03.04.1940
Efri deild: 28. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

61. mál, umferðarlög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það var viðvíkjandi þessu með rafknúðu vagnana. Ég benti ekki á það vegna þess, að það væri erfiðara að byggja þá fyrir vinstri umferð en hægri, heldur hitt, að við erum alltaf meira og meira að byggja upp okkar umferð með stórum vögnum, og að breytingin, sem núna kostar kr. 30 þúsund, verði, eins og t. d. í Svíþjóð, erfiðari eftir að rafknúðu vagnarnir hafa verið teknir upp.

Viðvíkjandi skólunum er það að segja, að það er ákaflega hætt við því, að meðan hægri umferð er ekki tekin upp, standi það í vegi fyrir umferðurkennslu í skólum, því að það er alltaf verið að vinna að þessu máli, og þótt maður búist ekki við því, að Bretar taki upp hægri umferð, vegna þess, hve mikið það kostar þá, og þess, hve vanafastir þeir eru, má búast við því, að fylgjendur hægri umferðarinnar haldi áfram að vinna að málinu. Má búast við, að það dragi úr kennslu í skólunum, því að þótt það kynni að verða fellt á Alþingi nú, væri það ekki þar með búið. Það er því bæði með tilliti til þessa og tilliti til kostnaðarins, sem bezt er að taka þessa ákvörðun strax.

Bretar eru vanafastir. En það er enginn vafi á því, að hægri umferð væri fyrir þá líka hagkvæmari. T. d. er það sagt, að það kosti þá jafnmikið á hverju ári að hafa ekki tekið upp metrakerfið eins og það hefði kostað þá á einu ári að breyta til. Við getum ekki gert okkur svo stóra. Við gerðum það ekki með metrakerfið og getum það ekki enn.

Það voru aðallega þessi tvö atriði viðvíkjandi rafknúðu vögnunum og kennslunni í skólunum, sem ég vildi leiðrétta.