16.03.1940
Neðri deild: 19. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

39. mál, slysabætur á ellilaun og örorkubætur

*Pétur Halldórsson:

Herra forseti! Ég skal ekki fara lengra út í að tala um þessi 1. almennt, sem hér er verið að breyta, en ég ætti ákaflega mikið eftir að segja nm það, ef í það væri farið.

Það komu upplýsingar um það frá hæstv. félmrh., að það þyrfti að hækka iðgjöldin, jafnvel þó að framlag yrði hækkað samkv. vísitölu kauplagsnefndar. Ég verð að segja, að mér finnst það a.m.k. heldur einkennilegt, að slíkar stofnanir sem tryggingarstofnun ríkisins skuli ekki bera sig af sínum tekjum. Og komi fyrir, að tekjurnar nægi ekki fyrir gjöldum, að þá skuli fyrirtækið hugsa sér að hækka gjöldin og greiða meiri tryggingu en hingað til, jafnvel þó iðgjöldin nægi ekki til þeirrar greiðslu nú.

Hæstv. félmrh. sagði í frumræðu sinni, að iðgjöldin til slysatrygginga kæmu eingöngu frá atvinnurekendum. Ég skil það líka, að hæstv. félmrh. þótti svo sem ekki neitt ískyggilegt við það að hækka bæturnar, þó að til þess þyrfti aukin iðgjöld, vegna þess að þau kæmu frá atvinnurekendum og verkamönnum. M.ö.o., hæstv. ráðh. er að veita þarna fé, veita fé atvinnurekenda, en ekki sitt eigið eða ríkissjóðs. En t.d. sú stofnun, sem hv. þm. Seyðf. stendur fyrir, finnst mér fyrir mitt leyti, að eigi að taka tillit til sinna gjaldenda eins og þeirra, sem þiggja. Ég átti von á því, að þeim yrði ekki eins sárt um að hækka skattana vegna þess. hvaðan þeir koma. En hinu mega þeir ekki gleyma, að iðgjöldin, hvaðan sem þau koma, koma niður á öllum búskap þjóðfélagsins, þó að þau séu innheimt af atvinnurekendum. Hv. frsm. n. benti á atriði, sem er ákaflega eftirtektarvert. Hann sagði, að með því að hækka elli- og örorkubæturnar með dýrtíðaruppbót væri svipað á komið með starfsmönnum ríkisins og ellilaunaþegum. En mér finnst hann ekki hafa veitt því athygli, að allir þeir, sem þiggja opinber laun, hvort það eru styrkþegar eða starfsmenn hins opinbera, eru nú að verða aðalhátekjufólkið í landinu, en hinir, sem verða að basla eins og bezt gengur, eiga það undir högg að sækja, hvort þeir á nokkurn hátt fá uppbætta dýrtíðina. Þetta er ákaflega varhugavert, að þeir, sem opinbert fé taka, annaðhvort sem laun eða sem styrk, hafi á hendi sameiginlega hagsmuni um það að skammta sér af opinberum sjóðum.

Það hefir verið bent á það, og það réttilega, að samræmi væri milli opinberra starfsmanna og ellilaunaþega á þann hátt, að ellilaunaþegar og þurfamenn taki einnig fé af opinberum sjóðum. Það er mjög hættulegt öllum búskap þjóðfélagsins, þegar þessir menn standa saman ð því að tryggja sinn hag, hvernig sem fer fyrir hinum, sem ekki geta tryggt sig á þennan hátt.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að þetta frv, ætti að verða til þess að hjálpa sveitarfélögunum, en grunur minn er sá, að hvernig sem þessu er hlutað út milli sveitarfélaga, verði það þeim ekki til hjálpar, heldur til falls. Ég skal játa það, að það er hið mesta vandamál að fara með þetta svo vel sé, að taka fé úr beggja höndum, þeirra, sem þennan styrk eiga að taka úr sveitarsjóðum og ríkissjóði, og hinna, sem eiga að borga. Þeir menn hugsa náttúrlega vel, sem vilja bæta öllum upp dýrtíðina og að enginn þurfi að svelta hennar vegna. En ég efast nú um, að það sé gott verk nema það nái til allra jafnt, og ég held, að þá færu að verða fáir menn í landinu, sem ekki nytu styrks á einn eða annan hátt. Að þessu leyti er fyrirkomulagið á úthlutun lífeyrissjóðs ákaflega óheppilegt, að sveitarstj. geti svo að segja ausið fé ríkissjóðs umfram það, sem þörf er á. Þess vegna er þetta framlag lífeyrissjóðs tvíeggjað, og verður það því meir, sem þingið notar vald sitt á þann hátt, að lokka sveitarsjóðina til þess að ausa út þessu fé. Það er satt, að þeir, sem ekkert hafa annað en 700–900 kr. til að lifa af hér í Reykjavík, eru ekki vel settir, en fyrir þeim er þá séð á einhvern annan hátt.

Ef ríkissjóður vill gera verulega gagnlegt verk fyrir sveitarfélögin eða draga úr þeim skaða, sem svona ráðstafanir geta valdið, þá finnst mér, að hv. þdm. ættu að geta samþ. litla brtt., sem ég skal lesa upp. Hún er þannig, að í stað orðanna „tilsvarandi uppbót af sínum hluta“ í niðurlagi 2. gr. komi: ekki minna en hálfan hundraðshluta vísitölunnar sem uppbót af sínum hluta. Mér er það ljóst, að ef dýrtíðin heldur áfram að vaxa, verður að gera ráðstafanir til þess að bæta úr fyrir þeim, sem ekki hafa annað til framfæris en þennan styrk. En ég tel það alveg þarflaust af ríkisvaldinu að gera það að skilyrði fyrir sínu framlagi, að fjórfalt framlag komi frá sveitarfélögunum. Ég tel líklegt, að sveitarstj. treystist ekki til þess að neita um uppbót vegna dýrtíðarinnar eða einhverja viðbót við örorkubæturnar. Ég tel það rangt af ríkisvaldinu að lokka fram meira fé en sveitarstj. telja nauðsynlegt. við skulum segja, að engin sveitarstjórn teldi minna framlag óhjákvæmilegt en helming vísitölunnar og að ríkissjóður legði fram helming.