29.03.1940
Efri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það er bara eitt atriði, sem mig langar að benda hv. 1. þm. Reykv. á, ekki sérstaklega í sambandi við þetta mál, heldur fyrst og fremst af því, að hann leggur mikið upp úr því, að Alþingi ráðstafi ákveðnum tekjum ríkisins til sérstakra framkvæmda. Út af þessu vil ég benda honum á, til þess að hann verði betur sjálfum sér samkvæmur og þroski sjálfan sig betur, að við samþykktum nýlega hér í deildinni 11. mál, frá 6. þm. Reykv. og atvmrh., um það, að vitagjald skuli renna til vita, og hv. 1. þm. Reykv. var með því.

Þegar lagt er til, að þessum aurum skuli varið til vega og malbikunar á vegum, er hann með því, en bara þegar á að verja því til brúa, er hann ekki með því. Það má verja þessum eyri til þessa eða hins, en bara þegar á að verja því til brúa, þá má það ekki vera ákveðið. Þetta er velvildin til dreifbýlisins.

Að öðru leyti ætla ég ekki meira um þetta að segja.