01.04.1940
Efri deild: 26. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Páll Zóphóníasson:

Áður en málið fer til n. langar mig til þess að benda hv. n. á það, í 1. lagi, að í a-lið 1. gr., þar sem rætt er um framlag til Búnaðarbankans, er þegar búið að skera niður 75 þús. kr. það er ekki lengra síðan en í fyrra, þegar þetta mál var til meðferðar hér í hv. d, að ég beitti mér fyrir því, að þetta framlag yrði ekki skorið svo mikið niður. Ég benti á það, að ef þetta framlag yrði skorið svona mikið niður, þá myndi af því leiða, a ekki yrði hægt fyrir bankann að leysa öll þaut lán, sem búið væri að veita. Ráðherra taldi þá, að sparisjóðsdeild bankans gæti í bili lánað byggingar- og landnámssjóði, og lofaði, að framlagið skyldi ekki lækkað frekar, svo á árunum 1941 og 42 mætti aftur endurgreiða sparisjóði, ef þá yrði lítið lánað, vegna þess að byggingarefni yrði það dýrt, að lítið yrði byggt. Ég tel það hrein og bein svik á gefnum loforðum við bankann, ef nú á að koma með meiri niðurskurð á framlagi til hans. Í öðru lagi er fyrir árið 1941 búið að náðstafa og lofa fé til einstaklinga, til endurbyggingar, og væru það því svik við þá, ef þeir fengju ekki það fé, sem þeim hefir verið lofað. Þess vegna tel ég alveg óforsvaranlegt að skera þetta framlag niður nú. Þá vil ég einnig benda á það, að ég tel alveg óforsvaranlegt að ætla að skera niður jarðræktarstyrkinn.

Þetta vildi ég benda hv. n. á til athugunar. Ég vil einnig benda á það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan í sinni ræðu, að jafnvel þó að fjárhagur ríkisins yrði svo góður, að fé yrði fyrir hendi, gæti verið rétt að hafa dálitla fúlgu til þess að grípa til og greiða ýmislegt annað, sem ekki er lögbundið. Hæstv. fjmrh. er hér að gefa í skyn, að hann sé að hugsa um það, þó að nóg fé verði fyrir hendi, að verja því ekki eins og á gera ráð fyrir, heldur ætli hann að nota þessa heimild til þess að draga úr löglegum fjárveitingum, en greiða aftur ólögbundar. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að veita þessa heimild nú; ég álít, að það sé nógur tími til þess fyrir þingið að veita slíka heimild síðar, ef slíkt ástand skapaðist, að þess yrði þörf. Þing er komið saman í byrjun árs 1941, áður en til þess kemur, að nota þurfi þessar heimildir, og sýni það sig þá, að þeirra sé þörf, má veita þær, en nú er það óþarfa fyrirhyggja, sem ég mun ekki verða með. Ég vil þess vegna eindregið leggja til, að þessi heimild verði ekki veitt nú.