26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

61. mál, umferðarlög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég má biðja afsökunar á því, að ég hélt, að hér væri enginn, sem ekki hefði tekið allt það fram, er hann þurfti. Hv. þm., er kvaddi sér hljóðs, virðist hafa komið ókunnugur að frv. og ekki hafa hlustað á umr. um það. Hann virðist heldur ekki hafa lesið þær skýringar, sem fylgja frv. Það er langt frá því, að þessi undantekning sé gerð að ófyrirsynju, heldur er hún í samræmi við það, sem nú er orðið algengt í löggjöf í öðrum löndum og hefir skapazt af því, að reynslan hefir sýnt, að svona á þetta að vera, og öðruvísi ekki. Reynslan hefir sýnt, hvernig flest slysin atvikast, og þar með sannað, að þetta er öruggasta aðferðin til að forðast slysin. Hv. þm. munu sumir hafa áttað sig á því, að þrátt fyrir þá almennu reglu, að ganga vinstra megin á vegarkanti, þá fara gangandi menn, sem eiga von á, að ekið verði fram hjá þeim, venjulega á hægri vegarkant, svo að bifreiðarnar komi á móti þeim og þeir geti vikið út af veginum, ef með þarf. Þetta er vegna þess, að menn sjá þá bifreiðina, sem kemur á móti þeim, og geta vikið fyrir henni, en eiga ekki á hættu, að nein bifreið komi á eftir þeim. Ég hygg, að hér í og við Reykjavík sé t. d. aðalhættan af bifreiðum, sem koma aftan að mönnum, og þess vegna hafa margir tekið upp þessa reglu, einkum menn, sem orðið hafa fyrir bifreiðaslysum, þótt þau hafi ekki orðið svo alvarleg, að varðað hafi líf eða limi þeirra, og þykjast þeir miklu öruggari eftir að þeir hafa tekið upp þessa reglu. Þeir, sem ekki átta sig á þessu, segja, að með þessu sé komið ruglingi á frv., en þeir hafa þá ekki lesið skýringarnar við 13. gr. Þetta er orðin algild regla, einmitt til þess að forðast slys.