22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 544, leggur fjhn. til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt., sem þar eru tilgreindar.

1. brtt. er í rauninni mest orðabreyt. Hún er um það, að í stað orðanna „ef nauðsyn krefur“ í upphafi gr. komi: ef fyrirsjáanlegt er, að tekjur ríkissjóðs bregðast verulega frá því, sem fjárlög gera ráð fyrir. — Í raun og veru er þetta alveg það sama. Það er bara sterkara að orðið kveðið í brtt. Nauðsynin er ekki gerð jafnalmenn og í frv., heldur er sagt: „Ef verr fer en á horfist.“

2. brtt. er um það, að e-liður undir 1. tölul., um nýbýli og samvinnubyggðir, falli niður. Í rauninni er þetta engin breyt., vegna þess sem um þetta hefir verið sett í fjárl. Heimildin í fjárl. er einhlít og nægileg, því það er ekkert, sem takmarkar þetta annað en fjárlagaákvæðið. Ákvæðið, sem svo er aftur í l., er háð þeirri upphæð, sem veitt er í fjárl. hverju sinni. Heimildin í 22. gr. fjárl. er þess vegna nægileg til þess að ná þeim tilgangi, sem þessi liður átti að ná.

3. brtt. er um það, að 2. tölul. falli niður, en það er heimild til að lækka jarðræktarstyrkinn um 35%. Þetta varð að samkomulagi í n., og er það ekkert annað en vottur þess, að yfirleitt öllum þingflokkunum er annast um þennan styrk af því, sem hér er upp talið, og að úr honum skuli ekki dregið. Það er nú raunar svipað því og verið hefir frá því að þessi löggjöf var sett með shlj. atkv. þessara flokka, sem á þeim tíma voru mjög öndverðir hvorir gegn öðrum. En það hefir alltaf verið viðurkennt, að þessi löggjöf væri þörf. Og þótt útlit væri fyrir hættu á því, að draga myndi úr jarðræktarframkvæmdum vegna ástandsins, þá varð það samt að samkomulagi að fella þessa heimild niður og láta framlagið til þessara hluta haldast óskert.

Þá er brtt. undir II. Þar eru ákvæði um það, að ef til kemur, að þessar heimildir verði notaðar, þá skuli þær verða notaðar í sama hlutfalli allar, og það sama hlutfall skuli einnig ná til þeirra niðurfærslna, sem gert er ráð fyrir í 22. gr. fjárlaga. Ég er nú ekki viss um, að þetta séu svo tvímælalaus fyrirmæli. Ég er nú á því fyrir mitt leyti, að ef til vill hefði einmitt verið heppilegra að ákveða hér nokkurn mismun um það, hvenær ætti að grípa til þessara niðurfærslna á hverjum lið fyrir sig.

En svo er nú hætt við því, að seint hefði náðst samkomulag um það, hvað ætti að ganga fyrir. Það varð þess vegna samkomulag um það að tryggja, að þessar niðurfærslur skyldu ná jafnt til allra þeirra liða, sem nefndir eru í frv. Maður getur sagt, að það sé viss tortryggni. sem kemur fram í þessari brtt., en hún er þá sama trygging fyrir alla, en ég get ekki sagt annað um þessa till. fyrir n. hönd en að það varð samkomulag um að bera hana fram.

Ég skal svo aðeins geta þess, að það er með þetta frv. eins og fleiri l. og ályktanir, sem samþ. hafa verið á þessu þingi, að það ber það með sér, að það er afgr. í hendur samstjórnar, í hendur stjórnar, sem hefir traust svo að segja alls þingsins. Og ég verð að segja það, að það er a.m.k. mjög hæpið, að allir flokkar hefðu afgr. slíkar ályktanir og l. í hendur flokksstjórna, þar sem svo mjög er komið undir framkvæmd l., eins og er um mörg af þeim l. og ályktunum, sem þetta Alþ. hefir sett. Þess vegna er það tekið skýrt fram í nál., að þetta sé gert í því trausti, að ríkisstj. ræði þessi mál og taki ákvarðanir sameiginlega. Þannig er ætlazt til, að það mikla traust, sem þessir 3 flokkar sýna stj., komi fram í því, að ráðh. ræði málin sín á milli og taki sínar ákvarðanir þannig, að allir megi vel við una.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram. En ef það er eitthvað fleira, sem menn óska skýringa á, þá er ég auðvitað fús til að svara slíkum spurningum.