15.04.1940
Neðri deild: 36. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

85. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Hv. 6. þm. Reykv. talaði miklu hógværar nú en á laugardaginn, og það skal heldur ekki standa á mér að taka líka upp hógværar umr. um þetta mál. Að vísu sagði hann, að sér þætti það ekki verst um mig, hve stórorður ég væri, heldur hitt, hve ég væri gjarn á að halda fram röngu máli. Ég tel hv. 6. þm. Reykv. engan dómara í því, hvað rétt er og hvað rangt, en ég efa það ekki, að hann haldi því fram í hverju máli, sem hann álítur réttast. Ég hafði vænzt þess, að hann væri sömu skoðunar hvað aðra þm. snerti, enda þótt þeir væru honum ekki sammála. Læt ég svo útrætt um það.

Ég álít það mjög óviturlega mælt hjá hv. þm., svo að ég segi ekki kjánalega, er hann hélt því fram, að höfuðatriði í þessu máli væri ekki sjónarmið ríkissjóðs, heldur sjónarmið skattgreiðenda. Ég verð að telja, að hlutverk fjhn. sé fyrst og fremst að líta á þetta mál með hag ríkissjóðs fyrir augum.

Í öðru lagi leggur hv. þm. áherzlu á það, að vegna þess að verðlag hafi hækkað, sé sjálfsagt að hækka persónufrádráttinn. En nú er Alþ. alltaf að gera ráðstafanir til þess að mæta þessari hækkun verðlagsins, með því á síðasta þingi að samþ. uppbætur á laun verkamanna, og fyrir þessu þingi liggja tvö frv., um uppbætur á laun opinberra starfsmanna og embættismanna og á laun skrifstofu- og verzlunarfólks. Þegar þannig á annan hátt er reynt að bæta úr dýrtíðinni, er ekki ástæða til þess að líta á mál þetta eingöngu frá því sjónarmiði, sem hv. þm. vill vera láta.

Hv. þm. hélt því fram, að skýrsla mín um, að samþykkt tillögu hans myndi hafa 400 þús. kr. tekjulækkun í för með sér fyrir ríkissjóð, væri fjarri öllum sanni. Hann vildi láta líta svo út sem við hefðum reiknað þetta út eftir röngum mælikvarða, þar sem við myndum hafa tekið með félög og ýms fyrirtæki, er engan persónu frádrátt hefðu. Þetta var ekki gert, við miðuðum aðeins við einstaklinga. Hitt er rétt hjá hv. þm., að þetta getur ekki verið nema ágizkun, eins og ég líka sagði, en ég sagði einnig, að það væri byggt á mjög miklum líkum, og það væri víst, að samþykkt till. myndi hafa mörg hundruð þús. króna lækkun í för með sér. Fjhn. hefir snúið sér til skattstjórans í Reykjavík, og hann hefir látið n. í té skýrslu, er að vísu sýnir ekki heildarlækkun, heldur hve miklu lækkunin muni nema í einstökum tilfellum. Skýrsla skattstjóra miðast við meðalfjölskyldu, þ.e. hjón með þrjá skylduómaga. Persónufrádráttur nemur þá 3000 kr. skv. núgildandi ákvæðum, en myndi verða 4000 kr. skv. brtt. hv. 6. þm. Reykv.

Maður með 4000 kr. hreinar tekjur hefir skv. skattalögum 1000 kr. skattskyldar tekjur og greiðir í tekjuskatt kr. 11.20, en ef till. hv. þm. verður samþ., greiðir hann ekkert.

Maður með 5000 kr. hreinar tekjur hefir 2000 kr. skattskyldar tekjur og ætti að greiða í tekjuskatt kr. 33.60, en eftir till. kr. 6.72, og lækkar þannig tekjuskatturinn um kr. 26.88.

Ef við tökum mann, sem hefir 6 þús. kr. hreinar tekjur, þá eru skattskyldar samkv. skattal. 3 þús. kr., tekjuskattur nú 89.60 kr.. skattskylt samkv. brtt. 1600 kr., tekjusk. 24.64. Tekjuskattur lækkar um 64.96 kr., og þannig má halda áfram. — Af 7 þús. kr. tekjum verður skattskylt samkv. skattal. 4 þús. kr., tekjuskattur nú 173.60 kr.; skattskylt samkv. brtt. 2600 kr., tekjuskattur 67.20 kr. Tekjuskattur lækkar um 106.–40 kr. — Af 8 þús. kr. hreinum tekjum er skattskylt samkv. skattal. 5 þús. kr., tekjuskattur nú 285.60 kr.; skattskylt samkv. brtt. 3600 kr., tekjuskattur 140 kr. Tekjuskattur lækkar um 148.60 kr. — Af 11 þús. kr. hreinum tekjum er skattskylt samkv. skattal. 8 þús. kr., tekjuskattur nú 1013.60 kr. skattskylt samkv. brtt. G600 kr., tekjuskattur 588.00 kr. Tekjuskattur lækkar um 425.60 kr. samkv. brtt. flm.

Hvaða meining er í því, að maður, sem hefir 11 þús. kr. í hreinar tekjur, skuli eiga að fá tekjuskattinn lækkaðan um 425.60 kr. á sama tíma sem erfiðleikar atvinnuveganna aukast á öllum sviðum? maður, sem hefir 20 þús. kr. hreinar tekjur, skal greiða skatt samkv. skattal. af 17 þús. kr., tekjuskattur nú 4457.60 kr.; skattskylt samkv. brtt. 15600 kr., tekjuskattur 3866.21 kr. Tekjuskatturinn mundi lækka um 591.36 kr. samkv. brtt.

Ég hefi nú tekið nokkur dæmi til þess að sýna, hvað af því myndi leiða, ef brtt. þessi yrði samþ., og mér hefir verið leyft að hafa það eftir skattstjóra, að ef þessar brtt. yrðu samþ., þá myndi það hafa í för með sér mörg hundruð þús. kr. tekjurýrnun. Þess vegna tel ég það ekki ná nokkurri átt að samþ. þessa brtt. eins og hún nú liggur fyrir, enda viðurkenndi hv. flm. það, að hafa borið fram þessa brtt. án þess að hafa gert sér grein fyrir því, hvaða áhrif það myndi hafa á tekjuskattinn. Mér dettur hinsvegar ekki í hug að halda því fram, að ýmsar nauðsynjavörur hafi ekki hækkað í verði og erfiðleikar fólksins þar af leiðandi aukizt, og frá því sjónarmiði væri réttmætt að hækka persónufrádráttinn. En ég hygg, að mér sé óhætt að segja það, þrátt fyrir rökin, sem hv. flm. hefir viljað færa sínu máli til stuðnings, að fjhn. sé óskipt um það að fella þessa brtt., enda veri það mjög óforsvaranlegt, ef Alþ. færi nú að skera niður aðaltekjustofn ríkisins. Annars skal ég sem frsm. fjhn. leyfa mér að óska þess, að hæstv. fjmrh. láti í Ljós sitt álit um það, hvort hann telur Fært að samþ. þessa brtt., sem hér liggur fyrir um hækkun á persónufrádrættinum.