17.04.1940
Neðri deild: 41. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

86. mál, ríkisreikningurinn 1938

*Jón Pálmason:

Eins og frsm. tók fram, hefi ég skrifað undir nál. með fyrirvara, og er sá fyrirvari vegna þess, að mér fellur hvorki í þetta sinn eða áður sú aðferð, sem höfð er við afgreiðslu ríkisreikninganna. Það er eins og lað sé orðin föst venja hér á Alþingi, að þótt bornar séu fram rökstuddar og ítrekaðar aths. við ríkisreikningana, skiptir Alþingi sér ekkert af þeim aths., og það er látið fljóta, þótt endurteknar séu ár eftir ár þær misfellur, sem yfirskoðunarmenn finna að.

Það var svo, og er enn, að fjvn. hefir setið yfir því vikum saman að hnitmiða, hvað ætti að greiða í laun til þessa og hins og hvað ætti að greiða til þessarar eða hinnar framkvæmdarinnar, og semja um það ýtarlega skrá. Mestur hlutinn af tíma þingsins fer í það ár eftir ár að semja fjárlögin, en svo hefir reynslan sýnt bæði á árinu 1938 og áður, að eftir fjárl. er ekki farið nema í einstökum atriðum. Til sönnunar því, hve mikið hefir verið farið eftir fjárlögum 1938, er það, að við höfum nú með að gera fjáraukalög upp á rúmlega 3 millj. króna. Svona hefir þetta gengið á undanförnum árum. Þetta er fyrirkomulag, sem ég tel bera mjög raunalegan vott um, hvernig störfunum er hagað. Þess vegna er það ekki furða, þótt þeir menn, sem hafa verið með f því að yfirfara þessa reikninga og hina, sem samþ. voru á síðasta Alþingi, eigi erfitt með að samþ. þessa reikninga. En það er ljóst, að úr því að ekki næst samkomulag um að bera fram tillögur til breyt. í þessu efni, muni það hafa næsta litla þýðingu fyrir mig að fara að flytja þær undir þinglokin.

Það stendur að því leyti sérstaklega á, að við höfum yfir okkur stjórn, sem studd er af öllum flokkum þingsins, og hefir verið ætlazt til þess, að hún tæki til rækilegrar athugunar að koma betra lagi á okkar fjármál, hvort sem úr því verður, en ég verð að draga í nokkurn efa, að það verði eins og til er ætlazt.

Þau dæmi, sem dregin eru fram af mér og mínum samstarfsmönnum, eru nokkuð ljós. Fjórða aths. er um það, að í launagreiðslum starfsmanna hefir verið farið mjög mikið fram úr því, sem starfsmannaskrá fjalar um. Þetta munar hvorki meira eða minna en 600 þús. kr. Þessi upphæð er þó ekki allt, sem hér um ræðir, því hinar smærri upphæðir hafa endurskoðendur ekki tekið með. Þessar umframgreiðslur, svo stórkostlegar sem þær eru, eru m.a. fólgnar í því, að það hafa verið ráðnir fleiri starfsmenn heldur en til er ætlazt og auk þess veittar margvislegar uppbætur og greiðslur, sem eru umfram það, sem ætlazt er til á fjárlögum. Þetta er atriði, sem við yfirskoðunarmenn teljum nauðsyn bera til, að komi til athugunar, og þótt fjvn. hafi lagt í það mikla vinnu að undirbúa þetta, virðist lítið tillit tekið til þess af hæstv. ríkisstjórn.

Ein aths. er sérstaklega um útvarpið, og má segja, að það sé ein af þeim stofnunum, sem einna frekastar eru í því að fara fram úr fjárlögum. Á þessu ári var greitt í laun hjá ríkisútvarpinu hvorki meira eða minna en 74 þús. kr. umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárl., og er það að mestu leyti til einstakra starfsmanna og í ýmiskonar kostnað, sem þingmenn hafa veitt athygli og yfirskoðunarmenn hafa bent á. þetta þarf að taka til rækilegri athugunar en gert er.

Þriðja dæmið er varðandi útistandandi skuldir ýmissa fyrirtækja, og þótt undarlegt megi virðast, fáum við þau svör, að það sé engin óeðlileg starfsemi, sem hér eigi sér stað, þótt útistandandi skuldir skipti milljónum. Ég verð að segja, að hað sé mikið, og vil geta þess, að landsverzlunin gamla á enn útistandandi skuldir að upphæð 182 þús. kr., og það hefir verið maður á launum fram á þennan dag til þess að hafa með þetta að gera. Ég býst við, að þetta fljóti meðan fyrirtækin starfa, en það kemur bezt í ljós, hvernig þetta er, þegar þau fyrirtæki eru lögð niður, sem athugasemdirnar fjala um. Raftækjaeinkasalan hefir nú verið lögð niður, og hjá henni eru útistandandi skuldir 497 þús. kr., og kemur nú á það reynsla, hvernig gengur að innheimta það. Því ber ekki að neita, að við þessar stofnanir sumar verður að vera nokkur útlánastarfsemi, þar sem vörur eru seldar með afborgunum, eins og bílar og viðtæki.

Næsta dæmið, sem vísað er til Alþingis, er um ríkisbúin. Það er atriði, sem var til umr. á seinasta hluta síðasta Alþingis, bæði í blöðum og á Alþingi, en við fáum þau svör um þetta frá stj., að engar ráðstafanir verði gerðar til þess að breyta þessari starfsemi.

Þá er næsta atriði, sem vísað er af okkur til aðgerða Alþingis, en það er varðandi ríkisspítalana, og það er atriði, sem í sambandi við síðustu reikninga var þrautrætt og þarf ekki að fara mikið út í. Aðalatriðið er það, að rekstrarkostnaður fer mjög mikið vaxandi. Það verður að viðurkenna, að nú er dýrtíð byrjandi og fer vaxandi, en fram að þeim tíma teljum við, að hægt hefði verið að komast af með minni útgjöld.

Þá eru nokkrar aðrar aths., sem vísað er til aðgerða Alþingis, t.d. varðandi útgáfu símaskrárinnar, sem er að vísu lítið atriði, en hefir þó sína þýðingu. Sá maður, sem sér um útgáfu símaskrárinnar, hefir býsna há föst laun, en hann fær fyrir að sjá um skrána allt það, sem kemur inn fyrir auglýsingar í henni. við teljum þetta óviðfelldið og óskum, að það sé tekið til athugunar. viðvíkjandi ríkisskattanefndinni og skrifstofu húsameistara eru það býsna háar upphæðir, sem þar eru greiddar umfram fjárlög og starfsmannaskrá. Hvað snertir skrifstofu húsameistara, hefir ekkert verið innheimt fyrir húsagerðir og teikningar, og höfum við fengið upplýsingar um, að hjá þeirri skrifstofu muni vera útistandandi um 30 þús. kr. Að vísu er mikið af því hjá hinu opinbera, en við teljum, að það eigi að koma breyting á þetta.

Þau meginatriði, sem við höfum vísað til Alþingis, benda til þess, að á undanförnum árum hafi verið farið ógætilega með fé ríkissjóðs. Hátt á annað hundrað þús. kr. eru óvissu gjöldin umfram það, sem áætlað er á fjárlögum. Ég mun nú ekki fara mikið út í það, vegna þess, að ég veit af reynslunni, að lítið tillit er tekið til aths. okkar af hálfu Alþingis, og sé ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist, að fara út í þetta, en tel, að á þessu getum við séð eina mestu sönnunina fyrir því, að okkar fjármál og fjármálastjórn eru í öngþveiti, þannig að við verðum að breyta til, hvort sem því verður gert fyrr eða síðar, því þetta fyrirkomulag á störfunum er ekki þannig, að það geti verið þjóðinni til heilla.