26.03.1940
Neðri deild: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

61. mál, umferðarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. En hvernig sem mál þetta fer, vildi ég a. m. k. óska þess, þó að hv. þm. hafi ýmsir betur vit á umferðarreglum heldur en dómarar, sem búnir eru að dæma um þessi mál ár eftir ár, og vegamálastjóri, sem hefir mikla reynslu í þessum efnum, að þeir geri ekki þessar reglur né umr. um þær að neinum fíflskaparmálum, þar sem menn vita, að a. m. k. 3 dauðaslys hafa orðið hér á landi af því, að við látum gangandi mann vera sömu megin á vegi og bifreiðar, sem aka í sömu átt, en ekki koma á móti bifreiðunum. Það er þannig ekkert vafaatriði, eins og líka hv. þm. V.-Sk. tók fram, að sú regla, sem nú á að taka upp í stað þessarar afkáralvegu reglu, sem hér hefir gilt, hefir alstaðar reynzt að afstýra stórkostlega slysahættu.

Ég man eftir því í a. m. k. tveimur málum, sem komu fyrir á meðan ég var dómari, þar sem dauðaslys urðu, annað á Hverfisgötunni og hitt fyrir framan fríkirkjuna í Reykjavík, að þau slys komu fyrir beinlínis fyrir það, að við höfðum þessa afkáralvegu reglu, að láta gangandi menn ganga sömu megin og ökutæki aka í sömu átt, en ekki á móti, mótsett því, sem nokkur önnur þjóð hefir hjá sér. Þessu vildi ég, að væri hægt að koma inn í höfuð hv. þingmanna.