12.03.1940
Neðri deild: 15. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

61. mál, umferðarlög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það er líkt ástatt um þetta frv. eins og hitt (frv. til bifreiðalaga), að það er samið og flutt samkv. beiðni dómsmrh. Ég vil taka það fram, af því að hér er um nýmæli að ræða, að nm. eru óbundnir um einstök atriði frv. Þetta frv. er að öllu leyti samið af vegamálastjóra og grg. einnig.

Því er ekki að neita, að þetta frv. inniheldur að miklu leyti ný ákvæði, sem hér eru óþekkt áður, en eru mjög þekkt og umrædd annarstaðar í Evrópu. En það, sem allir munu telja nauðsynlegt, er, að til séu nokkrar reglur um almenna umferð. Þau ákvæði, sem hingað til hafa gilt, hafa falizt í vegal. og bifreiðal., og við það hefir verið látið sitja. En þegar kom til greina að semja þetta frv., þá var um tvennt að velja: Annaðhvort að láta þessi eldri ákvæði halda sér og skírskota síðan til þess, að ráðuneytið gæfi út sérstaka reglugerð, eða þá hitt, að taka öll höfuðákvæðin út úr vegal. og bifreiðal. og bæta við því, sem þörf krefði, og gera það síðan að l., svo að við mætti hlíta, en að reglugerð yrði svo sett um smærri atriði og til nákvæmari skýringar.

Mér þykir ekki þörf á þessu stigi málsins að fara út í frv. í öllum atriðum, heldur vil ég benda hv. þm. á, að það, sem einkum er átt við, þegar talað er um nýmæli, er það, hvernig menn skuli haga umferð sinni og akstri. Hér á landi hefir hingað til verið svokölluð vinstri handar umferð eða vinstri handar akstur, því að vanalega er miðað við akstur bifreiða eða annara umferðartækja, sem eru á hjólum. Þetta hefir verið svo einnig í nokkrum öðrum löndum, en þeim fer nú fækkandi. Nú er svo komið, að í allri Evrópu, a. m. k. í þeim löndum, sem nokkru skipta okkur, eru ekki eftir með vinstri handar akstur nema Svíþjóð og Bretland. Um Svíþjóð er það að segja, að þar hafa þessi mál verið rædd um árabil, og eru þau nú komin á þann rekspöl, að búast má við, að bráðlega verði tekinn upp hægri handar akstur. Þá mundi aðeins vera eftir Bretland, og geta menn með nokkrum rétti sagt, að það standi okkur nokkru nær en önnur lönd, og gætum við því látið okkur lynda vinstri handar aksturinn. Athugandi er þó, að þar í landi hefir ekki verið mikið um breyt. að ræða nú á síðari tímum. En þar sem hægri handar aksturinn er nú kominn á svo að segja um allt meginland Evrópu, og gera má ráð fyrir, að Íslendingar haldi áfram að ferðast þangað mikið, þá hefir það mikla þýðingu, að samræmi sé í þessum reglum. Hér getur einnig verið um einskonar lífsnauðsyn að ræða, þar sem svo mikil hætta getur stafað af því, að einstök lönd taki sig út úr, að við það verður ekki unað.

Hér hefir verið lagt til í þessu frv., að hægri handar umferð yrði hafin hér á landi og hægri handar akstur lögleiddur, og þýðir það, að allur akstur fer fram eftir þeirri reglu og einnig umferð á gönguskeiði eftir torgum eða gangstéttum. En reglan brjálast ofurlítið við það, að gangandi menn, sem eiga að ganga á móti umferðarstraumnum, þeir eiga að ganga beint á móti komandi akstri, þannig að þeir halda sér á vinstri brún vegarins og víkja alveg út á vegarbrún. En þetta er gert í þeim löndum, sem hafa tekið upp hægri handar regluna, til þess að engin hætta sé á því, að gangandi menn eigi á eftir sér nokkurs von, sem þeim gæti stafað miski af. Með þessu fyrirkomulagi stafar gangandi mönnum minni hætta af umferðinni, sem á eftir þeim fer. Þetta er nákvæmlega tekið fram í ákvæðum frv. En til viðbótar við þessar skýringar skal ég geta þess, af því að nokkur straumur þykir sem nú muni liggja frá Íslandi til Norður-Ameríku, að þar hefir verið tekinn upp hægri handar akstur, og einnig í Bandaríkjunum, Kanada, Mexiko og fleiri löndum. M. ö. o., að ef tekin yrðu upp aukin viðskipti við þessi lönd, þá væri mjög hagkvæmt að lögleiða þær reglur, sem hér er lagt til í þessu frv.

Ég ætla þá ekki að hafa þessi orð fleiri, en vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr., en tel ekki þörf á að því verði vísað til n.