28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

17. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er ekki þörf á að skýra þetta frv. frekar en gert er í grg., sem fylgir því. Eins og þar kemur fram, er hér aðallega verið að greina í sundur milli samgöngubóta og fyrirhleðslna, og nauðsynlegt er, að þar sé skýrt greint á milli, vegna þess að svo er fyrir mælt í l. um þessi mannvirki, að þar, sem verið er að vinna að fyrirhleðslum, skuli nokkur hluti kostnaðarins greiðast af sýslunni, en þar, sem um samgöngubætur er að ræða, er kostnaðurinn greiddur af ríkinu.

Í öðru lagi er lagt til í þessu frv-., að fyrirhleðslurnar fyrir Affallið verði eingöngu taldar til samgöngubóta, því að Affallið gerir yfirleitt mjög lítil landspjöll, en fyrirhleðslurnar við það eru aðallega nauðsynlegar vegna samgöngubóta.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. og vil óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og samgmn.