20.03.1940
Sameinað þing: 8. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2559)

24. mál, innflutningur á heimilisnauðsynjum farmanna

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti ! Ég ætla ekki að þreyta menn á langri framsögu fyrir þessari þáltill., allra sízt af því að ég þykist vita, að hv. þm. kjósi gjarnan, að það verði nú stuttur fundur.

Ég vil þó taka það sérstaklega fram, að það er náttúrlega nokkur togstreita á milli þeirra, sem sigla til annara landa, bæði á verzlunarflota landsins og á fiskiskipum, og hinna, sem gera skipin út, um þau kjör, sem þessir sjófarendur hafa. Nú sýnist mér, að hægt sé að veita hér nokkur fríðindi þessum sjófarendum, sem ekki geti skaðað neinn mann neitt, í því fólgin að heimila þessum mönnum, eins og í þáltill. greinir, að flytja inn nokkuð til heimilisþarfa sinna af varningi, sem þeir í útlöndum geta fengið miklum mun ódýrari, ef þeir kaupa hann erlendis, heldur en ef þeir kaupa hann hér. Ég vil rökstyðja það með nokkrum orðum, að þetta getur ekki þurft nauðsynlega að hafa neinn kostnað eða útgjöld í för með sér fyrir neinn mann. Hér er ætlazt til þess, að greidd séu öll gjöld hér í landinu fyrir innflutning á þessum varningi. Og þar af leiðandi getur ekki komið til mála, að ríkið tapi neinu, sem því ber fyrir innflutning almennt. Þvert á móti er mjög líklegt, að ríkissjóður mundi græða fé á því, að þessi þáltill. væri samþ. Því að eins og nú er ástatt kemur það mjög oft fyrir, að það finnst hjá skipsmönnum einhver smávegis varningur, sem þeir hafa ekki fengið leyfi til að flytja inn, og reyna þess vegna að koma inn í landið á bak við tollgæzluna. Þetta bendir til þess, að eitthvað síast nú inn í landið af vörum án þess að gjöld komi af til ríkissjóðs. En með því að heimila þennan innflutning hygg ég, að fyrir það mundi algerlega taka.

Þetta getur nú verið að einhverju leyti gjaldeyrismál, því að að sjálfsögðu mundi það eitthvað rýmka þær greiðslur, sem farmenn og sjómenn fengju í erlendum gjaldeyri, ef þessi þáltill. verður samþ. En miklu mundi það ekki muna. Einu mennirnir, sem mundu hafa óþægindi af þessu, eru þeir, sem mundu fá innflutning á þessum vörum að öðrum kosti og selja með nokkrum hagnaði hér á landi. Ég hefi minnzt á þetta mál við nokkra kaupsýslumenn. Þeir af þeim, sem ég hefi talað við um þetta, hafa sagt, að það væri hreint og beint hlægilegt, ef kaupsýslumenn færu að telja sér nokkurn ógreiða gerðan með svona lítilfjörlegum innflutningi.

Þetta mál hefir náttúrlega fleiri hliðar heldur en sem snúa að ríkinu. Það er, eins og ég tók fram áðan, ákaflega rík freisting fyrir farmenn, einkum þá, sem fyrir heimili hafa að sjá, að reyna að koma inn varningi, sem þeir á þennan hátt geta fengið með bærilegra verði heldur en kostur er að fá hér á landi nú. Það er ekkert undarlegt, þó að svo sé. En þegar svo er ástatt, að mönnum er þetta ekki heimilt, þá hafa þessir farmenn ekki annað með þær greiðslur að gera, sem þeir fá í erlendum gjaldeyri, heldur en að eyða því fé í gildaskálum ytra eða reyna að smygla inn vörum fyrir það. Hvorttveggja er ákaflega óviðkunnanlegt. Það er óviðkunnanlegt, að ríkið setji þannig upp hálfgerðan þjófaskóla með því að neyða menn til að pukra með sína eigin eign, eins og menn verða að gera, ef þeir ætla að smeygja einhverju inn á bak við l. Hitt er ekki gott, að fyrirskipa þessum mönnum óbeinlínis að eyða því fé, sem þeir fá greitt í erlendum gjaldeyri, til óþarfa. Mér finnst ákaflega íhugunarvert að heyra, að þegar finnst hjá hásetum einhver spjör, sem þeir hafa keypt á fjölskyldu sína fyrir sinn erlenda gjaldeyri, að hún sé þá tekin og þeir stimplaðir sem óráðvandir menn, en maður, sem notað hefir þessa skildinga sína til þess að kaupa áfengi eða til þess að skemmta sér með vændiskonum, er talinn hafa farið ráðvandlega með skildinga sína.

Það er enn ein hlið á þessu máli, að þeir menn, sem sigla á íslenzka skipaflotanum til annara landa, eru í raun og veru landvarnarmenn okkar Íslendinga í þessu stríði. Þó að þeir beri ekki vopn, eru þeir í raun og veru stríðsmenn okkar, því að þeir sigla á lífshættulegum svæðum og geta, þegar þeir eru í siglingum á svæðinu milli Bretlands og Norðurlanda, búizt við því á hverri stundu, að lífi þeirra sé lokið. Í raun og veru eru því þessir menn sífellt með sverð hangandi yfir höfði sér, og ekki aðeins sínu höfði, heldur einnig þeirra, sem þeir þurfa að veita forsjá. Og virðist mér, að slíkir menn, sem í svona hættu starfa að okkar brýnustu nauðsynjamálum, verðskuldi, að hæstv. Alþ. líti á þeirra störf með þeirri þakklátssemi og viðurkenningu, að það vilji rétta út sem ég kalla litlafingur til þess að veita þeim einhver hlunnindi eða fríðindi og þar með viðurkenna mikilvægi starfs þeirra.

Ég hefi veitt því eftirtekt, og það hefir verið vakin eftirtekt mín á því, að þáltill., eins og hún er orðuð nú, sé ekki alls kostar heppilega orðuð að því er snertir fjárhæð verðs þeirra vara, sem farið er fram á, að þessir menn fái að flytja inn. Það er alveg rétt, sem mér hefir verið bent á, að kaupgjald manna er ákaflega misjafnlega hátt við siglingar, og þess vegna er tæpast rétt að miða við helming kaupsins, þegar svo stendur á t. d., að einstakir menn geta komizt upp í 20 þús. kr. í sínum tekjum sem sjófarendur, en aðrir þessara manna fá ekki í slíkar tekjur nema mjög litið yfir árið. Mjög mikill hluti af hinum óbreyttu hásetum siglir ekki að staðaldri til annara landa. Það er nú svo með togarana og þau skip, sem flytja út kældan fisk, að í þessum ferðum komast miklu færri að heldur en þegar skipin eru á saltfisksveiðum. Og útgerðarfélög hafa lagt sig fram um það, að skipta þessari atvinnu milli manna þeirra, sem mundu hafa haft atvinnu á skipum þeirra. ef þau hefðu verið á saltfisksveiðum. Þar af leiðir, að það er mjög algengt, að þessir menn hver fyrir sig verða að sitja heima aðra eða þriðju hverja ferð. Þeirra uppgrip eru því ekki stórkostleg, þó að þeir fái nokkuð hátt mánaðarkaup á meðan þeir eru í förum.

Af þessum ástæðum, hve misjafnt menn bera úr býtum við siglingar til annara landa, hefi ég hugsað mér að bera hér fram brtt. við mína eigin þáltill., þar sem ákveðið er, fyrir hve mikla upphæð hverjum farmanni sé frjálst að flytja inn í hverri ferð til annara landa. Og ég mun leyfa mér að leggja þessa brtt. hér fram fyrir hæstv. forseta.

Að öðru leyti þarf ég hér ekkert fram að taka. Ég vil þó gjarnan drepa á það, að af einstaka manni, sem ég hefi talað við, hefir verið talið, að það mundi nokkrum vandkvæðum bundið að láta fara fram tollskoðun og tollgreiðslur í þeim skipum, sem þessar vörur flytja, vegna innflutnings á þessum vörum. En ég get ekki fallizt á, að þetta hafi við rök að styðjast. Ég held þvert á móti, að það sé ákaflega einfaldur og auðgerður hlutur, sem mætti haga þannig, að stýrimaður skipsins hefði skrá yfir allar vörurnar og þeim sé safnað saman öllum á einn stað í skipinu. En ef flytja á allar vörurnar upp á tollstöð, tæki það mjög langan tíma fyrir menn að geta fengið þær afhentar aftur, og mætti þá oft búast við, að innflytjandinn yrði þá farinn úr landi, þegar vörurnar væru lausar látnar, og að það lenti þá á hans fjölskyldu að ná í vörurnar. Sé ég því ekki neina ástæðu til að breyta þáltill. minni að því er þetta atriði snertir.