02.04.1940
Sameinað þing: 11. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (2446)

95. mál, lýðræðið og öryggi ríkisins

Einar Olgeirsson [frh.]:

Annars vildi ég upplýsa hv. Alþingi um það, að þessi till., sem hér liggur fyrir, og það, sem farið er fram á í henni, er í rauninni ekkert annað en það, sem þegar er framkvæmt af valdaklíku landsins og hún vill fá þingið til að staðfesta. Það er fyrirfram byrjað á njósnum og ofsóknum, og það er nú þegar skipuð nefnd, ókunnugt af hvaða aðilum, sem Jónas Jónsson á sæti í og beinlínis vinnur að því að skipuleggja ofsóknir í ríkisstofnununum. Það er þannig ákveðin klíka, sem hrifsar til sín það vald, sem hún ætlar sér, og svo á að láta Alþingi leggja blessun sína yfir þetta. Það er ekki verið að spyrja um vilja þess, heldur vill þessi klíka fá staðfestingu á því, sem byrjað er á. Það er byrjað á því að afhenda það skoðanafrelsi, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði í gær, að væri hyrningarsteinn lýðræðisins. Ég veit, að hv. þm. vita, að þetta, sem hv. þm. N.-Ísf. talaði um, er staðreynd. Þessar grunsemdir eru allt í kringum okkur. Þetta liggur eins og mara á okkar landi, og það sýndi sig bezt á síðasta Alþingi, hve þungt þetta liggur á allri þjóðmálastarfsemi. Það er alveg rétt, að ef þessi till. verður samþ. og færð út í praksís áframhaldandi, verður enginn óhultur. Þetta sagði hv. þm. N.-Ísf. í gær, og það er ekki eins og þetta sé nýtt fyrirbrigði. Ég vil lofa ykkur að heyra það, sem Karl Marx segir fyrir 92 árum í Kommúnistaávarpinu. Þar segir svo; „Hvar eru þeir stjórnarandstæðingar, sem ekki hefir verið úthúðað fyrir það, að þeir væru kommúnistar? Hvar er sá andstæðingaflokkur, sem ekki hefir borið bæði róttækari flokkum og afturhaldssömum stjórnarfylgifiskum hið sama á brýn?“ — Ég vil bæta því við: Hvað oft hefir þetta ekki endurtekið sig hér í okkar þjóðfélagi nú? Svo vil ég benda þeim flm. þeirrar till., sem liggur hér fyrir og láta sig dreyma um það, að þeir kveði niður sósíalismann með þessu, ég vil benda þeim á það, hvað þeir fá fyrir. Dettur mönnum í hug, þegar farið er að ofsækja menn fyrir skoðanir sínar og gera þeim ómögulegt að lifa, að þeir gripi þá ekki til þess að dylja skoðanir sínar? Hvað mundu menn gera, ef ástandið væri þannig, að ekki væri óhætt að fara með skoðanir sínar? Ég skal segja eina smásögu til dæmis um það, og fara í því að dæmi hv. þm. S.-Þ. Það er sagt um Göring, að hann hafi fyrir nokkru síðan komið í verksmiðju í Þýzkalandi og hafi spjallað við verkamennina. Hann spurði þá um, hvaða pólitíska skoðun menn hefðu í verksmiðjunni, og hét þeim, að ef þeir væru alveg hreinskilnir, skyldi hann í engu hefna sín á þeim. Jú, þeir sögðu, að 1/3 hluti þeirra væri kommúnistar og um 1/3 sósialdemókratar, en 1/3 væru demókratar af gamla taginu. „Nú“, svaraði Göring, „en hvernig er það með nazistana, eru engir nazistar?“ „Jú“, svöruðu verksmiðjumennirnir, „nazistar erum við allir saman“. — Svona mundi líka fara hér, ef þessi till. verður samþ. Það er enginn vandi fyrir mann að segja, að hann sé framsóknarmaður, þó hann hafi kommúnistiskar eða sósíalistiskar skoðanir. Hver yrði nú afleiðingin? Sú, að lýgin og yfirdrepskapurinn yrði skipulagt til þess að tryggja persónufrelsi manna. Þessir valdamenn, sem eru að ofsækja, yrðu hvergi óhultir. Þeirra eigin börn mundu skrökva að þeim, til þess að dylja fyrir þeim, hvaða skoðanir þau hefðu. Þá gæti farið svo, að maður eins og hv. þm. S.- Þ., sem ekki hefir alltaf þótt vera sannleikanum sem samkvæmastur, yrði stimplaður sem faðir lýginnar hér á þessu landi. Með svona aðferðum verður ekki unnið. Það er aðeins eitt, sem lýðræðið getur varið sig með, og það er með því að berjast fyrir sínum málstað og að láta aðra líka hafa sama rétt.

Svo vil ég koma inn á það, sem lagt er til grundvallar fyrir þessari till., og það, hvað lýðræðið er í raun og veru. Beri að skilgreina lýðræðið sem rétt meiri hl. til þess að ráða hér, vil ég spyrja: Ef skilgreiningin er rétt, hvaða skipulag ríkir? Hefir meiri hl. nokkra sönnun fyrir því, að hann ráði? Ég vil minna á það, að í hvert skipti, sem gengið er til kosninga, leggja flokkarnir fram fyrir sína kjósendur nokkurskonar skipulagsskrá, sem þeir eru svo kosnir til að framkvæma, ásamt þeim loforðum, sem þeir gefa kjósendum. En þeir framkvæma ekkert af þessu. Vilji meiri hlutans fær hvergi að koma fram. Ég vil vekja athygli á því, hve ófullkomið fyrirkomulagið er, að styrkur eða vald kjósendanna kemur hvergi fram. Fulltrúar þeirra geta, eftir að þeir eru kosnir, farið eftir sínum eigi geðþótta, eða það, sem verra er, eftir annara geðþótta. Í öðru lagi er það, að með núv. kjördæmaskipun á Íslandi er ekki nokkur trygging fyrir því, jafnvel þótt þingmenn reynist algerlega trúir kjósendum sínum, að vilji meiri hl. komi fram. Okkar kjördæmaskipun er þannig, að það er hægt fyrir 1/4 hluta kjósenda að ná meiri hl. í 26 kjördæmum og þannig meiri hl. á þingi og ráða í umboði meiri hl. af þjóðinni, og út frá þessu valdi er það, sem menn eins og hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Borgf. ganga svona berlega fram á móti lýðræðinu. Það er af því þeir hafa það á bak við sig að geta ráðið við meiri hlutann.

Ég vil að lokum koma að þeirri till., sem hv. þm. N.-Ísf. ásámt tveim öðrum hefir lagt fram til breytingar. Það kom greinilega í ljós af ræðu hans í gær, að honum er ljóst, hvaðan hættan stafar. Hún stafar hægra megin frá. Ég vil benda á það, að hér eru nú samskonar ástæður fyrir hendi eins og voru í Þýzkalandi, þegar Hitler komst til valda. Það, sem reið baggamuninn fyrir Hitler, var það, að junkararnir þýzku, stóreignamennirnir, voru svo skuldum hlaðnir, að þegar jafnaðarmannastjórnin ætlaði að koma upp um þá og gera upp skuldir þeirra, risu þeir upp og komu Hitler með aðstoð Hindenburgs til valda. Ég vil benda á, hvað var gert hér, þegar Framsfl. og Alþfl. ætluðu að fara að hreyfa við skuldum Kveldúlfs og hvernig þjóðstjórnin er mynduð með það alveg sérstaklega fyrir augum að vernda þá fjármálaspillingu, sem grafið hefir um sig hér á landi. Það er sama staðreynd og í Þýzkalandi, að stærstu skuldakóngarnir semja um lögin, og það sama gerist hér. Lýðræðið féll á því í Þýzkalandi að sýna of mikla linkind, en ég vil segja það, að þessi linkind var ekki sýnd verkamönnunum, en hún var gagnvart öðrum. Hún var sýnd þeim, sem voru til hægri. Ég þekki sjálfur af eigin reynd, hvernig Weimar-lýðveldið fór. Ég var í Þýzkalandi, þegar Walter Rathenau var myrtur af æstum nazistum. Ég var í kröfugöngunni, sem farin var til Berlín til þess að mótmæla þessu morði, og þegar lagt var fram í þinginu frv. til laga um verndun ríkisins. Þegar það var lagt fram, sögða sósíalistarnir: „Þetta frv. er í sjálfu sér gott, og það veitir ekki af því að vernda lýðræðið gegn þeim mönnum, sem eru að stofna lýðveldinu í hættu, en með þessari stjórn og embættismönnum verður þessu frv. ekki beitt gegn réttum aðilum; því verður ekki beitt gegn þeim, sem hættulegir eru lýðræðinu, heldur hinum.“ — Þýzka Weimar-lýðveldið ól nazistana við brjóst sér. Embættismannastéttin þýzka var öll gegnsýrð af nazismanum, og hér á Íslandi hefir hv. þm. S.-Þ. manna mest unnið að því að gerspilla embættismannastéttinni, af því hann hefir talið, að þeir væru líklegastir.

Það, sem hv. þm. N.-Ísf. leggur til í sinni brtt., lögin, sem hann fer fram á að verði sett, og rannsóknin, sem hann vill að verði gerð, er gott í sjálfu sér, og við, fulltrúar Sósíalistafl., mundum standa með því, að ráðstafanir væru gerðar til þess að vernda lýðræðið, — en hvaðan er það, sem lýðræðinu stafar hætta? Mennirnir, sem flytja þessa þáltill. eru form. Framsfl., félmrh. og form. fjvn. Það eru þrír af mestu valdamönnum flokkanna, og það er ekki annað vitað en að meiri hluti ríkisstj. standi með þessu. Þannig berst ríkisstj. fyrir skoðanafrelsi á Íslandi. Nær það þá nokkurri átt, að fela þessari ríkisstj. að gera rannsókn um það, hvernig ætti að vernda þetta lýðræði, að feli. þessari ríkisstj. að rannsaka, hvernig lýðræðinu og öryggi ríkisins verði bezt borgið?

Hv. þm. N.- Ísf. komst svo að orði, er hann mælti fyrir sinni till. í gær, að hann yrði að biðja guð að vernda lýðræðið fyrir þessum mönnum. Já, þá þykir mér undarlega bregða við, þegar hv. þm. V.-Ísf. sér ekki önnur ráð en að biðja guð að vernda það, sem hann ætti að vernda sjálfur. Ég hélt nú satt að segja, að hv. þm. N.-Ísf. hefði nú ekki hingað til treyst svo mikið á handleiðslu úr þeirri átt, að hann hefði farið að líta á það sem síðustu hjálparvon. Annars held ég, að menn verði í þessu efni að treysta á sjálfa sig. Ég held, að þeir, sem að brtt. standa, verði sjálfir að taka verndun lýðræðisins í sínar hendur. Ég tel ekki rétt að fela ríkisstj. aðgerðir í þessu máli. Það, sem þeir eiga að gera, er að skipuleggja sjálfir baráttu til verndar lýðræðinu, fyrst og fremst með því að koma núv. ríkisstj. frá völdum, sem sjálf er að gerast harðstjórn á Íslandi. Og ég vil vekja eftirtekt hv. þm. á því, að það kemur núna fyrst berlega í ljós, hvernig þm. stjórnarflokkanna skiptast á milli fasisma annarsvegar og lýðræðis hinsvegar. Sú lína, sem þar skiptir, gengur ekki milli flokkanna, heldur gengur hún þvert í gegnum þá alla. Það er ekki lengur Framsfl., sem er róttækari en Sjálfstfl. Það er siður en svo. Það er andstaða í öllum stjórnarflokkunum móti harðstjórnarpólitíkinni, sem nú er í fyrsta skipti að koma fram hér á Alþ. Það eru að meira eða minna leyti framtíðarflokkatakmörk, sem þarna eru að skapast upp úr deiglunni. Og það eru þessar linur, sem þurfa að koma skýrt fram á næstunni. Þess vegna er fyrsta atriðið að fella þá ríkisstjórn. sem nú situr. Að fela núv. ríkisstj. að vernda lýðræðið, það væri álíka gáfulegt og þegar Chamberlain fól Hitler að vernda Tékkóslóvakíu.

Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd okkar í Sósíalistafl., að við viljum vernda lýðræðið engu að síður, þó við álítum það ófullkomið. Við álítum, að lýðræðisskipulagið verði alltaf ófullkomið, meðan vald auðsins fær að ráða, meðan peningagildið er metið meira en manngildið og meðan peningarnir geta eyðilagt og gert að engu þau mannréttindi, sem er hugsjón lýðræðisins, að séu framkvæmd út í æsar. Ég vil í þessu sambandi sérstaklega benda á það, að baráttan stendur ekki milli svokallaðs einræðis og lýðræðis, heldur stendur hún milli auðvaldsskipulagsins og sósíalismans. Vald auðvaldsins getur verið margvíslegt„ en eitt er alveg víst, að með hvaða mynd sem það er, þá leyfir auðmannastéttin aldrei alþýðunni meira frelsi en svo, að hún sé sjálf örugg um sína hagsmuni. Það er þess vegna skilyrðið fyrir alþýðuna, að losa sig við auðvaldið. Þá fyrst fær alþýðan fullt frelsi. Auðmannastéttin finnur það, að hennar dagar eru að verða taldir í heiminum, og þess vegna gripur hún nú til þess að þurrka sitt borgaralega lýðræði út til þess að verja sig.

Verkamannastéttin getur líka drottnað á mismunandi hátt. Hún getur beitt mismunandi formum til að framkvæma sitt skipulag. Hún getur beitt formum, sem banna þá flokka, sem eru andvígir sósíalismanum, svo framarlega sem þess þykir við þurfa til að vernda hennar skipulag, en hún getur líka beitt aðferðum. sem leyfa hennar andstæðingum fullkomið málfrelsi og baráttu fyrir þeirra máletnum. Það er enginn kominn til með að segja, hverskonar skipulag sósíalismans kann að verða ráðandi hér á Íslandi. Það er enginn kominn til að segja, að það þurfi að verða eins og t. d. í Rússlandi. Auðmannastéttin hefir haft ýmsar aðferðir til að drottna, og þær hafa allar miðað að því að tryggja hennar völd. Verkamannastéttin tekur ekki völdin til að gera sjálfa sig að yfirstétt, en hún kemur líka til með að þurfa að beita ýmiskonar aðferðum til að verja sig. Það eitt veit ég, að þeir, sem berjast fyrir sósíalismanum, þeir vilja, að það stjórnarform, sem alþýðan velur sér, geti orðið sem mildast, án þess að alþýðunni sjálfri og hennar takmarki stafi hætta af.

Þetta vildi ég sagt hafa í sambandi við hinar fræðilegu umr., sem fram hafa farið í sambandi við þetta mál.