22.04.1940
Efri deild: 45. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

99. mál, lækkun lögbundinna gjalda

Fjmrh. (Jakob Möller):

Brtt. meiri hl. n. á þskj. 544 eru fram bornar í samráði við mig, og get ég á það fallizt, að þær verði samþ. Ég vil þó geta þess, að eins og nú horfir eru engar líkur til þess, að ríkissjóður geti innt af hendi öll gjöld, sem honum er ætlað. Þess vegna mætti ef til vili segja, að í þessu frv. væri frekar gengið of skammt en of langt í því að afla ríkisstj. heimilda til lækkunar útgjalda. Til samkomulags hefi ég þó getað á það fallizt að jarðabótastyrkurinn yrði tekinn út úr frv., og er það þá vegna þess fyrst og fremst, að af öllum þessum greiðslum stendur sérstaklega á um jarðabótastyrkinn, af því að hann er greiddur vegna þess, sem búið er að framkvæma af jarðabótum. Um brtt. hv. 10. landsk. er allt öðru máli að gegna, og því veit ég, að allir hv. þm. gera sér grein fyrir. Í þeim lið, sem þar er farið fram á að fella burt, er í raun og veru ekki farið fram á annað en það, að fallið sé frá því í bili að safna í sjóð, sem þar er um að ræða, því það dettur engum í hug, að nokkrar byggingar verði hægt að framkvæma á árinu 1941. Og jafnvel þó hægt væri að byggja, þá er starfsemi þessara sjóða ekki svo mjög skert, vegna þess að starfsemi þessara byggingarsjóða byggist aðallega á lántöku. Framlaginu er ekki ætlað að vera til annars en þess, að hægt sé að standast vaxtamismun á lánum, sem tekin eru til þess að kosta byggingarnar, og þeim lánum, sem húseigendum eru veitt. Starfsemi sjóðanna gæti þess vegna tvímælalaust haldið áfram.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. var að tala um sveitarsjóðina, þá verð ég að segja það, að mér finnst ekkert athugavert, þó að þeim sé þarna sýnd lítilsháttar linkind, þar sem vitað er, að þeir hljóta að eiga við að stríða fjárhagslega erfiðleika á næstunni, eigi síður en ríkissjóður, sem hefir meiri möguleika til að afla sér fjár og standast sínar greiðslur en bæjar- og sveitarsjóðirnir hafa yfirleitt.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Ég get fallizt á, að frumv. verði afgr. eins og meiri hl. n. hefir lagt til, og vænti, að d. geti fallizt á að fara eftir till. meiri hl.