22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

62. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Í tilefni af þeim ummælum, sem fallið hafa; vil ég benda á, að það bankaráð, sem hér er sett upp, er sett í staðinn fyrir þann gæzlustjóra, sem hefur verið við bankann, svo að það er ekki fellt niður embætti hans með öllu og ekki stofnað nýtt embætti, heldur ráð, eins og jafnan hefur þótt sjálfsagt að hafa við ríkisbankana. Hér er því ekki um stóra útgjaldabreytingu að ræða, heldur er þessi banki settur í nánara samband við stjórnarvöld landsins, og hlutfallskosning getur þá komið til greina. En þetta getur verið til öryggis fyrir Búnaðarbankann og líka til öryggis um það, að lánadeild verði stofnuð við bankann samkv. frv., sem láni til ræktunar á smábýlum úti um land. Þetta er gert í samráði við bankastj. og landbrh. og hefur ekki valdið ágreiningi hingað til. Í ádeilum sínum um það, að þessir bankaráðsmenn séu kosnir af landbn., hafa hv. þm. ekki gætt þess, að hin bankaráðin bæði eru ekki kosin af Alþ. Bankaráð Landsbankans er kosið af landsbankan. Bankaráð Útvegsbankans er kosið á aðalfundi bankans, þar sem fjmrh. fer með meiri hl. atkv. fyrir. hönd ríkisins. Svo hér er ekki vikið út af neinni braut, sem áður hefur verið viðurkennd. Og ég sé ekkert því frekar til fyrirstöðu, þó að fjvn. kysi bankaráð Landsbankans, heldur en að landsbankan. geri það.

Þeir, sem þykjast allra viðkvæmastir fyrir lýðræðinu í landinu, fá hér ekki átyllu til þess að hamast fyrir sínum hugsjónum.