11.04.1940
Neðri deild: 33. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég á hér brtt. ásamt hv. 7. landsk. á þskj. 320. Till. skýrir sig algerlega sjálf. Hún er um það, að bæta við 2. gr. frv. nýrri málsgr., og í þeirri málsgr. á að felast hækkun á þeim persónufrádrætti, sem skattframteljendur mega draga frá skattskyldum nettó-tekjum sínum, áður en skattur er af þeim reiknaður. Nú er sjálfsagt öllum hv. þm. jafnkunnugt um það, að síðan þessi frádráttur var ákveðinn, hefir verðlag í landinu breytzt ákaflega mikið og framfærslukostnaður aukizt stórlega mikið. Það er sjálfsagt engum vafa bundið, að ef framfærsla fólksins hefði kostað jafnmikið og nú þegar þessi l. voru upphaflega sett, sem nú er verið að framlengja hér, þá myndi persónufrádráttur hafa verið settur hærri um leið. Og eins myndi hafa verið gert í hinum almennu tekju- og eignarskattsl., ef. framfærslukostnaðurinn hefði þá verið svipaður og nú. Ég geri líka ráð fyrir, að hv. þm. telji sanngjarnt, að þessi persónufrádráttur hækki nokkuð. við flm. höfum líka reynt að gæta mjög hófs í þessu, og til þess að láta standa vel á krónutölu höfum við ekki tekið nákvæmlega hundraðshlutatölu, en það er því sem næst 25% hækkun, sem hér er farið fram á.

Mestur er frádrátturinn fyrir börn og aðra skylduómaga, en við ætlumst til, að hækkunin verði upp í 800 kr., en eins og l. eru nú, þá er þessi frádráttur ekki nema 500 kr. Aftur á móti er hækkunin hjá okkur ákveðin 150–200 kr. annars á persónu. Það eru 250 kr. á hvort hjóna í Reykjavík, og það er eins og sjá má rétt um 25%.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að skýra þetta mál, sem að sjálfsögðu er alveg augljóst fyrir hvers manns skilningi. En ég vil aðeins biðja hv. þm. að athuga það nákvæmlega, hvort þeim sýnist þetta ekki vera alveg eðlileg breyt. á skattal., þó ekki væri því til að dreifa, sem við allir vitum, að skattaálögurnar eru afarháar og auknar með þessum hundraðshluta, sem hér er aukið mjög við tekju- og eignarskattinn, heldur fyrst og fremst af því, að framfærslukostnaðurinn er miklu hærri nú en þegar l. voru sett, og það er alveg víst, að þessi kostnaður á eftir að hækka mikið alveg á næstu tímum.

Það getur vel komið til mála, að við flm. verðum við þeirri ósk, að taka aftur þessar brtt. til 3. umr. En ég þarf að bera mig saman við hv. meðflm. minn um það. En mér sýnist ekki nema sanngjarnt, að n. eigi kost á að athuga þessar brtt., þótt ég raunar byggist við því, af því till. eru komnar fram fyrir nokkru síðan, að n. hefði þegar gert það. Ég skal þó ekki hafa á móti því, en vil bera mig saman við meðflm. minn.