur hinar blessunarríkustu afleiðingar frönsku byltingarinnar, vegna þess að hún gerbreytti hinu gamla einvaldsskipulagi með ofbeldi? Eigum við að eyðileggja allt, sem franska byltingin hefir gert fyrir Evrópu, af því að það er gert með byltingu og ofbeldi?

Ég vil svo vitna í það, sem þessir menn segja um hið enska þingstjórnarfyrirkomulag, að það hafi þróazt um margar aldir. En þetta fyrirkomulag er einmitt skapað með byltingu, sem gekk svo langt, að hún endaði þannig, að konungurinn var tekinn af lifi. Hver öld hefir svo breytt því á þann hátt, að millistéttirnar hafa knúið yfirstéttina til að gefa sér réttindi, sem yfirstéttin hefir ekki látið í té nema af ótta við ofbeldi.

Ég vil biðja þessa háu herra að líta aftur í tímann og rekja okkar sögu í þúsund ár, ef þeir á annað borð vilja ræða grundvöllinn að okkar þjóðskipulagi nú á tímum. Ég vil segja þeim til fróðleiks, ef þeim er ekki ljóst, hvernig þeir menn hugsuðu, sem sköpuðu núverandi borgaralegt lýðræði, að bæði í þeirri yfirlýsingu, sem amerísku lýðveldin gáfu út, og einnig í frönsku yfirlýsingunni er það talinn einn helgasti réttur einstaklinganna, að steypa hverri stjórn, sem beitir gerræði og vinnur á móti vilja meiri hl., með ofbeldi, ef með þarf.

Ég set þetta aðeins fram til þess, að þessir góðu menn athugi nánar, til hvers það myndi leiða, ef farið væri að rekja sögu þessara hluta, sem þeir tala svo digurbarkalega um. Ég minni líka á þetta af því, að ég sé, að í grg. fyrir þáltill. er verið að reyna að koma inn fyrirlitningu á þeim þjóðum, sem kallaðar eru byltingarþjóðir. Ég veit þó ekki betur en að franska

þjóðin sé talin hin klassíska byltingarþjóð. Englendingar sköpuðu þingstjórnarfyrirkomulag sitt með byltingu og Bandaríki Norður-Ameríku voru grundvölluð með uppreisn og byltingu.

Það er rétt fyrir þessa menn að athuga þetta ef þeir vilja fara út í heimspekilegar hugleiðingar um það þjóðskipulag, sem við búum við.

Ég vil biðja þessa háu herra að gleyma ekki okkar íslenzka þjóðfélagi, þegar þeir eru að tala um þessa hluti. Hvernig hefir það verið í þessi rúm þúsund ár, sem Íslendingar hafa búið í þessu landi? Hafa þeir allan tímann búið við almennan kosningarrétt? Hefir meiri hl. fengið að ráða með því að kjósa sína fulltrúa? Ég held ég verði að upplýsa þessa menn um það, að þetta hefir einungis átt sér stað í tæpa hálfa öld, og meiri partinn af þessari hálfu öld á mjög ófullkominn hátt. Það hefir því lengst af á Íslandi verið ráðið ráðum þjóðarinnar án þess að þjóðin hafi notið lýðræðis og án þess að meiri hl. þjóðarinnar hafi verið kvaddur til ráða.

Það er bezt fyrir þessa menn að athuga þetta, þegar þeir eru að vitna langt aftur í limann. Lýðræðisskipulag það, sem íslenzka þjóðin á við að búa, er meira að segja skapað undir sterkum áhrifum erlendis frá, og það frá þeim byltingarþjóðum sem verið er að reyna að hallmæla í grg. Okkar beztu fyrirmyndir lýðræðis og frelsis höfum við einmitt sótt til þeirra strauma, sem áttu sér stað, þegar alþýða og millistéttir þessara landa voru að losa sig við einvaldsfyrirkomulagið, sem þá ríkti.

Ég ætla svo í öðru lagi, úr því að hv. flm. þessarar till. hafa tekið sig svo alvarlega í þessari þáltill., þó hún verðskuldi það ekki eins og hún er orðuð, að taka þetta til nýrrar athugunar og vita, hvort það myndi ekki í raun og veru hitta þá sjálfa skarpast fyrir, ef farið væri að athuga málið ofan í kjölinn og taka þeirra eigin meiningu bókstaflega. Þeir tala um, að það sé ógurlega ljótt að vilja gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi. Ég vil spyrja þessa hv. þm.: Hvað eru þeir sjálfir að gera? Hvað hafa þeir borið hver öðrum á brýn siðasta áratuginn? Það er ekki lengra siðan en 1931, að Sjálfstfl. hélt því fram, að Framsfl. væri að breyta þjóðfélaginu, að svo miklu leyti sem hægt er að skilja það sem pólitískt form, með ofbeldi, hann væri að setja á fót einræðisstjórn. Hann hélt þessu fram í blöðunum, og þingflokkur Sjálfstfl. og þingflokkur Alþfl. stóðu saman um þetta. Það er heldur ekki lengra síðan en við síðustu kosningar að núv. forsrh. upplýsti, að núv. atvmrh. hefði ætlað að brjóta l. hér á landi á þann hátt, að láta fangelsa allmarga áberandi stjórnmálamenn, setja þá í sérstakar fangabúðir og beifa síðan ýmiskonar aðferðum, sem ekki er fullkunnugt, hvernig áttu að vera. Hæstv. forsrh. sló þessu fram í útvarpi fyrir kosningarnár, til þess að sýna fram á, hvernig hann hefði forðað þjóðskipulaginu frá því að verða að meira eða minna leyti breytt með ofbeldi af núv. hæstv. atvmrh. Ég held, að öllum þeim, sem nú sitja í ríkisstj., farist ekki að tala um það að gerbreyta þjóðskipulaginu með byltingu, því þeir ættu að stinga hendinni í eiginn barm og athuga, hvað þeir hafa sagt hver um annan. Ég býst við, að það verði sjálfsagt, ef þeir samþ. till. eins og þessa, að þeir reki hver annan úr ráðherrastóli, því þeir megi þá ekki gegna trúnaðarstörfum fyrir hið íslenzka þjóðfélag. Það kann að vera, að þeim hafi ekki tekizt það, en það er þá nóg að hafa viljað það.

Ég ætla að skjóta því hér inn, að einn af þessum mönnum, sem bera hver öðrum á brýn, að þeir vilji gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi, og telja hver um sig, að þeir hafi forðað þjóðinni frá byltingu, hefir á síðasta þingi fengið meira vald en nokkur annar maður hefir haft um langan aldur hér á landi, þar sem samþ. voru l. um ríkislögreglu, sem hann getur aukið eins og hann vill og vopnað eins og hann vill. Þegar búið er að gefa slíkum manni svona mikið vald, þá má vera, að þeir, sem legið hafa undir því að vilja gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi, megi fara að vara sig.

Svo er talað um, að ef menn vilji koma Íslandi undir erlend ríki eða standi í hlýðnisaðstöðu um íslenzk landsmál við valdamenn í öðrum þjóðlöndum, þá sé ekki viðunandi, að þeir gegni trúnaðarstörfum fyrir þjóðfélagið. Ég vil leyfa mér í þessu sambandi að minna þm. Sjálfstfl. á, að í hinu eina tímariti, sem talið er opinbert málgagn Sjálfstfl., „Þjóðinni“, var því haldið fram af opinberum erindreka Sjálfstfl. seinast á árinu 1938, að Íslendingar verði að haga innanríkismálum sínum í samræmi við vilja þeirra manna, sem ráða ríkjum nú í Þýzkalandi og Englandi. „Tíminn“ tók þetta óstinnt upp og sagði, að þarna væri Sjálfstfl. að svívirða íslenzku þjóðina, þar sem hann héldi því fram, að hún yrði í innanlandsmálum sínum að fara eftir því, sem erlendar ríkisstj. vildu.

Ég skal ennfremur minna á, að á árinu 1936 gerðust þau tíðindi á Íslandi, að fjármálastjórnin íslenzka gerði samning við þýzku ríkisstj. um bráðabirgðalán handa Íslandi, að því er Morgunblaðið þá tilkynnti. Alþýðublaðið og Verkalýðsblaðið, sem þá kom út, atyrtu þýzku stjórnina, en þá kom grein í Morgunblaðinu um það, að íslenzka ríkisstj. yrði að gripa í taumana og bezt væri fyrir hana að athuga, hvaða skuldbindingar hún hefði gengizt undir í sambandi við lán það, sem íslenzka fjármálastjórnin hafði þá tekið í Þýzkalandi. Þar er verið með hótanir í garð þeirra manna, sem leyfa sér að setja út á gerðir íslenzku stj. Þarna er reynt að hafa áhrif á það, hvað íslenzkir þegnar megi segja og hvaða skoðanir þeir megi láta í ljós. Var þetta hlýðnisaðstaða við valdamenn í öðru þjóðlandi, — eða hvað skyldi það hafa verið?

Ég vil nefna eitt dæmi enn í þessu sambandi. Það gerðist árið 1935, að það upplýstist á Alþ., að núv. hæstv. viðskmrh., sem þá var fjmrh. hefði orðið að senda skeyti til London, til þess að gefa yfirlýsingar um það, hverskonar fjármálastjórn þáv. ríkisstj. ætlaði að hafa í frammi á næstu árum. Þetta varð kunnugt, er skeytið var birt. Það var í öðrum anda en stj-.flokkarnir gengu út frá að haga gerðum sínum eftir, þegar þeir gengu til kosninga 1934. Það varð því augljós breyt. á stefnu stj. í sambandi við þá samninga, sem fóru fram í London milli fulltrúa ríkisstj., Magnúsar Sigurðssonar bankastjóra, og þess enska banka, sem þar átti hlut að máli. Þessi stefnubreyt. hafði það í för með sér, að allar lánsútveganir voru stöðvaðar á næstunni. Það var þess vegna af núv. stuðningsflokki ríkisstj., Sjálfstfl., ráðizt á ríkisstj. fyrir það, að hún hefði í raun og veru að meira eða minna leyti lagt fjármál ríkisins undir erlenda valdamenn og hlýðnazt þeim, en brugðizt því, sem þjóðin hefði ætlazt til, að hún gerði.

Ég vil ennfremur sérstaklega leyfa mér að mínna hæstv. félmrh. á, út af því, sem hann sagði hér, að viss stjórnmálaflokkur hér á landi, sem nú tekur þátt í ríkisstj., hefir staðið í nánu sambandi við valdamenn erlendra þjóða, en þar á ég við Norðurlönd. Hæstv. ráðh. talaði um það áðan, að dómsmrh. Svía hefði haldið ræðu, þar sem hann hefði sagt, að Svíar væru að koma þessu á hjá sér. Hæstv. féimrh. talaði um þetta af miklum þjósti og sagði, að það væri óhjákvæmilegt, að við hér á Íslandi færum að líkja eftir þeim í þessu. Ég vil nú benda á það, að hæstv. félmrh. er hér meðflm. að till. um það, að menn séu sviptir opinberum trúnaðarstörfum, ef þeir hlýðnast erlendum valdamönnum, en sjálfur er hann í sinni eigin ræðu að fara fram á, að hermt sé eftir erlendum valdamönnum um þetta. Ég vil benda á, að þessi hæstv. ráðh. stendur í nánu og einkennilegu sambandi við þann valdamann erlendar þjóðar, sem hann var að skírskota til, og ég vil sérstaklega vekja eftirtekt þingsins á því, hvort það sé viðeigandi, að strax og erlend þjóð eins og Svíar taka upp hjá sér að gera ákveðnar breyt. á sínum l., þá fari Íslendingar að herma eftir þeim í því. Ég vil ennfremur spyrja, hvort það sé viðeigandi, að utanþingsmaður, eins og hæstv. félmrh. er, komi hér fram og skipi okkur að fara eftir því, sem þessi maður segir úti í Svíþjóð. Ég vil spyrja, hvort það sé viðeigandi og virðingu þingsins samboðið, að þessi hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að koma með annað eins, þar sem það er sannað, að þessi hæstv. ráðh. hefir á árinu 1938 fengið að láni til handa einum stjórnmálaflokki hér á landi 250 þús. kr. hjá þeim flokki, sem fer með völd í Svíþjóð, til þess að nota innanlands í stjórnmálaáróður. Ég vil leyfa mér að spyrja, hvort það sé viðeigandi, að þessi hæstv. ráðh. fari hér að tala um þjónustu við erlenda valdamenn, sem heimtar það af Íslendingum, að þeir fari að herma eftir því, sem er að gerast í Svíþjóð. Er það viðeigandi, þegar þessi ráðh. og sá flokkur, sem hann veitir forstöðu, hefir á síðasta ári fengið 30 þús. kr. styrk frá Norðurlöndum til þess að hafa áhrif á stjórnmál á Íslandi?

Ég vil biðja þessa háu herra, sem tala með svona miklum þjósti og þykjast hátt upphafnir yfir aðra, að stinga hendinni í eiginn barm, því það gæti þá verið, að þetta hitti þá sjálfa fyrir.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvað það sé, sem er að gerast í okkar þjóðfélagi nú sem stendur og í afstöðu okkar viðvíkjandi valdamönnum þeirrar erlendu þjóðar, sem mest áhrif hefir gagnvart Íslendingum. en þar á ég við Breta og brezku stjórnina. Í Reykjavík hefir nýlega verið undirskrifaður sérstakur samningur og gerðar sérstakar skuldbindingar, þar sem svo að segja allir kaupsýslumenn, innflytjendur og útflytjendur, voru látnir skrifa undir sérstaka skuldbindingu, þar sem þeir skuldbinda sig til að hlýða í einu og öllu fyrirmælum hinnar brezku innflutningsnefndar um útflutning og innflutning. Á þeim fundi, sem þetta átti sér stað, var mælt fyrir þessari skuldbindingu af Birni Ólafssyni, sem var einn af fulltrúum ríkisstj. við samninga þá, sem fóru fram í Englandi í lok síðasta árs. Hann sagði við þá, sem þarna voru, að það þýddi ekkert annað fyrir þá en undirskrifa þetta, því við yrðum að beygja okkur. Þetta er það, sem er að gerast í okkar þjóðfélagi nú sem stendur. Það var fulltrúi ríkisstj., sem heimtaði það af hinum frjálsbornu Íslendingum, að þeir skrifuðu undir þessa skuldbindingu.

Af hverju var þetta gert? Af því að nefnd sú, sem fór til Englands, var búin að gera samkomulag við brezku stjórnina, og hún kom heim með fyrirmæli frá brezku stjórninni, þar sem krafizt var, að íslenzkir borgarar skrifuðu undir þessi plögg. Hvað er verið að gera hér? Er verið að hlýðnast valdamönnum annars lands?

Ég held, að flm. þessarar till. væri bezt að athuga staðreyndirnar, en vera ekki með heimspekilegar hugleiðingar, sem tylla hvergi tám á jörðina. Það er bezt fyrir þá að athuga það, sem er að gerast í kringum okkur. Það er bezt fyrir þá að athuga, hvernig farið er með frelsi og sjálfstæði landsins af þeirri stj., sem nú situr að völdum.

Það stendur síðast í till., að menn megi ekki starfa í pólitískum félögum með einræðisskipulagi. Það er hæstv. félmrh., sem er meðflm. þessarar till. Hann er forseti Alþýðusambands Íslands. Það á að vera samband verkalýðsfélaganna í landinu, en í lögum þess er svo ákveðið að það megi ekki velja aðra en þá, sem játa trú þessa hæstv. félmrh., á þing sambandsins. Þó í einu verkalýðsfélagi á landinu væri ekki nema einn alþýðuflokksmaður, þá má ekki velja annan mann en hann á þing sambandsins.

Það stendur í þáltill., að menn megi ekki gegna trúnaðarstörfum, ef þeir starfa í pólitískum félögum með einræðisskipulagi, en Alþýðusamband Íslands hefir tekið upp í sín lög samskonar fyrirkomulag og tíðkast í hinu núv. Þýzkalandi.

Það er eftirtektarvert, hvað menn geta gengið langt í því að misbjóða skynsemi manna og misbjóða virðingu Alþ., þar sem hæstv. félmrh., sem raunar er utanþingsmaður, dirfist að gerast meðflm. að till., sem hefir þær afleiðingar, ef hún væri samþ. og henni væri beitt, að hann fengi ekki að sitja áfram í ráðherrastóli.

Svo stendur í þáltill.: „eða vinna á annan hátt gegn fullveldi og hlutleysi ríkisins“. Það er eins og þessu öllu sé snúið upp á helztu trúnaðarmenn þjóðstjórnarinnar. Ég vil t. d. minna á það, að í einu ensku blaði birtist mynd af nokkrum helztu trúnaðarmönnum ríkisins. Það var mynd af bankastjóra Landsbankans, Magnúsi Sigurðssyni, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, og einum helzta fjármálamanni landsins, Richard Thors. Undir þessari mynd stóð: „Helping us to beat the submarines“. Það þýðir, að þeir ætli að hjálpa Englendingum til að sigrast á kafbátunum.

Manni þykir ólíklegt, að opinber nefnd, sem fer til Englands og dvelur þar langan tíma og lætur taka myndir af sér, gæti ekki það vel að orðum sínum í viðtölum við blöð og málsmetandi menn, að gefa þeim ekki ástæðu til að gera að aðalatriði í umsögn um þá, að þeir ætli að hjálpa Englendingum til að berjast við þýzka kafbáta.

Ég skal viðurkenna, að það er full ástæða til að berjast á móti kafbátunum; en fyrir þá, sem vilja vera hlutlausir og koma með till. um að refsa mönnum, ef þeir verði sekir um að standa í hlýðnisaðstöðu við valdamenn í öðrum þjóðlöndum, þá virðist það vera afarfjarri lagi, að láta hafa slík ummæli eftir sér í erlendu blaði, og það í stórblaði stríðsþjóðar, þar sem því er lýst yfir, að valdamenn hins íslenzka ríkis hafi gerzt aðilar að því að berjast á móti einu ófriðarríki. Ég vil þess vegna enn einu sinni biðja þessa menn, sem flytja þessa þáltill. hér, að athuga, hvort þeir hitti ekki sjálfa sig skarpast fyrir.

Það liggur hér fyrir framan mig Alþýðublað frá því í dag, þar sem verið er að segja frá því, að fundur hafi verið haldinn í Stokkhólmi, þar sem alþýðusamtökin hafi rætt afstöðu sína til varnarbandalags Norðurlanda, og er sagt frá því, að hæstv. félmrh. hafi fengið símskeyti frá formanni Sósíaldemókratafl. danska og fyrirspurn um það, hvort Íslendingar gætu sent þangað fulltrúa. Það hefir verið gengið út frá þessu af formanni Sósíaldemokratafl., að Íslendingar, sem hafa lýst yfir sínu eilífa hlutleysi, fari nú að taka þátt í einhverju slíku bandalagi. Það væri gaman, að þessi hæstv. félmrh. stæði þm. dálítið nánari skil á öllu sínu sambandi við þessa flokksbræður sína á Norðurlöndum. Það væri vafalaust margt fróðlegt, sem sá maður gæti upplýst hv. þm. í því sambandi, þegar hann er með till. um það, að útiloka þá menn frá stöðum, sem hafa einhvern vilja eða er diktað upp af honum eða hans nánustu, að hafi einhvern sérstakan vilja.

Þá kem ég að því spursmáli, sem vakti sérstaklega fyrir flm. þessarar till., sem sé að reyna á einhvern hátt að bendla Sósíalistafl. við þessar hugmyndir, sem þessir aðilar eru þarna að koma með.

Ég skal í þessu sambandi, til þess að taka af öll tvímæli um afstöðu okkar flokks, lesa upp fyrir hv. þm., með leyfi hæstv. forseta, hvað flokkurinn ákveður í sinni stefnuskrá viðvíkjandi fyrsta atriðinu, um að gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi. Í stefnuskránni byrjar 3. kafli á þessa leið:

„Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn vill heyja baráttu sína með stéttarsamtökum sínum, verkalýðs-, samvinnu-, fræðslu- og stjórnmálasamtökum, og varast ofbeldi. Vill flokkurinn ekkert frekar en að alþýðan geti náð völdunum í þjóðfélaginu á lýðræðislegan og friðsamlegan hátt“.

Nú er það eftirtektarvert í sambandi við þetta, að þessir tveir flm. þessarar þáltill., hv. þm. S.-Þ. og hæstv. félmrh., hafa ekki reynt með einu einasta orði að sýna fram á, að þessi flokkur, sem þeir eru að koma inn, að þessi þáltill. eigi sérstaklega við, hafi sýnt sig í að vilja gerbreyta þjóðskipulaginu með ofbeldi. Ekki eitt einasta sönnunargagn hefir verið lagt á borðið í þessu efni, og ekki með einu einasta orði reynt að sýna sekt Sósíalistafl. í sambandi við það. Þetta mál er flutt hér á Alþ. til þess að reyna að gera einn stjórnmálafl. útlægan, alveg án þess að reynt sé á einn eða annan hátt að sanna á hann þær sakir, sem reynt er að dæma hann útlægan fyrir.

Ég get tekið það fram um leið, að ég held bókstaflega, að Sósialistafl. sé eini flokkurinn, sem alveg ákveðið hefir lýst yfir því, að hann vilji fyrst og fremst vinna á lýðræðislegan hátt í þjóðfélaginu. Það eru alls ekki svo ákveðnar yfirlýsingar um slíkt hjá hinum flokkunum. Sömuleiðis, ef ætti að fara eftir stefnuskránni einni saman, myndi margt undarlegt verða uppi á teningnum.

Viðvíkjandi afstöðu til erlendra ríkja er það sérstaklega greinilega tekið fram í stefnuskrá okkar flokks, að flokkurinn vill vinna að fullkomnun okkar sjálfstæðis. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla um það:

„Flokkurinn skoðar sig sem arftaka þeirra, sem á undanförnum öldum hafa háð baráttu fyrir frelsi íslenzku þjóðarinnar, fyrir því að leysa handa undan erlendri og innlendri áþján, þar sem vitanlegt er, að fullt frelsi íslenzku þjóðarinnar er þá fyrst fengið, þegar þjóðin sjálf ræður sameiginlega auðlindum landsins og atvinnutækjum, þegar enginn einstaklingur er lengur kúgaður á einn eða annan hátt og menningin jafnt sem auðæfin er orðin almenningseign. Flokkurinn vill því vernda það sjálfstæði, sem íslenzka þjóðin hefir öðlazt, fullkomna það með myndun sjálfstæðs og fullvalda íslenzks lýðveldis og tryggja það varanlega með fullum sigri sósíalismans.“

Sósialistafl. er eini flokkurinn, að Alþfl. undanteknum, sem lýst hefir yfir, að hann vilji vinna að stofnun fullveðja sjálfstæðs lýðveldis 1943. En það er óljós afstaða stærri flokkanna í stefnuskrám þeirra viðvíkjandi lýðræðinu hér á landi og að slíta sig algerlega úr öllum tengslum við Dani. Sannleikurinn, sem býr bak við þá till., sem hér liggur fyrir, og tilgangurinn með henni, sem greinilega kom fram hjá þessum tveim hv. flm., hv. þm. S.- Þ. og hæstv. félmrh., og var greinilega viðurkenndur af hv. þm. N.-Ísf., er bersýnilega sá, að skapa einhverskonar lagalega viðurkenningu fyrir ofsóknum á hendur fylgjendum sósíalismans hér á landi. Það er vitanlegt, að hv. þm. S.-Þ. hefir haft óbilandi trú á því, til þess að vinna að málefnum hér á landi, að reyna að kúga menn með hótunum um atvinnuleysi. Þessi maður hefir unnið að því leynt og ljóst, að ríkið hefði aðstöðu til að hafa fullkomið eftirlit með flestu því, sem snertir líf þegnanna, þannig að varla væri hægt fyrir menn að draga andann, sem ekki væru meira og minna í samræmi við vilja valdhafanna.

Þetta ofsóknaræði hjá hv. þm. S.-Þ. hefir upp á síðkastið verið sett í kerfi, og á síðasta miðstjórnarfundi Framsfl. reynir hann svo að fá blessun flokksins yfir þessa ofsóknarþáltill. sína. Og til þess er þessi till. fram komin hér, að hið háa Alþ. leggi blessun sína yfir þessar sömu ofsóknir.

Þessi maður, hv. þm. S.-Þ., virðist hafa trú á, að eina örugga ráðið til þess að fá menn til að skipta um skoðun sé að svelta þá. Þessi maður virðist ekki hafa hugmynd um það, hversu róttækar hreyfingar skapast og eru bornar uppi af áhuga fólksins, sem engar ofsóknir og vald getur drepið, og að það þýðir ekki að beita ofsóknum gegn þeim hreyfingum, sem eiga rétt á sér í þjóðfélaginu, og að því þýðir ekki að grípa til svona aðferða, sem hér er ætlað að grípa til. Þetta hefir verið reynt áður. Undir eins og sósialisminn fór að ryðja sér til rúms í Evrópu, þutu til menn með slíku hugarfari eins og hv. þm. S.-Þ. og reyndu að kæfa þessa hreyfingu. Má þar nefna, hvernig farið var með Karl Marx og Friedrieh Engels, sem urðu að dvelja landflótta erlendis og sakaðir um landráð. Árið 1878 voru sett l. í Þýzkalandi, sem sérstaklega voru sett til verndar öryggis því opinbera, sem kallað var. Það minnir óþægilega á nafn þessarar þáltill. Bismark reyndi á þennan hátt með 12 ára skipulögðum ofsóknum að brjóta á bak aftur Sósíalistafl. í Þýzkalandi. Hver var svo afleiðingin? Eftir 12 ára ofsóknir var Sósíalistafl. þýzki miklu sterkari heldur en hann var, þegar ofsóknirnar hófust. Landráðakærurnar dundu á flokknum hundruðum saman, og voru margir forvígismenn hans fangelsaðir þessi ár.

Þá var lítill karl í Danmörku um sama leyti, sem tók sér fyrir hendur að herma eftir Bismark; hann hét Estrup, og hann var kallaður litli Bismark, og fór álíka fyrir honum. Það er lítill karl hér á landi, 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson. Það má mikið vera, ef hann gengur ekki undir því nafni í sögunni, að heita litli Estrup.

Það þýðir ekki fyrir þessa háu herra að reyna að brjóta á bak aftur þær hreyfingar, sem eiga rétt á sér í þjóðfélaginu, á meðan til er fátækt í því innan um nægtir og auð. Á meðan verkalýðurinn verður að búa við bágindi og kúgun á sama tíma, sem nokkrir menn raka saman auðæfum, sem nægt hefði fyrir þjóðina í heild til þess að geta sómasamlega komizt af, þá verður sósíalismahreyfingin til í þjóðfélaginu. Það verður barizt fyrir að afnema auðvaldsskipulagið og koma sósíalismanum á. Það eru engir möguleikar til þess að drepa þessa hreyfingu, hvaða kúgunarráðstafana sem gripið er til. Það er hægt að kúgu menn og svelta, fangelsa, dæma og jafnvel drepa forvígismennina, en það er ekki hægt að sigra hreyfinguna. Þar kemur maður í manns stað. Rússakeisarar hafa fengið sig fullsadda af því.

Það er ekki heppilegt fyrir okkar litla Estrup að ætla að fara að feta í þessi sömu fótspor.

Og það er jafnþýðingarlaust, þó að breitt sé yfir það með grímu föðurlandsástar og reynt að þyrla upp einhverju moldviðri kringum forvígismenn sósialista og þeir stimplaðir sem þýzkir erindrekar, eins og var gert með Lenin hér á árunum, og þeir, sem það gerðu, hafa orðið að athlægi í veraldarsögunni.

Það er því hjákátlegra hjá manni eins og núv. formanni Framsfl. að koma fram með öllum þessum þjósti og tala um það, hvernig eigi að reyna að vernda þjóðskipulagið, þegar hann, áður en blað hans var orðið gerspillt, lýsti því yfir 1929, að núv. ásigkomulag verkalýðsins og þau kjör, sem hann ætti við að búa, væru aðeins ein fegund af þrældómi. Og það mun margur muna ettir þeirri mynd, sem hv. þm. dró upp af þrældómshúsinu, sem einu sinni átti að leiða íslenzku þjóðina út úr. Og það er því fjarri fyrir þennan mann að frara svo að koma með það í viðbót, að reyna að breiða yfir það með einhverri þjóðernisblæju og reyna að láta það líta þannig út, að verið sé að vinna fyrir frelsi íslenzku þjóðarinnar með því.

Ég spyr: Hvað hefir þessi maður, sem hefir verið mesti valdamaður íslenzku þjóðarinnar síðustu 14 árin, gert til þess að frelsa íslenzku þjóðina þann tíma? Hvernig standa fjármál þjóðarinnar nú? Nú skuldar Ísland brezka auðvaldinu 70–80 millj. kr. Það er sem sé meira en verð allra atvinnutækja, sem til eru í landinu, sem því í raun og veru eru eign brezka auðvaldsins. Í krafti þessara skulda og þessa fjárhagsófrelsis, sem þær hafa í för með sér, geta síðan brezkir auðmenn leyft sér að fyrirskipa íslenzkum stjórnarvöldum, hvað gera skuli hér á landi. [Frh.].